Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Blogg #34 Partý og heimferð

Við höfðum samið við Saucedo feðgana sem voru meðal þeirra sem við vinguðumst mest við að nota sturturnar þeirra, því við höfðum tæmt herbergin okkar um morgunninn. Hinsvegar bólaði ekki á þeim og við tylltum okkur ásamt landsliði Bahamas á barinn og fengum okkur sérdeilis holla og óþynnkuvaldandi drykki. Við röbbuðum lengi vel og þar sem við vorum herbergislaus og sturtulaus þá buðu eyjaskeggjarnir okkur að skola af okkur. Við þáðum það og mikið óskaplega var það gott.

Eftir mótin kastaði maður mæðinni og hugsaði að nú væri helstu viðburðum lokið og hversdagsvirðuleikinn tæki við.

Gerry Navarro, Ásþór og Úlfur

Svo var aldeilis ekki! Time to go crazy!

Gerry og Rugludallarnir

Gerry Navarro, skipuleggjandi mótsins, hefur ævinlega lokaviðburð Jr. International Open ár hvert alveg stórkostlegt partí með mat, opnum bar, drykkjum, kökum, skemmtiatriðum og allskyns gamni. Þetta ár var partíið í stórum sal niðri við snekkjuhöfn og þar voru kræsingarnar alveg ólýsanlega flottar.

Partýflötin við höfnina 

Opinn bar með áfengum og óáfengum drykkjum af öllu tagi bókstaflega var mannaður hressum gaurum sem gátu blandað hvað sem hugurinn girntist án þess að sjá handa sinna skil. Við sátum auðvitað á okkur þ.s. framundan var löng keyrsla en við borðuðum hressilega. Sumir voru ákafari en aðrir:

Þórarinn partígaur 

Stelpurnar frá Bahamas eyjum byrjuðu á að bjóða Þórarni Þey upp í dans og hann ætlaði nú ekki að láta sig sjást dansa við gullfallega stelpu frá suðurhafseyju undir tónlist Justin Bieber! En svo lærði hann smátt og smátt að hundsa tónlistina og brátt var hann í algerum berserksgangi og sömleiðis íslenska gengið eins og það lagði sig. Þau slettu ærlega úr klaufunum en byrjuðu auðvitað á "Evil Pose":

Evil Pose í partíi 

Þetta eru nú  meiri vitleysingarnir! 

Þetta eru nú meiri vitleysingarnir 

Flottur hópur, frábært partí.

Góður hópur 

Þarna voru allir þjálfararnir, aðstandendur, íþróttaungmennin og aðstoðarlið og nóttin var  löng. Undir lok var ýmislegt gert, meðal annars sendir upp kínverskir pappírsloftbelgir og það var skemmtilegur endir á alveg svakalegu partíkvöldi.

Ferðin til Atlanta

Stefnan var að keyra á vöktum til Atlanta og ég tók fyrsta sprettinn. Eftir tveggja tíma keyrslu hafði hinum bílstjórunum ekki tekist að sofna og ég var nokkuð brattur til að byrja með en skyndilega sagði allt stopp. Þessar fimm vikur höfðu tekið toll af manni og hinir bílstjórarnir voru alveg búnir á því sömuleiðis. Við stóðum í þeirri trú að vera komin á ódýrt svæði og tókum næstu beygju út af hraðbrautinni Florida Turnpike. Engar merkingar voru og hvergi sjáanleg hús þannig að við vonuðum að við værum nú komin út fyrir „dýru“ svæðin.

Eftir að hafa keyrt í gegnum alveg stórfurðulegt verslanahverfi vorum við orðin nokkuð viss um að hafa skjátlast og þegar við komum á mótelið varð það ljóst – Við vorum á Palm Beach! Ekki ódýrt heldur dýrt sem sagt og í meira lagi. Þrátt fyrir að vera hálf dauður úr þreytu megnaði ég að þræta aðeins við næturvörðinn sem lækkaði hótelverðið niður í $99 fyrir nóttina frekar en að missa okkur út úr húsinu á næsta hótel. Ég hefði reyndar ekki meðgnað að keyra lengra en HANN vissi það ekki!

Hótelið á Palm Beach 

Þetta verð telst gríðarlega vel sloppið á gæðamóteli á Palm Beach og herbergið var það flottasta sem við gistum í alla ferðina, lítil sundlaug var útivið sem ég dýfði mér í þegar ég vaknaði, morgunmatur innifalinn og þar frameftir götunum.

Sundlaug á Palm Beach hótelinu 

Allt eins og best var á kosið. Eða kossið, það var svo gott að leggjast á koddann, ég ætla ekki að fara nánar út í það. Lá við að ég tæki hann með mér heim.

Til Atlanta

Við vorum svo þreytt að við ætluðum aldrei að hafa okkur af stað. Hópurinn var afslappaður, góð stemning og við stoppuðum nokkrum sinnum eftir smáræði hér og þar. Svo fundum við okkur „out of the way“ B-B-Q stað þar sem við fengum síðustu ekta bandarísku máltíðina okkar og það tók tímana tvo (bókstaflega) að fá matinn og klára hann. Við ætluðum auðvitað að vera tímanlega heima hjá Pétri og gera hitt og þetta en það bara náðist ekki. Við vorum mætt klukkan um hálf þrjú um nóttina og einungis fimm tímar þar til við þurftum að vakna og keyra út á völl.

Er ekki annars kominn tími til að birta myndir af bíl númer tvö sem hlaut ekki eins afgerandi gælunafn og bíllinn þeirra Péturs og Þóru sem ferjuðu okkur fyrri hlutann? Hér er Hvíti Drekinn/Risaeðlan:

Hvíti Drekinn 

Pétur náði rétt svo að kveðja okkur og í stuttu máli gekk allt eins og sögu á leiðinni heim. Eins og venjulega náði undirritaður reyndar ekki að leggja sig en það var bara fínt, því ég hefði þá etv. misst af júdóhópnum brillera á leiðinni. Það var svo mikið spaug og sprell í gangi hjá þeim öllum saman, eins og stórum systkinahópi, t.d. á flugvellinum í Boston að maður komst við.

Ávinningurinn af þeim júdósigrum sem hópurinn vann til eða annað sem hann upplifði í ferðinni komst í raun ekki í hálfkvisti við að koma til Íslands ríkari að vinum og virðingu, og umhyggju og umburðarlyndi gagnvart náunganum en áður en lagt var af stað. Það er eilíft veganesti. Þau höfðu hugrekki til að takast á við svo langa samveru og koma sterk út úr henni sem samstæður hópur. Samhjálp, samábyrgð og stuðningur hópsins við hvert annað var aðdáunarverður og eftir því var tekið. 

En hver var samt júdóávinningurinn? Jú:

Gull: 8

Silfur: 8

Brons: 11 ...eða 12 - Við hreinlega misstum töluna :) 

Ég færi hiklaust með þau öll aftur í svona ferð. Snilldarfólk.

Heimkoma

Fagnaðarfundir urðu á flugvellinum auðvitað og maður fann að foreldrahópnum var þakklæti í hug, en það var okkur Maríu einnig. Það er mikill heiður að vera sýnt það traust að sjá um börn annarra, þótt stálpuð sú orðin, í svo langan tíma. Það var manni ofarlega í huga og verður ætíð. Ég veit ekki hvort maður sjálfur væri nægilega sterkur til að sjá á eftir eigin drengjum í svo langa ferð með nokkrum manni. Ég vil þakka þeim kærlega fyrir samvinnuna og að koma þessu áfram og ég treysti því að allir séu ríkari fyrir vikið.

Móttökunefndin 

Foreldrarnir komu okkur Maríu svo hressilega á óvart með því að gefa okkur lúxusgistingu og fæði að Glym í Hvalfirði ásamt heimboði fyrir Ásþór og Þórarinn á meðan svo við hjónin náum góðri slökun og hvíld og að vera smá útaf fyrir okkur. Falleg hugsun þar og við þökkum þeim kærlega fyrir óvæntan glaðning.

Takk fyrir lesturinn kæru lesendur, Ferðin var öll tekin upp og stefnan er að gera um hana heimildamynd eins fljótt og auðið er.

Að lokum - Takk WOW Air fyrir að vera bakhjarl hópsins!

WOW bakhjarl júdósins 

 

Með bestu kveðju, Rúnar Þór Þórarinsson

PS. Er það ekki bara USA 2015?

2015? 

 


Blogg #33 Golden Score Tournament Florida

Jr. Open Intarnational, Golden Score – Allir kepptu!

Golden Score mótið fór fram strax að loknu Jr. Open International og til að fá að taka þátt þurfti maður að hafa keppt á aðal viðburðinum. Það gekk afar hratt fyrir sig og var undirritaður bókstaflega á hlaupum til að reyna að ná sem flestum glímum. Við höfðum komið upp aðalbækistöðvum á besta stað ofarlega í pöllunum og það var flottasti staður sem við höfðum verið á á nokkru mótanna.

Úlfur Þór á Golden Score mótinu

Úlfur og Ásþór eru auðvitað jafngamlir en þeirra flokki (Golden Score þungavigt) hafði verið skipt í léttari og þyngri sökum mikillar þáttöku og þyngdardreifingar. Það hefði því getað endað með því að þeir glímdu hvor við annan því Úlfur var í þyngri og Ásþór í léttari flokki, en um 25 kílóum munaði á léttasta og þyngsta í þeim aldursflokki.

Úlfur, Ásþór og Þórarinn í viðtali hjá Rúnari 

Nú var komið að Úlfi að ná sér ekki á strik en fram að þessu hafði hans aðalandstæðingur eiginlega bara verið Geronimo Saucedo og svo Ásþór Loki á fyrsta mótinu. Hann vann eina glímu örugglega en tapaði svo gegn Geronimo og svo einum öðrum náunga og lenti því ekki verðlaunasæti í sínum flokki og komast þar með ekki áfram í „overall“ útsláttarglímurnar. Þetta varð eina mótið af þeim sex sem hann keppti á sem hann náði ekki á pall og það er mjög góður árangur!

Ásþór Loki á Golden Score mótinu

Ásþór átti líkt og Úlfur möguleika á því fyrstur allra að ná í verðlaun á öllum mótunum í ferðinni, en til þess þurfti hann að lenda í efstu tveimur sætunum í sínum flokki til að komast áfram í „ovarall“ útsláttinn og svo vinna a.m.k. eina glímu þar.

Ásþór lenti í þeirri óskemmtilegu stöðu að tapa fyrstu glímunni. Hann var yfir en augnablikskæruleysi í glímunni um tökin kostaði hann sigurinn þar. Hann sýndi aftur mikinn karakter og vann hinar og lenti þar með í öðru sæti í sínum flokki og hafði silfur upp úr krafsinu og komst þar með í „Overall“ útsláttinn. Þar var síðasti möguleikinn á gullverðlaunum en þar yrði við ramman reip að draga því andstæðingarnir voru miklum mun þyngri og mjög keppnirsreyndir.

Ásþór og sigurvegari hans flokks á Golden Score 

Langflestir útsláttarflokkarnir fóru einfaldlega þannig að þyngri keppendurnir unnu. Það helgast af því að allir á þessum mótum eru á einn eða annan hátt reyndir eða óvenjulega öflugir í sínum aldurshóp eða með eitthvað mjög sterkt í sínum glímustíl, þá ýmist vörn, árás eða gólfglímu. Ásþóri Loka tókst að hafa fyrsta andstæðing sinn úr þunga flokknum undir. Sá var með eitt áberandi kast og hafði raunverulega engin önnur brögð og Ásþór náði að loka svo á hann að áður en langt var um liðið fékk sá dæmt á sig víti fyrir falssókn og þótt fyrr hefði verið en hann kastaði sér í gólfið án þess að ógna um leið og hann snerti á anstæðingnum. Ásþór þurfti auðvitað að sækja sannfærandi á meðan og gerði það og hafði næstum haft erindi sem erfiði fyrir vítið. Undirritaður var staddur hinumegin á keppnissvæðinu þannig að það var Sævar sem hjálpaði Ásþóri Loka að sigra þessa glímu, enda með vörnina við þessu kasti á hreinu.

Þá var eftir síðasta glíman við Geronimo Saucedo. Eins og fyrri daginn var Ásþór yfir á sóknum, dómarinn ætlaði að dæma sóknarvíti (sóknarleysi) á Geronimo en aðstoðardómararnir komu í veg fyrir þann dóm. Það fór aftur þannig að Ásþór fór út í árás sem hann hafði ekki mikið æft, tók of langan tíma að koma sér út úr henni og Geronimo náði honum niður á glæsilegu mótbragði. Önnur silfurverðlaunin voru í höfn þennan daginn og sem fyrr, aðeins hársbreidd frá gulli í þeim báðum.

Ásþór og Geronimo á palli Golden Score 

Ásþór vantaði kannski þolinmæði frekar en eitthvað annað til að klára mótið þessa síðustu helgi með þrenn gullverðlaun í stað þriggja silfurverðlauna. Það vita allir hve sárt það er að taka við silfri, en líka hvað það læknast fljótt þegar maður lítur yfir mótið í heildina. Sæt sigurhelgi var að baki og Ásþór tryggði sér verðlaunasæti á öllum mótunum!

Þórarinn Þeyr á Golden Score mótinu

Eftir mjög erfiðan fyrri dag var Þórarinn staðráðinn í að gera sitt besta. Hann lenti í léttasta milliþyngdarriðlinum ásamt aðeins einum öðrum dreng, en þyngri milliþyngdarriðillinn var með þrjá keppendur.

Andstæðingurinn var japanskur innflytjandi, Suzuki, sem stundað hefur júdó í þrjú ár. Hann var eins og flest börn á þessu móti í 2003-flokknum, fæddur á fyrstu þremur mánuðum ársins og hafði því nokkurt líkamlegt forskot á Þórarinn sem heldur upp á afmælið 24. nóvember. Tæpt ár er mikið á þessum aldri. 

Þórarinn vissi að hann átti silfur öruggt og færi því ekki tómhentur. Þegar svo stendur á er mikilvægt að brýna fyrir krökkunum að þótt þau fái verðlaunapening, þá þýðir lægsti peningurinn ekkert annað en maður tapaði sínum glímum. Gullið er alltaf gull. Hann einbeitti sér því að því að ætla að vinna, hugleiddi vel með aðstoð pabba síns og hugsaði um sín köst. Þegar þeir voru svo kallaðir inn á var hann staðráðinn í að fá gullið í flokknum og komast áfram gott sæti í útsláttinn við þyngri krakkana.

Glíman fór rólega af stað hjá honum. Hann flýtti sér ekki og sótti í sig veðrið eftir því sem á leið. Golden Score þýddi auðvitað að hið minnsta skor þýddi vinning og því mikilvægt að láta ekki slá sig út af laginu. Eftir nokkra spennandi varnartilburði á báða bóga var Þórarinn kominn með yfirhöndina í sóknum að okkur fannst og var að loka vel á sóknir japanska stráksins. Þá sá ég að vörn hans var opnari í miðjunni og Þórarinn hafði einmitt æft ofboðslega mikið tæknilega flókið kast sem heitir Uchi Mata, sem er glæsilegt klofbragð þar sem maður kastar andstæðingnum yfir sig. Þórarinn hafði ætlað að láta á það reyna og skaust inn alveg ofboðslega flott og skoraði með glæsilegu kasti.

Seinni glíman var stutt, en Þórarinn lýsti því yfir að hann ætlaði „bara að kasta honum strax á Uchi Mata“ og gerði það. Gull í höfn og góð ástæða til að fagna!

Þórarinn fagnar með bróður sínum 

Glíman í sameinaða flokknum með þyngri keppendunum var mjög stutt, Þórarinn steig óvart í kross í upphafi glímunnar í baráttunni um tökin og það var ekki að sökum að spyrja, honum var samstundis refsað. En sökum þess að hann vann léttari flokkinn og sá sem hann keppti við þar tapaði sinni glímu, þá lenti Þórarinn í þriðja sæti af fjórum og hlaut bronsið. 

Afrakstur dagsins hjá Þórarni voru því gull og brons. 

Grímur á Golden Score

Dagurinn hófs vel hjá Grími en hann hafði unnið tvær glímur en tapað einni. Því miður missti ég af þeim því ég þurfti að ganga frá greiðslum og öðru á hótelinu og það tók svo langan tíma að mótið var byrjað. Sævar hafði séð um að vera í stólnum og leiðbeina og staðið sig með prýði.

Með nokkrum vinningum og einu tapi og einni glímu til góða var komin upp mjög kunnugleg staða, því Grímur hafði í ferðinni oft átt möguleika á verðlaunum en orðið af þeim í síðustu glímunni. Ég skoðaði hvernig staðan var fyrir þessa seinustu glímu og sökum þess hvernig stigin höfðu fallið þá var ljóst að ef hann mundi tapa þessari úrslitaglímu fengi hann ekkert en ef hann ynni hana fengi hann silfur.

Því var tekinn peppfundur í skyndi, ég las honum pistilinn og minnti á allt sem hann hafði lært og allt sem hann hafði bætt sig á hverju móti. Hvernig hann hafi tekið einn galla í einu út og bætt við sig hægt og bítandi. Nú væri síðasta glíman á síðasta mótinu runnin upp, hann áfram yngstur í sínum flokki 15-17 ára keppenda og einn úr íslenska hópnum með engin verðlaun. Nú riði á að sjá sjálfan sig fyrir sér með silfur um hálsinn þegar við kæmum heim í stað einskis.

Hann var orðinn alveg blóðgíraður þegar kom að glímunni og staðráðinn sem aldrei fyrr í að vinna. En þegar þeir gengu inn gólfið keppendurnir sáum við að þar var líklega elsti og klárlega fullorðinslegasti náunginn í þyngdarflokknum, svartbeltungur (Grímur er með blátt), þrekvaxinn skeggapi, hærri og vöðvamassaður náungi, tvöfalt gildari en Grímur sem er þó öflugur miðað við aldur.

Við görguðum á hann hvatningarorð og það var gaman að sjá að þessi fagurfræðilegu vöðvafjallsatriði höfðu bókstaflega engin áhrif á Grím. Hann ætlaði að ganga frá honum og það seinasta sem ég kallaði á hann var „Gerðu engin mistök og þá hefurðu hann. Hann er skíthræddur!“ Og það var engin lygi, maðurinn var hikandi, etv. vegna þess að Grímur tók svo hraustlega á honum strax, reif hann til og tuskaði svartbeltann til eins og æfingabrúðu. Eftir tvær sóknir, var ég orðinn nokkuð bjartsýnn, svartbeltinn átti engar sóknir og mér datt í hug að hann ætlaði að taka Grím á varnarbragði en það hafði oft gerst áður. Eitthvað gargaði maður til hans um það, veit ekki hvort það skilaði sér en í næstu árás Gríms tók andstæðingur hans á honum og ætlaði að rífa hann niður. Grímur sá við því, komst út, og tók krók á móti mótbragði og þar stöðvaðist glíman í augnablik og ekki mátti á milli sjá. Svo rumdi Grímur einhvern fjárann og reif manninn aftur á bak á alveg hreint glæsilegu ipponkasti. Silfur!  Ef satt skal segja var þetta einn af hápunktum ferðarinnar fyrir mig persónulega og örugglega fyrir Grím líka. Nú voru allir orðnir loðnir um lófana fyrir heimferðina og það var árangur sem við höfðum rétt látið okkur þora að dreyma um.

Því miður höfðum við ekki rænu á að taka mynd af þessu tilefni en eigum eina frá kvöldinu sem segir sitt:

Partý_Grímur 

Daníela Rut  á Golden Score mótinu

Því miður var tímasetningum glímanna hagað þannig að undirritaður missti af öllum Golden Score glímunum hennar Daníelu. Hún hafði auðvitað háð mikla hildi fyrr um daginn og var þreytt og meidd á ökkla. Engu að síður þá telst okkur fararstjórunum nú (svona löngu síðar) sem svo að hún hafi unnið eina glímu og tapað tveimur á þessu síðasta móti og náði ekki á pall.

En hverjum er ekki sama? Hún var svo búin að vinna svo kyrfilega inn fyrir laununum sínum í þessari ferð að hún átti skilið að lúlla sér aðeins á júdódínurnar og telja í þeim sprungurnar í síðustu glímunum. Finnst ykkur ekki? Mér finnst það.

Sævar á Golden Score mótinu

Sævar var algjör yfirburðamaður á Golden Score mótinu. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Dómurunum tókst samt að hafa af honum gullverðlaunin og þá ca. $200 sem sigrinum fylgdu með alveg ótrúlega slakri dómgæslu. Hann vann fyrstu glímurnar af öryggi og var í efstu fjórum, en þá tók þjóðræknin við sér hjá dómurunum eða einhver annar andstyggilegur karakterveikleiki. Fyrri fjórðungsúrslitaglíman endaði þannig að andstæðingur Sævar hafði dýft sér í gólfið og Sævar hæglega stöðvað þá kasttilraun. Um fimm sekúndur liðu í gólfinu og Sævar var ofaná að undirbúa viðsnúning. Þegar hann lét til skarar skríða kallaði dómarinn Ippon og gaf hinum sigurinn fyrir að hafa „klárað kastið“ sem Sævar var löngu búinn að drepa og allir búnir að gleyma. Ég var annarsstaðar að coacha og hefði sleppt mér og heimtað aðaldómarann á svæðið, en sá þetta ekki gerast. Enn var ég minntur á hve gott það hefði verið að hafa einn þjálfara í viðbót á staðnum sem er klár á þessum reglum. 

Í síðustu glímu Sævars var ég á svæðinu og sú glíma var alveg fáránleg frá upphafi til enda. Andstæðingur hann fékk leyfi til að brjóta reglurnar gróflega ítrekað með því að kasta sér niður í algerlega vonlaus köst og fara beint í varnarstöðu í gólfi. Það er bannað og verðskuldar beint víti sem hefði þýtt sigur. Sævar gerði bendingar en ég sá að dómararnir ætluðu sér að hundsa þetta þannig að ég áminnti hann að sækja ef dómararnir væru svo heimskir að refsa manni fyrir sóknarleysi sem gert var útilokað að sækja með því að glíma ekki standandi glímuna gegn honum. Það varð úr, SÆVAR fékk vítið og ég brjálaðist alveg og kallaði til aðaldómara en þeir voru tveir talsins á mótinu. Nema hvað... hvorugur þeirra fannst, mótmæli mín voru sussuð og ég varaður við að mér gæti verið vísað úr salnum fyrir óhófleg mótmæli og þar fram eftir götunum. Ekta amerísk hlýðnikröfugerð í gangi þar og þeir héldu svo áfram með mótið undir fúkyrðum.

Hálftíma síðar komu svo báðir aðaldómararnir í salinn og hvar voru þeir? Í MAT báðir í einu, hinumegin í húsinu án þess að segja neinum hvert. Hann baðst afsökunar á slakri dómgæslu, sagðist vita að það væru vandamál í gangi og sér þætti leitt að hafa ekki verið á staðnum. En ekkert væri hægt að gera að svo stöddu, mótið væri svo gott sem búið.

Sævar var rólegur yfir þessu samt, enda kominn með svo mörg verðlaun að hann gat varla borið þau til Íslands. Ég held ég hafi verið mun reiðari en hann yfir þessu!

Þessi mót voru líklega þau síðustu sem Sævar keppir í junior flokki og má segja að hann hafi lokið þeim með stæl – Tvenn gullverðlaun og önnur þeirra á International Junior Open , sem er erfiðasta Jr. mótið í Bandaríkjunum.

SævarMedGull 

Nú dregur nærri endalokum ferðarinnar og þessara blogga og aðeins ein færsla eftir um partíið, ferðina til Atlanta og þaðan til Íslands.


Blogg #32 US International Open og Golden Score

Jr. Judo International Open

Mótin þessa síðustu helgi voru þannig að fyrsta daginn kepptu allir nema elsti flokkurinn, 18-20 ára, um þennan síðasta Jr. Bandaríkjameistaratitil sem í boði var. Það var Laugardagurinn 28. júlí og það var dagur Þórarins, Ásþórs, Úlfs og Gríms.

Næsta dag fór svo fram um morgunninn keppnin í IJF flokki fyrir hádegi og þar mundu vinnast síðustu meistaratitlarnir með hinu hefðbundna sniði.

Strax eftir IJF flokkana hófst svo hið spennandi „Golden Score“ mót, en á því móti tapaðist glíma um leið og minnsta skori var náð eða ef víti var veitt. Þar var keppt í þremur stórum þyngdarflokkum í hverjum aldursflokki og þar sem dreifingin var mikil, eins og í flokki Þórarins, var bætt við flokki sem hægt var að vinna áður en farið var í stóra riðilinn þar sem leikurinn var ójafnari og hinir þyngri og stærri báru næstum ævinlega sigur úr býtum en Ásþór Loki náði þó að hrista upp í því í sínum flokki.

Dagur 1 – Laugardagur – Grímur, Úlfur, Þórarinn og Ásþór

Það var gríðarlega erfitt að sinna þjálfarastörfunum á þessu móti af þeim sökum að mótið var afar stórt, vellirnir stórir og svo gekk mótið svo hratt. Sem betur fer höfðum við haft gæfu til að skrá Sævar inn sem þjálfara en svarta beltið hans gerði okkur kleift að gera það þótt hann væri sjálfur að keppa, en María var á myndatökuvaktinni lengst af á þessu móti. Við erum jú að gera heimildamynd um ferðina og það kostaði mikla útsjónarsem og hlaup að taka vel myndir af þessu öllu.

Niðurröðunin var þannig að Þórarinn og Grímur voru öðru megin í húsinu og Ásþór og Úlfur hinu megin. Því skiptum við liði, ég var öðru megin og Sævar tók vinnuna hinu megin þegar glímur stönguðust á.

Grímur

Grímur hefur verið að styrkjast og læra af hverju mótinu á fætur öðru. Grímur mætti ákveðinn til leiks en hafði ekki erindi sem erfiði og tapaði sínum glímum því miður. Það var afar svekkjandi, bæði fyrir hann og okkur sem þjálfara og liðsheild, því hann átti svo sannarlega skilið betri úrslit. En Grímur er alveg makalaust fljótur að ná sér eftir áföll og fór fljótlega að espa sig upp fyrir daginn eftir.

SvalirAsiGimoaUlfur 

Í því hugarástandi er stundum hjálplegt að hafa allt og alla á móti sér. Líkt og fyrri daginn var hann yngstur en nú var skiptingin þannig að enginn annar 15 ára keppandi var í flokki 15-17 ára. Ungir menn vaxa og styrkjast gríðarlega á þessum árum og flestum finnst ekki svara kostnaði að senda 15 ára á þessi mót. Vonandi breytir alþjóða júdósambandið þessum reglum og heldur áfram með 2 ára aldursbil. Þetta er ósanngjarnt og menn geta bognað við þetta en svo virtist sem Grímur snéri þessu við og léti þetta herða sig. Hann SKYLDI rústa síðasta mótinu síðasta daginn.

Úlfur

Enn atti Úlfur kappi við Geronimo Saucedo en þeir voru nánast jafn þungir. Fyrir utan þá voru tveir aðrir í flokknum og vann Úlfur aðra glímuna en tapaði hinni fremur óvænt gegn ungum manni sem átti eftir að sjást meira af um helgina. Sá var aðeins með eitt kast í sínu vopnabúri, svokallað „drop-seoinage“ en það er axlarkast sem felst í því að vinda sér við, fara eldsnöggt niður á hnén og kasta andstæðingnum yfir herðarnar. Auðvelt er að gera það þannig að víti eigi að koma fyrir s.k. „Fals-árás“ en það víti er gefið þeim sem varpar sér niður án þess að vera að framkvæma raunverulegt kast, heldur með þeim tilgangi einum að komast í gólfglímu. Strákurinn arna slapp við þessar vítur gegn Úlfi og náði að skora á hann. Úlfur komst loksins inn í sitt uppáhaldsbragð, Uchi-Mata, en hitti ekki og kláraði kastið með því að gera eina af þeim hreyfingum sem algerlega eru bannaðar og steypti sér fram yfir sig á höfuðið. Það er bannað vegna hættu á hálsmeiðslum og var Úlfur dæmdur úr leik við það.

Ulfur_Brons 

Úlfur átti þá enn einu sinni við Geronimo og hafði nú óvænt tapað glímu við mann sem okkur hinum þótti lakari en Úlfur. Nú er Úlfur örlítið hærri og armlengri, en Geronimo þéttari á velli og með mun meiri alþjóðlega keppnisreynslu. Úlfur átti ágæta glímu gegn Geronimo en Mexíkaninn hafði enn einu sinni betur, kastaði Úlfi á glæsilegu ippon og ekki við neinn að rífast yfir því. Brons samt og gaman að því!

Þórarinn Þeyr

Þórarinn var ágætlega upplagður þennan mótsdag en náði ekki að komast á pall. Glímurnar hans voru þó góðar og sú fyrsta tapaðist naumlega. Það var raunar besta glíman hans frá upphafi júdóiðkunarinnar og við glöddumst yfir því. Hinsvegar fór önnur glíman illa, hann gætti sín ekki og steig í kross og það færði andstæðingur hans sér strax í nyt og kastaði honum á fyrstu augnablikum glímunnar. Þórarinn var auðvitað afskaplega leiður yfir því og grét mikið en eins og fyrri daginn var Grímur mættur á svæðið innan skamms og huggaði strákinn.

Thorarinn_Hressist

Grímur er alveg einstakur maður hvað þetta varðar, en alveg án áreynslu náði hann að draga fram jákvæða punkta við stöðuna og hressa litla kappann við. Saman járnuðu þeir sig svo fyrir Golden Score mótið daginn, en báðir höfðu tapað öllu þennan fyrsta dag.

Ásþór Loki

Þessi dagur var dagur andstæðna fyrir Ásþór. Hann hefur verið að þróa hugleiðsluaðferð sem hentar sér til að einbeita sér fyrir glímur og losna við taugatitring og fyrir fyrstu glímuna náði hann djúpri hugleiðslu. Fyrsta andstæðinginn vann hann mjög örugglega á Ippon eftir stutta glímu. Hann horfði svo á glímu þess sem hann þurfti að vinna til að komast í úrslitin og hafði af honum litlar áhyggjur en hann var með hreint út sagt lélegan glímustíl miðað við aðra sem hann hafði átt við.

Hann var því nokkuð sigurviss fyrir næstu glímu og sleppti því að hugleiða fyrir hana. Það kom á daginn að sá anstæðingur var ekki góður glímumaður en hafði greinilega stundað mikið Jujutsu og gerði lítið annað en falskar árásir og að halda sig fjarri Ásþóri. Hann hlaut líka náð fyrir augum dómaranna því þeir gáfu honum engin víti í heilar 2 mínútur. Því var Ásþór langt yfir í sóknum og yfir andstæðingnum vomaði sóknarleysisvíti en þá var Ásþór orðinn óþolinmóður og svekktur yfir því að vera ekki búinn að klára þennan fremur lélega andstæðing og ákvað að taka kast sem hann tekur vanalega aldrei en það mistókst og hann fleygði sjálfum sér á bakið. Við greindum þetta eftirá á vídeóupptökunni og andstæðingurinn gerði í raun ekkert nema að grípa um Ásþór á leiðinni niður, tók í rauninni ekki bragð sem gæfi stig, en Ásþór felldi sig svo kyrfilega sjálfur að enginn spáði í því.

Hann var mjög vonsvikinn því þetta þýddi að hann gæti ekki unnið gull, en hann sýndi mikinn karakter og herti upp hugann fyrir síðustu glímuna sem var um bronsið, kom sér í djúpa hugleiðslu fyrir hana og jarðaði andstæðing sinn með glæsilegu kasti eftir örfáar sekúndur.

Til að nudda salti í sárin þá fór Ásþór og horfði á úrslitaglímuna milli þess sem hafði unnið hann og annars júdómanns sem var með einhæfan glímustíl. Úr varð ein leiðinlegasta glíma sem sást á mótinu, báðir voru í vörn allan tíman, eintómar falssóknir allan tíman og vannst glíman á fjórum sóknarvítum og sá sem hafði unnið Ásþór hreppti silfur. Þetta var heilmikil lexía.

Asthor_Brons 

Fyrsta deginum var þar með lokið og þrátt fyrir góða viðleitni allra og ágæta möguleika fengust engin gullverðlaun þann daginn, en tvenn bronsverðlaun.

Dagur 2 Sunnudagur – Daníela og Sævar

Þessi dagur hófst á IJF flokkum Daníelu og Sævars. Svo ótrúlega vildi til að þau glímdu á nákvæmlega sama augnabliki næstum allar sínar glímur og Sævar bað mig að þjálfa Daníelu frekar og hann mundi reyna að lauma Úlfi í þjálfarastólinn. Úlfur var svo vel klæddur og mannalegur að við komumst upp með það en ég náði að vera viðstaddur eina af glímum Sævars.

Daníela

Daníela vigtaði inn nákvæmlega eins og planið hafði verið í -78kg flokki en það kostaði að vakna snemma og svitna morgunninn sem kráningin átti sér stað. Flokkurinn hennar var mjög sanngjarn og flottur fyrir vikið og alveg á hreinu að glímurnar yrðu spennandi og skemmtilegar.

Daníela glímdi við þrjá andstæðinga frá Suður-Afríku og Bandaríkjunum. Hún hóf leikinn gegn mjög hávaxinni konu frá S-Afríku sem Daníela náði ekki einusinni upp að öxlum. Það varð gríðarlega spennandi glíma, en þótt hún hafi verið hærri þýddi það ekki að það væri endilega slæmt fyrir Daníelu því hún kæmist betur í djúpu köstin sín. Verra var með armlengdina því það reyndist afar erfitt að komast nægilega innarlega á hana.

Glíman var í járnum allan tímann og þeirri S-Afrísku tókst því miður að halda Daníelu nægilega langt frá sér til að hún fengi dæmt á sig víti. Daníela sótti hart en hafði ekki erindi sem erfiði og tapaði á sóknarvítinu.

Næsta glíma virtist ætla að ganga betur en hún fór á sama veg, dróst á langinn og tapaðist á minnsta mögulega mun. Daníela mátti þó vel við una því þessir andstæðingar voru með þeim hörðustu sem hún hefur lent gegn, sérstaklega sú fyrsta sem manni virtist mundu eiga flokkin eftir þetta, en hún tapaði engu að síður úrslitaglímunni á því að vera rekin úr keppni fyrir leggjatak.

Daniela_brons 

Daníela varð því að láta sér nægja að glíma um bronsið og þar mætti hún enn einu sinni Michelle Myers sem hún hafði glímt gegn þrisvar sinnum í Dallas 4 vikum áður. Þá sást hve mikið Daníelu hafði farið fram í millitíðinni en Myers sem hafði unnið Daníelu í tveimur af þremur glímum þeirra í júní sá aldrei til sólar í þessum bardaga. Tvær glímurnar hennar fóru sem sé út á fullum tíma og töpuðust á minnsta mögulega mun og ein unnin þýddi bronsverðlaun. Daníela vildi áreiðanlega hafa annan lit á medalíunni eins og búast má við, en má vera mjög sátt við sinn hlut.

Sævar

Mjög var tekið eftir Sævari á þessu móti. Hann hafði ákveðið að vera í þungavigtinni og vó aðeins 109 kíló en andstæðingar hans voru ca. 115, 130 og 140 kg.

Glímurnar hans voru allar svipað langar og fóru allar á sama veg. Sævar, sem er nú orðinn mjög reyndur, stillti andstæðingum sínum upp, hitaði sig upp með nokkrum snöggum árásum áður en hann kom inn með kálið. Fyrstu glímuna vann hann á fullnaðarsigri – ippon – aðra glímuna á tveimur wazari sem telst ippon og þá síðustu sömuleiðis ef ég man rétt nú 12 dögum síðar. Því miður fyrir mig þá þurfti ég að horfa á þessa snilld yfir salinn allan frá vellinum sem Daníela glímdi á því eins og áður sagði þá fóru þær fram á sama tíma.

Eins og sjá má af myndinni voru keppinautar Sævars ríflega höfði og herðum hærri en hann, en Sævar stendur á mjög háum palli - Þeim sama og Daníela, Sævar og Úlfur standa á á myndunum hér að ofan. 

Sævar_Gull 

Fólk fór mjög fögrum orðum um glímustíl Sævars og kurteisi við andstæðingana, innan sem utan vallar, en þeir komu allir til hans sjálfir eftirá og spjölluðu við keppinaut sinn. Það eru góð meðmæli!

Fyrsta gullið þessa síðustu helgi var í höfn og við vorum afar ánægð yfir því. Nú var aðeins Golden Score mótið eftir...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband