Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013
Blogg #29 Live Stream frá Flórída!
27.7.2013 | 03:21
Afsakið tímaflakkið en við eigum eftir að blogga um æfingabúðir síðustu fjögurra daga hér í Flórída en það þarf að bíða. Komið er að lokamótinu - Jr. Open International hefst á morgun, laugardaginn 27. júlí.
Þá keppa þeir Grímur Ívarsson, Úlfur Þór Böðvarsson og bræðurnir Ásþór Loki Rúnarsson og Þórarinn Þeyr Rúnarsson. Daníela og Sævar keppa svo á sunnudag en eftir það keppa ALLIR krakkarnir í svokölluðu Golden Score móti
Bein útsending verður ALLAN DAGINN frá keppnissvæði 1 og svæði 2. ALLAR úrslitaglímurnar verða svo í beinni útsendingu, en þeim verður grúppað saman í eina sýningu. Þetta er mikil sýning, komið hefur verið upp glæsilegu keppnissvæði og úrslitaglímunum verður gert mjög hátt undir höfði en allar aðrar glímur eru stöðvaðar á meðan.
Keppnin hefst klukkan 09.00 hér í Flórída en það ætti að vera um kl. 13.00 heima á Íslandi. Opening Ceremonies eru kl. 19.00 að íslenskum tíma (15.00 í Flórída) og strax að þeim loknum verða allar úrslitaglímurnar.
Sami hátturinn verður hafður á daginn eftir fyrir IJF, meira um það á morgun.
Kveð með mynd af ströndinni í gær.
PS. Golden Score mótið er peningaverðlaunamót með sérstökum reglum, en þar tapar sá um leið sem fær annaðhvort víti á sig eða skor gegn sér, sama hversu lítið það er. Það verður áhugavert.
PSS. Þjálfarafundurinn var um borð í snekkju, farið var í siglingu og veittar lúxusveitingar og drykkir í boði hússins. Kliiikkað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogg #28 Lokapartí og ferðin til Flórída
26.7.2013 | 17:39
Baddi fyrrverandi samstarfsfélagi undirritaðs hjá CCP og Sara kona hans buðu í alveg stórkostlega magnað teiti eftir síðustu júdóæfinguna í Atlanta á laugardagseftirmiðdegi. Þau voru höfðingleg í meira lagi, vægast sagt, og buðu þangað öllu júdóliðinu og buðu okkur Maríu að bjóða þangað því fólki sem okkur stóð næst er við bjuggum í Atlanta.
Það var góðmennur listi sem samanstóð af Bill og John Bridges, snilldarbræðrum í leikjabransanum, nokkrum CCPerum af hálfgerðu handahófi og júdófólki sem við höfðum verið með í vikunni sem leið.
Við röðuðum í okkur hamborgurum, pylsum og drykkjum af allskyns tagi - Hollir auðvitað og góðir Fljótandi gerbrauð var þarna handa þeim sem ekki voru í íþróttum og undir lokin eftir að fólk hafði deilt um hernaðarstefnu Bandaríkjamanna og þá kumpána Bradley Manning og Snowden sem annarsvegar voru kallaðir landráðamenn og hinsvegar hetjur, þá sættust allir á að Bandaríkjamenn höfðu glatað einhverju er þeir urðu uppvísir að pyntingum og skildum hitt eftir til umhugsunar.
Er myrkvaði rann helmingur moskítóflugna Georgíufylkis á gúrmélyktina af vítamínhlöðnum víkingum og sugu úr okkur hvern einasta blóðdropa. Manni væri s.s. sama ef það hefði allt farið um sömu stunguna en þær voru eins og saumakona á koníaksfylleríi og leggirnir á undirrituðum voru eins og gatasigti og kláðinn eftir því. Þessi skaðræðisskepna er þvílíkur óþarfi að hún er langbesta sönnun þess að guð er ekki til og þá sér í lagi ekki í suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem einna heitast er trúað á hann. Mögulega býr hann á norðurpólnum við hliðina á jólasveininum og Rúdolf þar sem ekki er ein einasta moskítófluga í þúsundkílómetra radíus.
Kvöldinu var slúttað með því að sótt var forláta hálfsjálfvirk vélbyssa í safn Badda, en þau hjónin eru byssusafnarar. Baddi hafði smíðan hana úr hlutum keyptum af Ebay og hún er í fullkomnu lagi þrátt fyrir að vera merkt Hello Kitty og að á miðinu megi lesa stutt og fyndið þriggja stafa orð. Daníela var frekar hrifin af þessu tæki og eins og sjá má þá er eitthvað rétt og heilagt konu, skurðgröfu og vélbyssu.
Argh!
María Huld hefur held ég aldrei skotið af riffli en tók sig samt vel út með þetta vopn!
Sunnudagur Keyrt til Flórída
Morgunninn eftir þurftum við að sækja nýtt tryllitæki sem mundi færa okkur til Flórída. Fyrir valinu varð 15 sæta Chevrolet minibus en tólfsætatryllitækin voru uppseld. Við höfðum einhverra hluta vegna haldið að aksturinn tæki 9 tíma án hléa en það reyndist vera 12 tíma ferð plús stopp og runnu á okkur tvær eða þrjár grímur er við sáum það í gervihnattaleiðbeiningargræjunni frá TomTom.
Skemmst er frá því að segja að þar sem muuuuun rúmbetra var um hópinn í þessum rándýra bíl, þá þurftum við ekki nema þrjú stopp alla leiðina niður eftir og í stað þess að þurfa að skipta um bílstjóra eins og áður þá var ykkar einlægur í stuði í besta sætinu í bílnum og sat 14 tíma vaktina með prýði og keyrði alla leið.
Við komum okkur beint á hótelið er við mættum klukkan hálf fimm um morgunninn, gæddum okkur á yndislegum MacDonalds morgunverði í formi hamborgara, frelsiskartaflna og kókakóla. Sólin reis á kolvetnaþrútið júdófólkið í þann mund er lagst var til hvílu. Sem betur fer höfðu allir nema bílstjórinn (sem betur fer) sofnað vel og kyrfilega mikinn hluta leiðarinnar þannig að allir vöknuðu tímanlega í júdónámskeiðið sem hófst klukkan 9 um morguninn.
Niðurtalningin fyrir síðasta og langerfiðasta mótið var hafin. Nú tækju við þrír erfiðir æfingabúðadagar, einn dagur í hvíld, einn í vigtun og kött ef á þyrfti að halda og svo keppt á tveimur mótum á tveimur dögum.
Fyrst verður Jr. Judo International Open - tuttugu þjóða stórmót júdófólks 20 ára og yngri. Það er júdólega séð hápunktur ferðarinnar og þótt nægu sé yfir að gleðjast enn sem komið er, munum við fagna ærlega náist árangur þar, en svo gott sem allar þjóðir Suður-Ameríku senda keppendur þangað sem og þjóðir frá Evrópu og Asíu.
Að því loknu er komið að Golden Score peningaverðlaunamóti og þáttakendur þar eru hinir sömu. Þar er skipt í riðla og keppt er í Round Robin kerfi (allir keppa við alla í sínum riðli). Glímunum tapar fólk við fyrsta víti eða minnsta skor gegn sér (í stað ippon eða fullnaðarsigurs) og engin tímamörk eru! Einungis tveir komast áfram úr hverjum riðli og eftir það tekur við útsláttur uns einn sigurvegari stendur uppi með megnið af verðlaunafénu.
Meðal sigurvegara síðasta árs á báðum mótum var Geronimo Saucedo sem Ásþór og Úlfur töpuðu báðir fyrir í Dallas á dögunum og mun naumlegar í fyrra skiptið en hið síðara, en þeir voru báðir yfir þegar glíman var hálfnuð og þeir misstigu sig. Nú er að sjá hvort þeir ná fram hefndum og hvort einhverjir erlendir skúrkar koma til sögunnar og ná að læsa náköldum krumlunum í verðlaunin sem hinir hugumdjörfu íslensku víkingar eru með augastað á!
Spiliði nú þjóðsönginn í iTunes og fellið tár, tvö frekar en eitt, takk! Við sólbrennum á meðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogg #27 Vatnaveröld og seinasta æfingin í Waka Mu Sha
26.7.2013 | 17:14
Í þessu síðasta bloggi frá Atlantastórvikunni ætla ég að blanda saman tveimur dögum miðvikudegi og laugardegi. Hversvegna? Vegna þess að það voru kúl dagar.
Miðvikudagur
Deginum var eytt í magnaða ferð í Georgia Aquarium. Þar gefur að líta magnaðar verur úr sjávardjúpum, kóralparadísum, hitabeltisársvæðum og öðrum þeim sprænum og skítapollum sem príða veröld okkar. Í þessu safni eru herlegheitunum uppstillt þannig að úr verður stórkostleg sýning fyrir augu og eyru og þar er alveg lágmark að verja 3 klukkustundum.
Myndir segja meira en þúsund orð. Látum þær tala svona til tilbreytingar.
Kóralrif baðað í sólarljósi.
Fjölskyldan í kóralrifi
Krókódíll og þrjú saklaus börn.
Furðuskepnur í undirdjúpum.
Stóra fiskabúrið.
Mögnuð höfrungasýning. Þetta var um hálftíma sýning og var alveg hreint rosalega mögnuð. Þar mátti hvorki taka myndir né vídeó og að sjálfsögðu fórum við eftir því eins og Íslendinga er siður.
Laugardagur
Hörð morgunæfing hjá Leo White.
Daníela æfði talsvert á móti þessari massífu konu Rhonda. Hún var grjóthörð.
Ásþór tók snúning með öllum sem kenndu honum og æfðu með honum fyrir þremur árum. Nú voru stærðarhlutföllin aðeins önnur og hér skellir hann Chris eftir að hafa gert karlinn úrvinda úr þreytu. Chris er efnaverkfræðingur og þróar efnaferla til að framleiða flókin efnasambönd í miklu magni. Hann bruggar bjór í frítímanum og það meir að segja ansi góðan bjór eins og ég komst að um laugardagskvöldið.
Leo fylgdist alltaf vel með öllum á gólfinu og var sleitulaust að leiðrétta og bæta tæknina hjá öllum. Sem betur fer var ég nokkuð iðinn við að taka myndir þennan morgun þannig að Leo hafði ekki næstum jafn mikið að gera og venjulega!
Einn af jöxlunum var George Stein, moldríkur lögfræðingur sem sérhæfir sig í sauðdrukknum ökumönnum. Betur má ef duga skal, það sem af er árinu 2013 hafa orðið 587 dauðaslys í Georgíu og því miður urðum við vitni að einu slíku á leiðinni á miðvikudagsæfinguna, en það var svakaleg ákeyrsla rétt hjá Signal Court á Highway 78. Áfram George Stein, tapa nú málum og setja menn in the Stein!
Svo var ekki hægt að yfirgefa Atlanta án þess að taka smá snúning með meistaranum sjálfum og rifja upp einhver trix. Það var ekki leiðinlegt.
Ásþór varð mjög hissa þegar Leo bauð honum í glímu, enda er karlinn venjulega á hliðarlínunni sökum meiðsla síðan úr hernum en bólusetning gegn miltisbrandi fyrir Íraksstríðið fór úrskeiðis og gengur á handleggs- og fingurvöðva. Saddam Hussein átti svo ekki eina einustu anthraxbombu eftir allt saman, helvítið á honum! Hvað um það, tuttugu árum eftir sprautuna var ánægjan allsráðandi en Leo hefur alltaf þótt mjög vænt um Ásþór eins og sjá má á myndunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogg # 26 Yfirlit 2 frá Atlanta
26.7.2013 | 16:58
Komið var að síðustu helginni og eins og tíðkast á Íslandi hefst hún á föstudegi og lýkur á mánudegi.
Föstudagurinn
Föstudagurinn var þéttpakkaður af úrvalsviðburðum sem vinkona okkar Barbara Dominey hafði skipulagt. Í réttri röð voru þeir a) heimsókn í The King Center sem er minningarsetur um Martin Luther King Jr. b) Jimmy Carter Library sem er safn um samnefndan forseta Bandaríkjanna sem kjörinn var 1976-80, c) matur og d) heim í Signal Court í spunaspil og svo í bólið.
Föstudagur - The King Center
M.L.King er án efa er einn allra merkilegasti ameríkani sem uppi hefur verið. Á stuttri ævi tókst honum að mynda mannréttindahreyfinguna í Bandaríkjunum með góðra manna hjálp og leiða hana til lykta þannig að ekki varð aftur snúið með að leiðrétta kynþáttamisréttið vestanhafs. Þeirri baráttu er reyndar ekki lokið í hugum fólks og menningu en lagalega er henni lokið.
Safnið er afskaplega vel sett upp, en stytta af Ghandi stendur fyrir utan og á henni er ágrip af boðskap hans, en Ghandi hafði mikil áhrif á M.L.King Jr. sem fór til Indlands að fræðast um baráttu hans á námsárum sínum. Í safninu sjálfu er maður leiddur í gegnum kynþáttaaðskilnaðinn sem King fæddist inn í og menninguna í Atlanta sem var vægast sagt eldfim.
King fæddist og bjó á götu sem kallaðist í daglegu tali Sweet Auburn, en þar höfðu negrar komið sér fyrir í eigin samfélagi í algerum aðskilnaði frá hinum hvítu og var hvorum um sig refsað ef farið var yfir mörkin. Þegar höfðu menn verið hengdir og brenndir sökum þess að velgengni hafði grafið um sig eins og krabbameinskýli í helsjúkum aðskilnaðarlíkamanum til að reyna að halda því í skefjum.
Námsárum hans voru svo gerð skil, en hann var alveg fáránlega kristinn. Við heimsóttum Babtistakirkjuna þar sem hann predikaði og þar þrumar í sífellu prédikun hans úr hátölurum og lýðurinn tekur undir eins og trúuðum er lagið með reglulegum Yeess! og Halelujah! og ef maður lokar augunum þá er ekki svo langt í M.L.King Jr. sjálfan.
Magnað að hafa í huga hve mikilvægt það var fyrir þennan hreinlífa og ofurkristna prestsson þegar hann fór til Indlands og lærði af löglærðum hindúa í lendaklæðum en Ghandi átti sem nemur einni geit, moldarkofa og hlýjaði sér á næturnar með kornungum stúlkum og frelsaði í frítíma sínum Indland undan oki bretanna, en hans er helst minnst fyrir það auðvitað, ekki allt hitt.
M.L.King hlýjaði sér bara með konunni sinni og það er eiginlega ekki við hæfi að vera með frekari hótfyndni hér í kringum alla kynþáttavitleysuna og trúarofstækið því maðurinn gnæfir höfuð og herðar yfir aðra Bandaríkjamenn. Samt var hann bara tæpur einn og hálfur metri á hæð.
Föstudagur Óvænt aukastopp á Thelmas Rib Shack
Áður en við fórum á Jimmy Carter safnið kom gengið við á rifjastað sem er þess virði að minnast á. Thelmas Rib Shack leit alls ekki vel út utanfrá, en þvílíkur rifjarekki sem við fengum þar! Þeir kunna þetta svertingjarnir á Sweet Auburn, enda margt og mikið búið að grilla á þessum slóðum. Húsið var gjörsamlega að falli komið utanfrá séð og það er gjörsamlega útilokað að það eigi sér vefsíðu einhversstaðar. Ein hæð, múrsteinshlaðið, rauðmálað, lúið þak, áratuga gamalt einkennismerki og slagorð á spjaldi tyllt ofan við sama slagorð málað utan á húsið, næstu hús rústir einar. Við rétt svo þorðum inn, Barbara krossaði fingurna því mælt hafði verið með þessu við hana en hún ekki prófað sjálf. Við fórum inn og svo búmm! Galdur. Við borðuðum of mikið.
Föstudagur - Jimmy Carter safnið
En þá til safnsins. Jimmy Carter, eða Kip Carter var bolað úr embætti 1980 á fremur andstyggilegan hátt er Repúblikanar komu í veg fyrir að eigin borgurum væri sleppt úr gíslingu í Íran fyrr en eftir að þeirra maður hafði náð kjöri. Halelúja. Pétur bróðir Rúnars (yðar einlægur) hafði planað að fara þennan rúnt fyrir 7 árum er hann flutti til Atlanta. Ég er viss um að hann vara bara að bíða eftir bróður sínum og ekki að trassa þessa heimsókn. Heldur ekki Barbara sem hefur búið þarna í 20 ár eða eitthvað svoleiðis :)
Carter er einn af merkilegri leiðtogum ríkisins fyrir friðar sakir, en eftir forsetatíð sína hefur hann unnið sleitulaust að friðarumleitunum. Hann er rammkristinn auðvitað eins og King þannig að fyrirgefningin er eins og rauður þráður í gegnum feril hans, allt frá því að hann tók á móti Shahinum af Íran sem hafði murkað lífið úr milljón Írönum í valdatíð sinni undir vernd Bandaríkjamanna. Það er svona opinberlega allavegana, eini virkilega ljóti bletturinn á forsetatíð hans, því maðurinn er eins og engill í alla aðra staði. Ok, kannski ekki baráttunni gegn tóbaksreykingum, en fyrir utan það þá var hann Gabríel.
Maður segir var eins og maðurinn sé látinn. Það er svolítið skrýtið að vera í svona safni um mann sem er enn í fullu fjöri að reyta af sér snilldina um heim allan í þágu friðar og réttlætis. Uppáhaldsforsetinn minn síðan Roosevelt var og hét, sósíalistinn sá arna.
Að þessu loknu fórum við með Barböru og hittum manninn hennar Jack og dóttur Meg, út að borða ís með ávöxtum. Það var hreinlega óbærilegur hiti í Lilburn Atlanta akkúrat þá og ég held að allir hafi fengið sér tvo risaskammta. Það var yndislegt.
Föstudagur - Ævintýri í Signal Court
Kvöldinu lauk heima hjá Pétri með ævintýri fram til miðnættis og þar fóru mál í nokkurn hnút. Þar komumst við að því að launsátur sem hafði tekist að afstýra áður hafði verið að undirlagi frænda fórnarlambsins og ætlun hans var að leggja undir sig konungdæmið. Okkur tókst að finna nokkrar vísbendingar en á meðan einni þeirra var fylgt eftir lentum við í ógöngum og urðum fjölda fólks að aldurtila fyrir vikið. En það voru handbendi óþokka sem áttu það skilið þannig að samviskan svaf vært þótt við hefðum viljað standa öðruvísi að þessu. Mist hefði örugglega gert þetta öðruvísi.
Enter Sandman...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogg #25 Yfirlit 1 frá Atlanta
26.7.2013 | 16:39
Júdóhópurinn hefur verið að reyna að venjast hitanum frá því að við vorum í Atlanta. Innanhúss verður stundum mollulegt því loftræstikerfið bregst ekki alltaf við í samræmi við veðrið. Daníela tæklaði hann beint samkvæmt læknisráði og settist út á verönd með Facebook-gizmóið sitt og stórt glas af köldum drykk og var þar í rúma klukkustund. Viti menn, það virkaði og ekki var kvartað meira undan hitanum eftir það.
Litla tröllið
Við vorum á júdóæfingum út vikuna auðvitað. Daníelu hafði kviðið dálítið fyrir að hitta hér vöðvabúnt mikið sem heitir Elaina en FB myndaskipti sýndu hana náttúrulega eins og hún kemur fyrir. Hinsvegar kom í ljós þegar þær hittust loksins að það er ástæða fyrir því að Elaina er langt undir -48kg en hún er svo pínulítil að þótt hún væri nautsterk fannst Daníelu hún helst þurfa að passa sig að brjóta hana ekki.
Rétt er að nefna að æfingarnar í Atlanta, sérstaklega sú fyrsta, var MJÖG erfið fyrir okkur Íslendingana. Salurinn er óloftræstur nema hvað risavaxin vifta úti við dyr blæs lofti beint að utan inn um aðaldyrnar og ef það er fjörtíu stiga hiti úti, þá er fjörtíu stiga hiti inni. Upphitunin var eins og tveggja tíma æfing. Undirritaður meikaði varla 25 armbeygjur og það rifjaðist upp hvernig það sama hafði gerst þegar ég flutti hingað 5 árum áður. En það lagaðist eftir því sem leið á vikuna og Úlfur hafði að orði að þegar þau kæmu til Íslands mundu þau líklega aldrei verða þreytt framar og líklega ekki svitna heldur. Grímur hafði aldrei svitnað áður á æfingu, en þegar fyrsta æfingin var hálfnuð var hann gegnsósa. Fyrsta vísbendingin um að hann væri með svitakirtla eins og aðrir var komin í hús.
Bandarísk menning
Liðið datt í hið hefðbundna sjónvarpsgláp á kvöldin fyrstu 5 eða 6 dagana í Atlanta að okkur sem höfðum búið þar áður undanskildum. Kaninn er svo rækilega búinn að stúdera músarminnið í mannskepnunni að þeir vita nákvæmlega hversu langt þarf að vera á milli auglýsinga inni í bíómynd án þess að fólk missi áhugann á að horfa á sjónvarpið, gleymi myndinni eða skipti um rás og fyrir vikið verður meðalþáttur af staupasteini að tveggja tíma maraþoni og Lord of the Rings: Return of the King tekur tvo sólarhringa með pissupásum. Fyrir vikið var ómögulegt að vekja nokkurn mann fyrir hádegi fyrstu vikuna nema ef búið var að plana eitthvað, þá náðist fólk á lappir um tíu- eða ellefuleytið. Ekki slæmt það. Venjulegir unglingar snúa deginum gjörsamlega við undir þessum kringumstæðum en ekki júdófólk! Það er með massamótstöðuafl. Og svo er það líka þreytt eftir æfingarnar.
Javier Sayago og æfingar í Waka Mu Sha
Eftir laugardagsæfinguna sem lýst var í síðasta bloggi komu mánudags- og miðvikudagsæfingarnar. Þar kom nýtt fólk á hverja æfingu og urðu fagnaðarfundir þegar Javier og Ásþór hittust, en hann var einn af þjálfurum hans 2009-10. Hann var duglegur að glíma við alla Íslendingana og leist mjög vel á.
Javier er súperhress náungi og eftir miðvikudagsæfinguna vildi hann endilega koma með okkur út að borða. Þegar til kom var enginn svangur en alla langaði í ís að borða, enda engin furða eftir 2 tíma æfingu í 30 stiga hita. Javier reytti af sér brandarana og krakkarnir umkringdu hann gjörsamlega lengst af. Hann er einstaklingur sem maður getur ekki annað en glaðst yfir og með, enda brosir hann breitt af náttúrulegum orsökum samkvæmt hans útskýringu. Hann kemur frá Venesúela og þar klæða allar konurnar sig sagði hann, þannig að maður getur ekki annað en brosað daginn út og daginn inn.
Hann langar mjög mikið að koma til Íslands og þegar hann heyrði hvað það kostaði versnaði ekki útlitið. Góðar líkur á að það gerist!
Josh White og Richard Tremell
Annar sem langar til Íslands er Josh White. Hann æfir bardagagreinar, þ.á.m. júdó, kickboxing, karate og grappling og keppir í MMA. Hann er með hæsta meðalskorið í USA Best Overall eins og það kallast, en hann lenti í 3. sæti í Senior US Championships í vor og er í 5. sæti yfir landið. Við fórum á æfingu til hans á þriðjudaginn og ætluðum á fimmtudaginn, en það sama kvöld óskuðu Leo og Jackie eftir því að við heimsóttum þau aftur og það varð ofan á.
Æfingaaðstaðan hjá Josh er í klúbbi Richard Tremell, en hann er þrefaldur heimsmeistari í Shidokan frá 2001-2003 ef ég man rétt. Sá náungi æfði einnig með okkur hjá Leo White og var með á æfingunni þegar við komum í heimsókn. Það fyrsta sem maður tók eftir í æfingasalnum hans var hve óskaplega lítill salurinn var. Örlítið júdóæfingasvæði, bardagahringur, svo tók við boxpúða og pokasvæði ásamt lyftingaaðstöðu og sturtu. Það kom þó ekki að sök því Josh hefur hannað alveg einstaklega hugvitsamlegar æfingar sem fullnýta það pláss og þá aðstöðu sem er til staðar og við fengum mikið út úr því. Ekki síst sáum við svart á hvítu hve vel má æfa í pínulitlum sal ef beitt er smá hugviti.
Þeir sem vilja kynna sér Josh nánar geta flett honum upp á Facebook og fundið þar Black Ice. Endilega gera LIKE á hann þar.
Leo White, Evander Holyfield og Lebron James
Eftir æfingar stóð hópnum til boða að bregða sér inn í búrið þar sem Evander Holfield æfði á sínum tíma, en það er beint fyrir utan júdósal Waka Mu Sha, og sækja sér Powerade sem þar var í ægilegri stæðu. Þannig stóð á þeim að Lebron James, körfuknattleikssnillingur, gaf íþróttaiðkendum við þennan skóla 150 kassa af því eða svo að gjöf. Það var dálítið sérstakt að sækja sér Poweradeið hans Lebron James, NBA meistara, inn í æfingabúrið Evander Holyfield, heimsmeistara í boxi, eftir að hafa lokið við æfingu hjá Leo White, 19-földum Bandaríkjameistara í júdó. Í augnablik var eins og Bandaríkin væru á stærð við frímerki.
Heimsókn í breytt hverfi
Á leiðinni heim eftir eina æfinguna kom júdóhópurinn við í götu sem heitir Stillwood Forest en þar bjuggu Ásþór, Þórarinn og foreldrar fyrir þremur árum. Við kunnum ekki við að ónáða þá sem bjuggu í húsinu og bönkuðum því upp hjá þeim nágranna sem við þekktum best, hana Ann Carter, sem kom óvænt með nýtíndar ferskjur handa okkur einn daginn, við buðum henni í mat á móti og hún kom aftur færandi hendi með sultu. Það fékk aðeins á okkur að heyra að hún hafði dáið árinu áður og eftir að rifja aðeins upp þá áttuðum við okkur á að allir sem við þekktum áður í götunni voru annaðhvort dánir eða fluttir á brott. Það var merkilegt á ekki lengri tíma.
Spunaspil í Signal Court
Í Atlanta tókum við þrjár tarnir í Aski Yggdrasils alls, tvær að kvöldi og eina að degi til. Þar fengu tæplega 20 ára gamlar persónur að reyna sig við persónur júdómannanna og það þótti okkur einna magnaðast að engin þeirra voru fædd þegar persónurnar tóku sín fyrstu skref í Goðheimum á fyrri hluta 10. áratugarins. Magnað. Gömlu jaxlarnir voru þeir Myrkon og Snorri en þeir eru sumum austfirðingum á fertugsaldri af góðu kunnir.
Matarboð hjá hr. og frú White
Komið var að seinna matarboðinu hjá þeim Leo og Jackie og við ákváðum að nota fyrripart dagsins í að versla í mollinu. Það var skrautlegt og sannaðist þar enn einu sinni að Íslendingar eru og verða óarfturkallanlega seinir því þeim finnst mínúta alltaf vera klukkustund og klukkustund alltaf vera dagur. Okkur tókst samt að vera bara 20 mínútum of sein.
Hinsvegar sannaðist það líka að Íslendingar geta verið lang-lang-langskemmtilegasta fólk í heimi því við vorum hjá þeim hjónum og Leo yngri frá klukkan fimm um daginn og fram yfir miðnætti við mat og heilsudrykkju og allskyns spil, töfrabrögð, spjall og leiki. Það var alveg ofboðslega skemmtilegt og Þórarinn níu ára og aldursforsetinn rúmlega sextugur skemmtu sér hvor öðrum betur.
Hápunkturinn var líklega þegar við Daníela stjórnuðum sitthvorum Werewolves leiknum og varúlfarnir unnu annað spilið en elskendurnir unnu hitt spilið en það getur verið frekar erfitt. Þar drápu Leo yngri og Grímur alla þorpsbúana í fyrra spilinu og var Úlfur þeirra síðastur, en við María náðum að svíkja bæði Jackie og Leo í tryggðum í því seinna. Þetta er einstaklega skemmtilegt spil og ég mæli eindregið með því. Fæst í Nexus og Spilavinum ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogg #24 Júdó og partí
26.7.2013 | 16:22
Dagarnir tíu í Atlanta voru lagðir undir júdó og partí!
Leo White og Waka Mu Sha
Við æfðum hjá Leo 13. 15. 17. og 20. júlí og hjá Josh White í bardagalistaklúbbi Richard Tremell þann 16. júlí. Ætlunin var að æfa þar líka þann 18. en Jackie og Leo White vildu endilega fá okkur aftur í heimsókn þannig að það varð ofan á. En byrjum á byrjuninni
Laugardagurinn 13. Júlí
Við vöknuðum eldsnemma og ykkar einlægi fararstjóri hafði áhyggjur af því að liðið yrði of seint og eins og venjulega þá fór það aðeins í skapið á honum. Við vorum hinsvegar on-time á endanum (kannski vegna hins áðurenfnds skapbrests) og úr varð þessi líka frábæra júdóæfing. Leo kenndi gólfglímu og sýndi snúning sem Ásþór hafði alltaf haldið mikið upp á í gamla daga en gleymt síðan þá. Það tók hann ca. 7 daga að gleyma honum aftur en maður minn hvað dagarnir voru skemmtilegir á meðan hann mundi viðsnúninginn!
Eftir hörku upphitun þar sem fararstjórarnir voru við það að lognast út af í hitanum tók við tækniæfing og svo glíma.
Það var upplífgandi að heyra Leo flytja ræðuna sem hann fer nánast alltaf með í upphafi tíma og við lok tíma. Þau tækifæri notar hann til að koma til skila hugsjón sinni um júdóæfingar. Sérstakt er hjá Waka Mu Sha að kennarinn (sensei) og nemendurnir (judoka) standa ekki andspænis hvor öðrum heldur í hring og virðingarstaðurinn sem fínni klúbbar hneigja sig til við upphaf og lok æfingar er ekki fyrir endanum heldur í miðjunni og speglar virðingunni á iðkendurnar. Þetta er ágætis venja hjá Leo og að sjálfsögðu tóku allir þátt í því.
Eftir æfinguna notuðum við laugardaginn til að spila spunaspil saman, en helmingurinn af hópnum hafði aldri séð það áður og Daníela, Úlfur og Grímur höfðu aldrei áður prófað slíkt spil.
Það var feikilega gaman, tveir hópar hófu leikinn, annar undir stjórn Rúnars og hinn undir stjórn Péturs og leiðir þeirra lágu saman í miklu örlagastríði þar sem persónur Sævars, Þórarins, Ásþórs og Gríms náðu á síðustu stundu að koma í veg fyrir að persónur Úlfs og Daníelu létu lífið. Persóna Maríu hinsvegar missti lífið en Þórarinn litli linnti ekki látunum fyrr en hún var endurlífguð og kostaði það aðstoð guðanna og fórnir til þeirra.
Þeir sem skilja ekki hvað ég var að skrifa Sorrý, þið eigið greinilega eftir að spila spunaspil.
Sunnudagurinn 14. júlí
Aðalatriðið þennan dag var matarboð hjá Jackie og Leo White og hlakkaði alla gríðarlega til að fara þangað upp úr hálf þrjú. María og Daníela voru komnar með ofsakláða af tilhlökkun yfir að fara að versla og þeim varð ekki haldið. Eins og Íslendingum sæmir voru þær á síðustu stundu, enginn tilbúinn og því urðum við aðeins of sein í matarboðið sem haldið var fyrir okkur.
Fljótlega voru Grímur og Úlfur komnir í hrókasamræður við Leo, en þeim hafði orðið vel til vina á æfingunni og lært mikið.
Það skemmdi þó ekki fyrir alveg frábærri stund en við vorum lengi frameftir hjá þeim, spjölluðum um júdó, Ísland, ferðina, mót og annað. Leo og Jackie fóru með okkur í skoðunarferð ofan í kassa og hirslur í kjallaranum þar sem dreginn var fram aragrúi af verðlaunum og viðurkenningum fyrir árangur í júdó. Það er helst að maður hafi séð jafn glæsilegt safn heima hjá Bjarna Friðrikssyni. Við smelltum einni mynd af í ókláruðum kjallaranum hjá þeim en þar á Trophy-safnið framtíðarheimili.
Húsið hafði verið þrifið og þvegið og spúlað að utan og innan fyrir heimsóknina og ekki skemmdi fyrir að þau hjónin voru búin að bjóða flestum þeim júdómönnum sem við María, Ásþór og Þórarinn þekktum frá því að við bjuggum hér, þannig að úr urðu fagnaðarfundir.
Þórarinn Þeyr hafði nóg að gera við að skemmta sér með þeim krökkum sem þarna voru, en Íslendingurinn Kristján Örn Óskarsson er við nám í Atlanta mætti ásamt konu og börnum. Það kom samt ekki veg fyrir að Þórarinn tékkaði aðeins á stóru stelpunum á staðnum en Meg og Elaina æfðu júdó með honum og Ásþóri fyrir þremur árum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogg #23 Peningaskortur og hættan við hjólabretti
26.7.2013 | 16:12
Fyrsti dagurinn í Atlanta fór í verslunarferð og að ná sér eftir keyrsluna. Við skoðuðum nánasta nágrenni okkar og svo um kvöldið sóttum við Pétur Örn Þórarinsson, en hann lánaði okkur bílinn sinn í fyrri hluta ferðarinnar. Sökum anna láðist okkur að taka ljósmyndir en þær sem fylgja fengum við sendar frá Keith Roberts, kunningja okkar frá því að Ásþór og Þórarinn voru síðast í Bandaríkjunum að keppa.
Við athuguðum líka peningastöðuna á sameiginlega sjóðnum og eftir meira en 2 heilar vikur on the road kom smá matvendni hér og þar í veg fyrir að við borðuðum á þeim stöðum sem voru ódýrastir hverju sinni. Það munar dálítið miklu ef sjö manns borða fyrir $35-$40 eða $60-$100 þrisvar á dag. Við höfðum líka keypt í stórmörkuðum en það kom líka fram svart á hvítu að ef keyptar eru 6 matartegundir og einungis einn eða tveir borða þrjár þeirra þá skemmist restin í svona hita og á svona löngu ferðalagi. Ágætis memó fyrir einhverja sem ætla að leika þessa ferð eftir síðar meir, hver og einn þarf að taka ábyrgð á sjálfum sér annars verður peningaskortur ekki umflúinn.
Þegar komið var til Atlanta þar sem hægt er að elda almennilegan mat í eigin eldhúsi og geyma mat í góðum ísskáp, þá tóku fararstjórarnir upp harðlínustefnu og tóku út úr bankanum þá peninga sem nota mátti út vikuna og það var ekki mikið á dag. Það gekk alveg stórkostlega vel og við unnum tveggja vikna semi-sukk upp á næstu tveimur vikum!
Eins og áður var sagt frá, þá er hópurinn á ferð á lánsbíl Péturs Arnar, bróður undirritaðs, og Þóru konu hans. Eins og gefur að skilja var lagt upp með að fara vel með tækið, enda glænýr, stór sjálfskiptur station bíll með plássi fyrir allan hópinn. Þá er mikilvægt að kaupa sér ekki hjólabretti í upphafi ferðarinnar og enn síður að koma því fyrir fyrir framan lappirnar á sér í framsætinu með sandpappírshliðina í mælaborðinu. Þessu komst Sævar að í Atlanta, eða reyndar Pétur Örn þegar hann var sóttur á völlinn, að þetta skaðræðistæki var búið að stórskemma hanskahólfið og mælaborðið með nuddi. Það var smá áfall þ.s. við höfðum kappkostað við að fara varlega með glænýtt tryllitækið, keyra alltaf á löglegum hraða, borða ekki í bílnum o.s.fr.v.
En góð ráð reynast ekki mjög dýr þegar uppi var staðið og eftir smá athugun gæti verið að um sé að ræða kannski tæpa $200 í að fixa allt saman, jafnvel minna.
Hjólabretti eru bölvuð skaðræðistól, gerð til þess eins að handleggsbrjóta sig eins og Metallica komst að 1986-7! Það er enn eitt minnisatriðið handa þeim sem fara í svona ferð síðar meir. Engin hjólabretti í bílnum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogg #22 Loft- og geimferðaáætluninni gerð skil í Washington
17.7.2013 | 04:51
Við tókum morguninn snemma, lögðum í nágrenni safnsins og kláruðum það á tveimur tímum.
Meðal þess sem við skoðuðum var fyrsta flugvélin sem nokkurntíman flaug og þótti okkur nokkuð magnað að standa við hliðina á því tæki. Ef fyrsta skipið sem sigldi á hafinu væri til þá væri merkilegt að sjá það. Þarna var fjöldi flugvéla af hinum ýmsu gerðum en einna stærstan hluta safnsins hefur kaninn lagt undir geimferðaáætlunina og því að gera henni skil, enda fer ekki á milli mála hverjir unnu geimkapphlaupið þegar gengið er um safnið. Hugrekkið sem hefur þurft til að troða sér í þær sardínudósir sem þarna eru um allt hefur verið hreint ótrúlegur en líka útsjónarsemin, eljan og samvinnan að koma þeim út í geim, til tunglsins með menn innanborðs og skila öllum heilum á höldnu aftur með tunglgrjót og magnaðar ljósmyndir af yfirborði annars hnattar.
Tunglið er reyndar tæknilega séð jörðin því það varð til við árekstur tungls A og tungls B sem varð jörðin sú sem við byggjum og tunglið var það grjót og drasl sem þeyttist á sporbraut um jörðu við það tilefni. En bandaríkjamenn eru að plana ferð til Mars og það verður þá fyrsta alvöru extraterrestrial gangan.
En hvað um það. Hér er ein mynd af risaeðlu til að fá þig til að hugsa um Washington aftur.
Við snertum grjót frá tunglinu og sáum geimbúninga og hylki, geimstöð og annað sem raunverulega hefur VERIÐ úti í geim, á tunglinu og á sporbaug um jörðu og lásum okkur til um það allt saman.
Að skoðunarferðinni lokinni hysjuðum við upp um okkur og keyrðum rakleiðis til Atlanta. Það er 10 tíma keyrsla ef bensín- og pissustopp eru ekki talin með og við vorum komin á áfangastað á mettíma en við lögðum í bílastæðið heima hjá Pétri og Þóru klukkan eitthvað yfir eitthvað. Það var svo mikil þoka að við sáum ekki á klukkuna og vorum ekki viss um að vera í réttu húsi fyrr en um morguninn.
Hér er einn ungur maður að kveðja Washington í bili. Spurning hve langt verður þar til næst?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blog #21 Circular Logic Fréttablogg
17.7.2013 | 03:15
Hvað er betra en að blogga á bloggsíðum MBL um frétt sem birtist um WOW Júdó hópinn á MBL.IS
http://www.mbl.is/sport/efstadeild/2013/07/16/judofolk_rakar_inn_verdlaunum_i_bandarikjunum/
Það er ekkert betra bara :)
Þetta er svona "Aukablogg" - Lágmarksáreynsla, max ávinningur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogg #20 Langi dagurinn í Washington
15.7.2013 | 03:46
Því far flutt inn á Holiday Inn og þar fengum við tvö þessi líka fyrirtaks herbergi sem voru samliggjandi. Eftir að hafa tékkað okkur inn héldum við niður á National Archives að skoða lykilplögg Bandaríkjamanna en þau plögg eru Mannréttindayfirlýsingin (Bill of Rights), Sjálfstæðisyfirlýsingin og Stjórnarskráin. Safnið umhverfis undirstrikar þær hefðir og venjur, þjóðfélagsátök og breytingar sem af þeim hafa leitt.
Bandaríska stjórnarskráin er háleitt plagg sem miðaði að úrvalsþjóðfélagi sem ekki var til staðar á ritunartím
a þess. Magnað rit og magnað ferli sem á bak við það er, sérstaklega í samanburði við íslenska ferlið og stjórnarskrána heima fyrir í heild sinni sem er alveg eins og gatsigti sem misst hefur áhugann á að taka sjálfa sig alvarlega. Eða eru það kannski íbúarnir hér sem taka plaggið hátíðlega en ekki heima fyrir? Hvað sem því líður þá var þetta magnað safn og allir keyptu minjagripi eins og alvöru ferðamenn. Öll plöggin sem eru þarna til sýnis eru upprunalegu eintökin og myndataka var bönnuð þarna inni til að vernda plöggin fyrir skemmdum. Nú þegar var varla hægt að lesa mikið af textanum sökum skemmda.
Við gripum smá bita og notuðum tækifærið til að týna standinum undan upptökuvélinni. Það var nú gaman.
Næst á dagskrá var hápunktur dagsins, en það var Náttúrugripasafnið (Natural History Museum). Það er engin leið að fjalla um þá heimsókn í stuttu máli. Hápunktarnir voru mismunandi frá manni til manns, en undirritaður var hrifnastur af þeim hlutum sem snéru að upphafi heimsins og þróunarsögu mannsins. Við eigum okkur afar merkilega sögu. Vissir þú til dæmis að á ákveðnum tímapunkti var heildarfjöldi lifandi einstaklinga sem eru forfeður nútímamannsins einungis 10.000? Þar var samankomið genamengi allra lifandi manna. Það er nokkuð magnað.
Þriðja stöðumælagreiðslan bar ekki árangur vegna bílastæðaskiltaólæsis og við fengum 100 dollara sekt og á meðan því stóð sofnaði Daníela örmagna við útganginn, örmagna eftir þramm og sjálfsagt síðnæturveru á Snapchat. Hún á svo marga vini á Íslandi sem vaka fáránlega lengi frameftir!
Þessi sekt kom af stað einhverju ólánsferli sem náði hápunkti þegar minnstu munaði að Þórarinn gengi afturábak fyrir bíl sem var að keyra of hratt framan við hótelið okkar nýja. Svoleiðis keðja leiðindaatvika er til þess að koma manni í skilning um að fara að sofa og það var akkúrat það sem við gerðum! Annar flottur dagur á enda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)