Blogg #28 Lokapartí og ferðin til Flórída

Baddi fyrrverandi samstarfsfélagi undirritaðs hjá CCP og Sara kona hans buðu í alveg stórkostlega magnað teiti eftir síðustu júdóæfinguna í Atlanta á laugardagseftirmiðdegi. Þau voru höfðingleg í meira lagi, vægast sagt, og buðu þangað öllu júdóliðinu og buðu okkur Maríu að bjóða þangað því fólki sem okkur stóð næst er við bjuggum í Atlanta.

Baddi sposkur á svip! 

Það var góðmennur listi sem samanstóð af Bill og John Bridges, snilldarbræðrum í leikjabransanum, nokkrum CCPerum af hálfgerðu handahófi og júdófólki sem við höfðum verið með í vikunni sem leið. 

Gengið að fíla grillið og sólina

Við röðuðum í okkur hamborgurum, pylsum og drykkjum af allskyns tagi - Hollir auðvitað og góðir – Fljótandi gerbrauð var þarna handa þeim sem ekki voru í íþróttum og undir lokin eftir að fólk hafði deilt um hernaðarstefnu Bandaríkjamanna og þá kumpána Bradley Manning og Snowden sem annarsvegar voru kallaðir landráðamenn og hinsvegar hetjur, þá sættust allir á að Bandaríkjamenn höfðu glatað einhverju er þeir urðu uppvísir að pyntingum og skildum hitt eftir til umhugsunar.

Leo að sannfæra Daníelu um eitthvað mikilvægt

Er myrkvaði rann helmingur moskítóflugna Georgíufylkis á gúrmélyktina af vítamínhlöðnum víkingum og sugu úr okkur hvern einasta blóðdropa. Manni væri s.s. sama ef það hefði allt farið um sömu stunguna en þær voru eins og saumakona á koníaksfylleríi og leggirnir á undirrituðum voru eins og gatasigti og kláðinn eftir því. Þessi skaðræðisskepna er þvílíkur óþarfi að hún er langbesta sönnun þess að guð er ekki til og þá sér í lagi ekki í suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem einna heitast er trúað á hann. Mögulega býr hann á norðurpólnum við hliðina á jólasveininum og Rúdolf þar sem ekki er ein einasta moskítófluga í þúsundkílómetra radíus.

Jackie og Leo yngri í góðu stuði

Kvöldinu var slúttað með því að sótt var forláta hálfsjálfvirk vélbyssa í safn Badda, en þau hjónin eru byssusafnarar. Baddi hafði smíðan hana úr hlutum keyptum af Ebay og hún er í fullkomnu lagi þrátt fyrir að vera merkt „Hello Kitty“ og að á miðinu megi lesa stutt og fyndið þriggja stafa orð. Daníela var frekar hrifin af þessu tæki og eins og sjá má þá er eitthvað rétt og heilagt konu, skurðgröfu og vélbyssu.

Daníela miðar á næstu moskítóflugu

Argh!

Hello Kitty!

María Huld hefur held ég aldrei skotið af riffli en tók sig samt vel út með þetta vopn!

Bara að læðast aðeins lengra...

Sunnudagur – Keyrt til Flórída

Morgunninn eftir þurftum við að sækja nýtt tryllitæki sem mundi færa okkur til Flórída. Fyrir valinu varð 15 sæta Chevrolet minibus en tólfsætatryllitækin voru uppseld. Við höfðum einhverra hluta vegna haldið að aksturinn tæki 9 tíma án hléa en það reyndist vera 12 tíma ferð plús stopp og runnu á okkur tvær eða þrjár grímur er við sáum það í gervihnattaleiðbeiningargræjunni frá TomTom.

Skemmst er frá því að segja að þar sem muuuuun rúmbetra var um hópinn í þessum rándýra bíl, þá þurftum við ekki nema þrjú stopp alla leiðina niður eftir og í stað þess að þurfa að skipta um bílstjóra eins og áður þá var ykkar einlægur í stuði í besta sætinu í bílnum og sat 14 tíma vaktina með prýði og keyrði alla leið.

Aaah, Flórída

Við komum okkur beint á hótelið er við mættum klukkan hálf fimm um morgunninn, gæddum okkur á yndislegum MacDonalds morgunverði í formi hamborgara, frelsiskartaflna og kókakóla. Sólin reis á kolvetnaþrútið júdófólkið í þann mund er lagst var til hvílu. Sem betur fer höfðu allir nema bílstjórinn (sem betur fer) sofnað vel og kyrfilega mikinn hluta leiðarinnar þannig að allir vöknuðu tímanlega í júdónámskeiðið sem hófst klukkan 9 um morguninn.

Flóóórídaaaa 

Niðurtalningin fyrir síðasta og langerfiðasta mótið var hafin. Nú tækju við þrír erfiðir æfingabúðadagar, einn dagur í hvíld, einn í vigtun og „kött“ ef á þyrfti að halda og svo keppt á tveimur mótum á tveimur dögum.

Fyrst verður Jr. Judo International Open - tuttugu þjóða stórmót júdófólks 20 ára og yngri. Það er júdólega séð hápunktur ferðarinnar og þótt nægu sé yfir að gleðjast enn sem komið er, munum við fagna ærlega náist árangur þar, en svo gott sem allar þjóðir Suður-Ameríku senda keppendur þangað sem og þjóðir frá Evrópu og Asíu.

Nokkrir úr júdóliðinu með hluta þjálfaranna 

Að því loknu er komið að „Golden Score“ peningaverðlaunamóti og þáttakendur þar eru hinir sömu. Þar er skipt í riðla og keppt er í Round Robin kerfi (allir keppa við alla í sínum riðli). Glímunum tapar fólk við fyrsta víti eða minnsta skor gegn sér (í stað „ippon“ eða fullnaðarsigurs) og engin tímamörk eru! Einungis tveir komast áfram úr hverjum riðli og eftir það tekur við útsláttur uns einn sigurvegari stendur uppi með megnið af verðlaunafénu.

Meðal sigurvegara síðasta árs á báðum mótum var Geronimo Saucedo sem Ásþór og Úlfur töpuðu báðir fyrir í Dallas á dögunum og mun naumlegar í fyrra skiptið en hið síðara, en þeir voru báðir yfir þegar glíman var hálfnuð og þeir misstigu sig. Nú er að sjá hvort þeir ná fram hefndum og hvort einhverjir erlendir skúrkar koma til sögunnar og ná að læsa náköldum krumlunum í verðlaunin sem hinir hugumdjörfu íslensku víkingar eru með augastað á!

Spiliði nú þjóðsönginn í iTunes og fellið tár, tvö frekar en eitt, takk! Við sólbrennum á meðan. 

Ein sólarmynd enn 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband