Blogg #25 Yfirlit 1 frá Atlanta

Júdóhópurinn hefur verið að reyna að venjast hitanum frá því að við vorum í Atlanta. Innanhúss verður stundum mollulegt því loftræstikerfið bregst ekki alltaf við í samræmi við veðrið. Daníela tæklaði hann beint samkvæmt læknisráði og settist út á verönd með Facebook-gizmóið sitt og stórt glas af köldum drykk og var þar í rúma klukkustund. Viti menn, það virkaði og ekki var kvartað meira undan hitanum eftir það.

Litla tröllið

Við vorum á júdóæfingum út vikuna auðvitað. Daníelu hafði kviðið dálítið fyrir að hitta hér vöðvabúnt mikið sem heitir Elaina en FB myndaskipti sýndu hana náttúrulega eins og hún kemur fyrir. Hinsvegar kom í ljós þegar þær hittust loksins að það er ástæða fyrir því að Elaina er langt undir -48kg en hún er svo pínulítil að þótt hún væri nautsterk fannst Daníelu hún helst þurfa að passa sig að brjóta hana ekki.

Tröllið og pabbinn 

Rétt er að nefna að æfingarnar í Atlanta, sérstaklega sú fyrsta, var MJÖG erfið fyrir okkur Íslendingana. Salurinn er óloftræstur nema hvað risavaxin vifta úti við dyr blæs lofti beint að utan inn um aðaldyrnar og ef það er fjörtíu stiga hiti úti, þá er fjörtíu stiga hiti inni. Upphitunin var eins og tveggja tíma æfing. Undirritaður meikaði varla 25 armbeygjur og það rifjaðist upp hvernig það sama hafði gerst þegar ég flutti hingað 5 árum áður. En það lagaðist eftir því sem leið á vikuna og Úlfur hafði að orði að þegar þau kæmu til Íslands mundu þau líklega aldrei verða þreytt framar og líklega ekki svitna heldur. Grímur hafði aldrei svitnað áður á æfingu, en þegar fyrsta æfingin var hálfnuð var hann gegnsósa. Fyrsta vísbendingin um að hann væri með svitakirtla eins og aðrir var komin í hús.

Bandarísk menning

Liðið datt í hið hefðbundna sjónvarpsgláp á kvöldin fyrstu 5 eða 6 dagana í Atlanta að okkur sem höfðum búið þar áður undanskildum. Kaninn er svo rækilega búinn að stúdera músarminnið í mannskepnunni að þeir vita nákvæmlega hversu langt þarf að vera á milli auglýsinga inni í bíómynd án þess að fólk missi áhugann á að horfa á sjónvarpið, gleymi myndinni eða skipti um rás og fyrir vikið verður meðalþáttur af staupasteini að tveggja tíma maraþoni og Lord of the Rings: Return of the King tekur tvo sólarhringa með pissupásum. Fyrir vikið var ómögulegt að vekja nokkurn mann fyrir hádegi fyrstu vikuna nema ef búið var að plana eitthvað, þá náðist fólk á lappir um tíu- eða ellefuleytið. Ekki slæmt það. Venjulegir unglingar snúa deginum gjörsamlega við undir þessum kringumstæðum en ekki júdófólk! Það er með massamótstöðuafl. Og svo er það líka þreytt eftir æfingarnar.

Javier Sayago og æfingar í Waka Mu Sha

Eftir laugardagsæfinguna sem lýst var í síðasta bloggi komu mánudags- og miðvikudagsæfingarnar. Þar kom nýtt fólk á hverja æfingu og urðu fagnaðarfundir þegar Javier og Ásþór hittust, en hann var einn af þjálfurum hans 2009-10. Hann var duglegur að glíma við alla Íslendingana og leist mjög vel á.

Daníela og Javier

Javier er súperhress náungi og eftir miðvikudagsæfinguna vildi hann endilega koma með okkur út að borða. Þegar til kom var enginn svangur en alla langaði í ís að borða, enda engin furða eftir 2 tíma æfingu í 30 stiga hita. Javier reytti af sér brandarana og krakkarnir umkringdu hann gjörsamlega lengst af. Hann er einstaklingur sem maður getur ekki annað en glaðst yfir og með, enda brosir hann breitt af náttúrulegum orsökum samkvæmt hans útskýringu. Hann kemur frá Venesúela og þar klæða allar konurnar sig sagði hann, þannig að maður getur ekki annað en brosað daginn út og daginn inn.

Javier og krakkarnir hans

Hann langar mjög mikið að koma til Íslands og þegar hann heyrði hvað það kostaði versnaði ekki útlitið. Góðar líkur á að það gerist!

Josh White og Richard Tremell

Annar sem langar til Íslands er Josh White. Hann æfir bardagagreinar, þ.á.m. júdó, kickboxing, karate og grappling og keppir í MMA. Hann er með hæsta meðalskorið í USA – Best Overall – eins og það kallast, en hann lenti í 3. sæti í Senior US Championships í vor og er í 5. sæti yfir landið. Við fórum á æfingu til hans á þriðjudaginn og ætluðum á fimmtudaginn, en það sama kvöld óskuðu Leo og Jackie eftir því að við heimsóttum þau aftur og það varð ofan á.

Josh White og ákafir nemendur

Æfingaaðstaðan hjá Josh er í klúbbi Richard Tremell, en hann er þrefaldur heimsmeistari í Shidokan frá 2001-2003 ef ég man rétt. Sá náungi æfði einnig með okkur hjá Leo White og var með á æfingunni þegar við komum í heimsókn. Það fyrsta sem maður tók eftir í æfingasalnum hans var hve óskaplega lítill salurinn var. Örlítið júdóæfingasvæði, bardagahringur, svo tók við boxpúða og pokasvæði ásamt lyftingaaðstöðu og sturtu. Það kom þó ekki að sök því Josh hefur hannað alveg einstaklega hugvitsamlegar æfingar sem fullnýta það pláss og þá aðstöðu sem er til staðar og við fengum mikið út úr því. Ekki síst sáum við svart á hvítu hve vel má æfa í pínulitlum sal ef beitt er smá hugviti.

Þeir sem vilja kynna sér Josh nánar geta flett honum upp á Facebook og fundið þar „Black Ice“. Endilega gera „LIKE“ á hann þar.

Hópurinn eftir æfingu hjá Black Ice

Leo White, Evander Holyfield og Lebron James

Eftir æfingar stóð hópnum til boða að bregða sér inn í búrið þar sem Evander Holfield æfði á sínum tíma, en það er beint fyrir utan júdósal Waka Mu Sha, og sækja sér Powerade sem þar var í ægilegri stæðu. Þannig stóð á þeim að Lebron James, körfuknattleikssnillingur, gaf íþróttaiðkendum við þennan skóla 150 kassa af því eða svo að gjöf. Það var dálítið sérstakt að sækja sér Poweradeið hans Lebron James, NBA meistara, inn í æfingabúrið Evander Holyfield, heimsmeistara í boxi, eftir að hafa lokið við æfingu hjá Leo White, 19-földum Bandaríkjameistara í júdó. Í augnablik var eins og Bandaríkin væru á stærð við frímerki.

Black Ice og karlinn

Heimsókn í breytt hverfi

Á leiðinni heim eftir eina æfinguna kom júdóhópurinn við í götu sem heitir Stillwood Forest en þar bjuggu Ásþór, Þórarinn og foreldrar fyrir þremur árum. Við kunnum ekki við að ónáða þá sem bjuggu í húsinu og bönkuðum því upp hjá þeim nágranna sem við þekktum best, hana Ann Carter, sem kom óvænt með nýtíndar ferskjur handa okkur einn daginn, við buðum henni í mat á móti og hún kom aftur færandi hendi með sultu. Það fékk aðeins á okkur að heyra að hún hafði dáið árinu áður og eftir að rifja aðeins upp þá áttuðum við okkur á að allir sem við þekktum áður í götunni voru annaðhvort dánir eða fluttir á brott. Það var merkilegt á ekki lengri tíma.

Spunaspil í Signal Court

Í Atlanta tókum við þrjár tarnir í Aski Yggdrasils alls, tvær að kvöldi og eina að degi til. Þar fengu tæplega 20 ára gamlar persónur að reyna sig við persónur júdómannanna og það þótti okkur einna magnaðast að engin þeirra voru fædd þegar persónurnar tóku sín fyrstu skref í Goðheimum á fyrri hluta 10. áratugarins. Magnað. Gömlu jaxlarnir voru þeir Myrkon og Snorri en þeir eru sumum austfirðingum á fertugsaldri af góðu kunnir.

Matarboð hjá hr. og frú White

Komið var að seinna matarboðinu hjá þeim Leo og Jackie og við ákváðum að nota fyrripart dagsins í að versla í „mollinu“. Það var skrautlegt og sannaðist þar enn einu sinni að Íslendingar eru og verða óarfturkallanlega seinir því þeim finnst mínúta alltaf vera klukkustund og klukkustund alltaf vera dagur. Okkur tókst samt að vera „bara“ 20 mínútum of sein.

Leo yngri, Jackie og Leo og  

Hinsvegar sannaðist það líka að Íslendingar geta verið lang-lang-langskemmtilegasta fólk í heimi því við vorum hjá þeim hjónum og Leo yngri frá klukkan fimm um daginn og fram yfir miðnætti við mat og heilsudrykkju og allskyns spil, töfrabrögð, spjall og leiki. Það var alveg ofboðslega skemmtilegt og Þórarinn níu ára og aldursforsetinn rúmlega sextugur skemmtu sér hvor öðrum betur.

Hápunkturinn var líklega þegar við Daníela stjórnuðum sitthvorum Werewolves leiknum og varúlfarnir unnu annað spilið en elskendurnir unnu hitt spilið en það getur verið frekar erfitt. Þar drápu Leo yngri og Grímur alla þorpsbúana í fyrra spilinu og var Úlfur þeirra síðastur, en við María náðum að svíkja bæði Jackie og Leo í tryggðum í því seinna. Þetta er einstaklega skemmtilegt spil og ég mæli eindregið með því. Fæst í Nexus og Spilavinum ;)

Koma svo WOW Air, fljúga til USA!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband