Færsluflokkur: Bloggar

Blogg #14 Gengið í Cincinnatti


Næsta stopp var hjá vinkonu ykkar einlæga bloggritara, Niki Freimuth, Jay – Manninum hennar og vinkonu Tanya. Við komumst mjög seint á áfangastað, örþreytt og mikið ofboðslega urðum við fegin að sjá uppábúin rúm. Niki hafði ég aldrei hitt áður nema í tölvuleik sem við spiluðum saman og spjallað talsvert af og til í ein 12 ár og ég vissi nákvæmlega ekkert um fjölskylduna sem átti húsið sem við áttum að gista í. En því skemmtilegra var það!

 

Gona git ya

Fyrir utan barnið í hópnum þá samanstendur liðið okkar auðvitað af fjórum ungum mönnum og einni ungri konu sem er auðvitað ójafnt hlutfall. Það jafnaðist aðeins þegar fréttist milli húsa að þarna væru fjallmyndarlegir víkingar og var mjög gaman hjá krökkunum fram eftir nóttu og daginn eftir sömuleiðis því við drolluðum framyfir kvöldmat í heimsókn þar sem við nutum enn og aftur alveg makalausrar gestrisni og góðs matar.

Við fullorðna fólkið fórum með Þórarinn niður að stíflugarðinum og hreyfðum okkur aðeins en hann byrjaði þarna um daginn að kötta vigt til að komast í sinn flokk daginn eftir. Það var byrjunin á einni rosalegustu sýningu á sjálfsaga og viljastyrk og getu til að sigrastá hungri og þorsta sem ég hef séð. Hafið í huga í næsta bloggi að Þórarinn Þeyr er bara 9 ára og svona átak er eitt það ömurlegasta sem nokkurt foreldri getur hugsað sér að reyna til að hlífa honum við annarskonar vandræðum. Til að koma sér í stuð þá ákvað hann að leyfa húsfrúnni að klippa á sig hanakamb.

Ég skil við ykkur hér í þessu bloggi á jákvæðu nótunum með hópmynd af krökkunum rétt fyrir brottför. Aðspurðar hvaða unglingur kyssti hvern í þessari heimsókn, þá sögðu bandarísku stelpurnar að það væri leyndarmál. Segjum ekki meira um það!

Krakkarnir að kveðjast í Cincinatti 


Blogg #13 Tafir á leiðinni til Cincinnatti en samt stuð!

Ferðin frá Memphis til Cinncinnatti var skemmtileg í meira lagi. Hér er leikur sem krakkarnir voru í talsverðan hluta leiðarinnar, en þau fundu upp á honum í þrumuveðri sem á okkur skall.

Þetta eru nú meiri helvítis vitleysingarnir þessi börn hahaha!

 

 


Blogg #12 Graceland fær smá skammt af Elvisjúdó

Gestainngangur í GracelandEftir að hafa kvatt velgjörðarfólk okkar innilega, Campbell hjónin þau Glen og Nellie, Nick frænda þeirra og nágranna sem skutu yfir okkur skjólshúsi, þá var komið að því að stoppa heima hjá Elvis Presley áður en við næðum næsta áfangastað.

 

Elvis var fæddur 8. janúar, sama dag og María konan mín. Líklega giftist ég henni þessvegna án þess að átta mig á því fyrr en nokkru síðar! Það var ábyggilega eitthvað í vatninu. Hún er meir að segja lík rokkgoðinu þannig að öll rök hníga að því. Þótt ljóst væri að við mundum vera seint á ferðinni í Cincinnatti fyrir vikið þá mátti það eiga sig. Elvis skyldi heimsóttur.

 

Þessi staður er hreint ótrúlegur og myndir segja meira en mörg orð. Ég leyfi ykkur að njóta þeirra.

Fyrir utan Graceland og Ásþór í frumskógarherberginu

Ásþór að plana framtíðarheimilið

Um það bil að banka hjá kónginum

 Setustofan við andyrið og strákarnir í eldhúsinu í Graceland  

Í eldhúsinu í GracelandSetustofan við andyrið

Blogg #11 Gestrisni í Tennessee og Mississippi

Í Dallas hafði undirritaður haldið dálitla tölu á fremur fámennum fundi þess efnis að við værum að spá í að gera þessa för að einskonar Júdó Pílagrímsferð og í stað þess að bruna til Atlanta og þaðan til Pennsylvaniu í einum rykk, að taka beinu leiðina og stoppa á leiðinni og æfa júdó ef einhver hefði áhuga á því og að skjóta yfir okkur skjólshúsi.

 

Glen og Nellie Campbell og Nick, frændi Nellie

Þá gaf sig strax á tal við okkur Glen nokur Campbell sem kvaðst vera með klúbb við landamæri Tennessee og Mississippi í Memphis, heimabæ Elvis Presley. Úr varð að við mundum keyra þangað og sofa í heimahúsum hjá þrem fjölskyldum og æfa með þeim júdó og kenna dálítið júdó í leiðinni.

Júdó í Tennessee/Mississippi

Eftir langa en mjög skemmtilega keyrslu þar sem lagt var allt of seint af stað komum við heim til þeirra aðeins á eftir áætlun og fengum þá veður af því að tveir eða þrír klúbbar hefðu hrist saman í eina æfingu á tíma sem þeir æfðu venjulega ekki til að hitta þessa skrýtnu Íslendinga! Það var alveg magnað að koma inn í þetta fjölíþróttasvæði þar sem stundaðar voru bardagaíþróttir af öllum mögulegum gerðum og æfa með fólki sem við höfðum aldrei séð áður og af allskyns kalíberi. Eftir að ég hafði sýnt þeim „pönnukökutrixið“ og tveir aðrir hérlendir senseiar kennt kvaddi ég fyrir okkar hönd og þakkaði þeim fyrir einstakar móttökur.

Síðan var haldið til baka og gist hjá júdófólkinu. Þar fengum við stórkostlegar máltíðir, sérherbergi, uppábúin rúm, mat og drykk og spjölluðum við gestgjafana frameftir og sum okkar vöknuðu snemma morgunninn eftir og röbbuðum við þau. Þaðan var erfitt að fara og Þórarinn litli var svo einlægur í þökkunum við þau að ég hélt þau mundu stinga af með hann.

Sævar að takast á við Mississippi mann

Þaðan var ferðinni heitið til Graceland.

Kveðja, Rúnar og félagar.


Blogg #10 Herra Becerra heimsóttur í Dallas

Iceland Team2Það er magnað hve fólk hér getur verið hjálpsamt og gestrisið. Þegar við skildum síðast við bloggið var hópurinn staddur í Dallas á förum frá hótelinu þar og á förum til klúbbs sem hafði boðið okkur í heimsókn í Dallas, Texas. Við höfðum hvorki næturstað næstu nótt né einusinni stað til að fara í sturtu eftir æfinguna.

 

Æfingin hjá sensei Becerra var frábær, en hann var gestgjafi Junior Olympics í Texas. Þórarinn byrjaði slaginn með yngri krökkunum og hinir kapparnir tóku seinni hlutann með Texasbúunum og mexíkanska unglingalandsliðinu þá var mitt fólk uppnumið yfir því hve svakalega gott þetta júdófólk var. Við áttum góða kveðjustund og hr. Saucedo (pabbi stráksins sem hafði unnið Úlf og Ásþór báða á JO‘s) reddaði okkur inn í klúbb þar sem voru heitir pottar, sundlaug, gufuböð og sturtur, en þau lífsgæði máttum við til með að komast í því engar sturtur voru í klúbbnum. Merkilegt nokk, þá þurftu þeir sem voru að æfa í þessum frábæra klúbbi að taka dýnurnar saman og leggja þær út aftur eftir hverja einustu æfingu. Við hugsum með hlýjum hug til aðstöðunnar í okkar klúbbum, JR og UMFS sem hafa sinn eigin sal.

Mexico Iceland and Becerra C

Eftir að hafa dundað okkur í þessari líkamsræktarstöð í um tvo tíma skelltum við í okkur síðbúnum kvöldmat (undir miðnætti) og lögðum aftur í hann til Texas. Skömu síðar urðum við ógurlega syfjuð en Sævar hafði rekið sig í sérstakan takka sem lætur alla kafna í bílnum úr súrefnisleysi þannig að við stoppuðum á ljómandi hóteli þá nóttina.

Daginn eftir var förinni fram haldið til Mempis, Tennessee þar sem okkur hafði verið boðið gisting í heimahúsum og í heimsókn í helsta júdóklúbb svæðisins. Það var einn af hápunktum ferðarinnar klárlega þar sem við nutum rosalegrar gestrisni! Meira um það í næsta bloggi.


Blogg #9 - Breytt ferðaáætlun

Við breyttum ferðaáætluninni MJÖG mikið í kjölfar fjölda tilboða um að sækja æfingar og koma í heimsóknir. Ferðalýsingin kemur vonandi bráðlega (þegar undirritaður hefur náð andanum eftir síðasta ferðalegginn) en hér er leiðin sem við keyrðum og staðirnir sem við stoppuðum á og nutum gestrisni.

 

LEIÐIN SEM NÚ ER NÝLOKIÐ

 

Þórarinn litli er úti akkúrat núna með Sævari og Ásþóri að komast í sinn þyngdarflokk, en hann þarf að ná af sér 1,3 kg. á 6 tímum. Klárar það sennilega á þremur. Það er algjör sadismi og ömurlegt að þurfa að láta 9 ára dreng standa í þessu og það tekur á mann. En hann verður mun leiðari að þurfa að eiga við -38kg flokkinn og eiga litla möguleika þar. Mikið er ég feginn að heima á Íslandi er júdósambandið og júdóþjálfarar ekki að standa í svona klikkun heldur para menn saman aðeins eftir getu, ekki bara aldri og þyngd. Það sem skiptir máli á endanum er hvar menn eru þegar þeir verða 18-19 ára. Nóg um það, nú fer ég að SOFA! Í 90 mínútur...

 Uppfært ...OK, kominn aftur við lyklaborðið og vigtun hefur verið lokað. Þrátt fyrir mjög hetjulega frammistöðu og alveg hreint ÓTRÚLEGT úthald, þá náði Þórarinn ekki niður þótt litlu munaði. Einfaldlega örlítið of mikill fituvefur til staðar. En þvílíkur kappi, gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Ef allir væru nú svona.

Allir aðrir voru þar sem þeir áttu að vera nema Sævar en langar keyrslur og dálítið of mikill matur í gogginn á hverjum stað setti hann í 6kg yfir þyngd. Hann lætur á það reyna núna, en verður tekinn stærðfræðilega niður í þyngdarflokki líkt og Þórarinn Þeyr fyrir síðsta Bandaríkjameistaramótið sem nú eru 3 vikur í.


Blogg #8 - Óvænt boð um þáttöku í Northern & Central American Championships 2013!!

Fréttir dagsins eru að Perú bauð okkur Íslendingunum keypis þáttöku Northern & Central American Jr. Judo Chamiponships. Það var mikill heiður, því hér voru samankomnir margir bestu júdómenn heimsálfanna tveggja, Pan American meistarar og svo framvegis. Yngri keppendurnir gátu hinsvegar hvílt sig því um var að ræða 15 ár og eldri einungis.

Slökun á hótelinu

Kvöldið fyrir mótið var dregið í flokka og við Sævar tókum þá ákvörðun að skrá hann líka í +100 kg flokkinn svo hann fengi enn fleiri glímur. Þar mundi hann líka mæta Sobay, andstæðingi sem nýverið vann sér inn þáttökurétt á Heimsleikum Unglinga – Jr. World Championships – Sem haldið verður hér í Bandaríkjunum bráðlega. Hann er reyndar heilum 30 kg. þyngri en Sævar sem er náttúrulega alveg kreisí, en það munaði svo litlu að Sævar mundi ekki ná vigt að okkur fannst bara í lagi að láta á það reyna til að minna sig á hversvegna maður léttir sig niður fyrir 100kg ef maður getur!

Sævar í -100kg & + 100kg

Keppt var samtímis í báðum flokkum og því var ákvörðunin frá því kvöldið áður etv. ekki mjög gáfuleg um að bæta við flokki, en Sævar bakkaði ekki út úr því. Málið hér var að berjast og fá reynslu! Sobay (+100 kg) hafði betur, en að varð honum ekki vandræðalaust, enda Sævar vanur að berjast við Þormóð hér heima sem er bæði stærri, þyngri og sterkari en Sobay og kasta honum öðru hvoru. Undirritaður saknaði gríðarlega öflugrar bragðasamsetningar sem Sævar er með og hefði átt ágætis möguleika á að fella risann, en hann sagði eftir glímurnar að Sobay hefði lokað of mikið á þá sóknarleið.

Í sínum flokki -100kg átti Sævar harma að hefna eins og þeir sem lesa bloggið okkar muna, en hann keppti við Kevin Castillo frá Costa Ríka á JO International og mætti honum aftur í þessu móti. Stutt og laggott þá má segja það sem svo að Castillo átti aldrei möguleika Sævar var alveg stálhertur í að jarða hann, því hann vissi að hann ætti það inni og jarðaði hann einfaldlega með ógurlegu kasti. Castillo sá aldrei til sólar enda sjálfsagt búinn að fá nóg af henni heima hjá sér.

Grímur -81kg

Grímur hélt áfram að bæta sig og var nú svo nálægt því að taka sér eldri andstæðinga niður að hann varð sár, aldrei þessu vant þegar glímunum var lokið. Sem fyrr enduðu glímurnar á að hann steig inn í kasttilraun í ójafnvægi og gaf andstæðingnum sigurinn, en Grímur var þegarsvo var komið yfir á sóknum í báðum glímum og virkaði mun sigurþyrstari. Það er hinsvegar ekki nóg þegar maður teygir sig of langt í bragð, þá lendir maður í mótbragði og það gerðist aftur hér.

Verðlaun: Skýr skilaboð um það hvað Grímur þarf að bæta.

Daníela -78 kg – Blóð, sviti og hár

Enn þurftu Daníela og Myers að glíma til úrslita í „best af þremur“ og það hreinlega sauð á Daníelu eftir tvöfalt tap fyrir henni á JOs. Myers hafði ákveðinn veikleika sem við ræddum fyrir glímuna og fljótlega eftir að fyrri bardaginn hófst var ljóst hver væri að fara að vinna hann. Daníela komst yfir og reyndi að hengja hana í tvígang en hún slapp í bæði skiptin orðin stareyg og fjólublá í framan. Að lokum lentu þær enn í gólfinu eftir kasttilraun og Daníela lést ætla inn í hengingu aftur en snéri bragðinu við og endaði í fastataki sem Myers slapp ekki úr.

Regnbogadísin - Gull, silfur og brons

Seinni glíman var enn betri og Daníela komst yfir og var enn að reyna við hengingarnar og fjólublá og með bólgna tungi tókst Myers að sleppa úr henni en var vönkuð og lenti í armlás sem Daníela hefur kvartað um að ná aldrei. Nema núna – 100% pottþéttur lás og hún keyrði í hann af fullu afli og braut næstum á henni hendina því Myers reyndi að losa sig í andartak. Langbestu glímur hennar nokkru sinni. En hvað þýðir það fyrir hópinn okkar og ferðina? Jú... fyrsta meistaratitilinn.

Daníela er s.s. North & Central American Champion í  IJF -78kg flokki kvenna. Til hamingju með það. Nú er bara að bæta á gullstæðuna en hér er medalíustaðan.

Samantekt á WOW Júdó 2013 í Bandaríkjunum 1. júlí 2013

Brons: 6

Silfur: 4

Gull: 1 

 


Blogg #7 Stígandi í júdóinu á JO International, 30. júlí í Dallas, Texas!

Næsta mót var alþjóðlega Jr. Judo Olympics mótið sem haldið var á sama stað. Fleirum var boðið til leiks og mótið var stærra en daginn áður. Nokkrir þáttakendur sem krakkarnir höfðu áður mætt voru eftir sig og stöku slasaður eftir fyrri daginn þannig að einhver afföll urðu af sumum flokkum, en nýir keppendur bættu það upp. Fleiri þáttakendur voru a.m.k. í heildina. Okkar lið tók ekki eftir miklum breytingum nema þau elstu, Daníela og Sævar.

Gaman að leggja af stað!

Gaman er að segja frá því að framkoma, keppnisandi og harkan hjá íslensku keppendunum svo og hreinlega vegalengdin sem jafn margir keppendur og raun ber vitni lögðu að baki, hefur vakið nokkra athygli og hreinlega rignir yfir okkur tilboðum, heimboðum, samvinnubeiðnum og fleiru. Meira um það síðar. Það er allavega ekki leiðinlegt!

Grímur -81kg, 15 -17 ára

JO International var skipt í tvo fasa. Í þeim fyrri glímdi Grímur einn okkar keppenda og var sem fyrr að eiga við eldri stráka. Hann tók þó framförum frá því daginn áður og gat nýtt styrk sinn til að komast í mjög góða stöðu en skorti sem fyrr reynslu og tefldi of tæpt. Hann var með yfirburði í fyrstu glímunni styrklega séð, en fór inn í kast eins og áður án þess að svipta hinn jafnvægi og var refsað í bæði skiptin. Veruleg framför var á bardögum hans frá fyrri degi, en hann var ekki sáttur auðvitað.

Verðlaun: Reynsla

Fasi 2 – Erfið skipting milli dýna

Í fasa tvö voru Sævar og Daníela öðru megin í salnum að keppa og Úlfur, Grímur og Þórarinn hinum megin. Það er algjör martröð fyrir þjálfara sem er einn með svo stóran hóp því maður er hlaupandi á milli dýna og það er útilokað annað en að glímur stangist á og þá getur maður ekki þjálfað báða. Aðrir keppendur mega ekki þjálfa keppendur úr þjálfarastólnum og því þurfa þeir að vera uppi í pöllum.

Þórarinn

GrímurOgÞórarinnS

Lítið eitt fleiri einstaklingar voru í flokki Þórarins þennan dag, en hann var enn einfaldlega of þungur fyrir þennan flokk. Það er ekki þess virði að fara með börn á þessi meistaramót nema þau séu grönn og í toppformi. Hlutfall fitu og vöðva verður einfaldlega að vera innan ákveðinna marka eigi þau að eiga séns, svo gífurlegu munar. Hann glímdi þó mun betur en á fyrra mótinu og glímurnar voru lengri.

Reyndar er eitt sem ekki hefur áður verið sagt, en Þórarinn hefur ekki haft neina fasta æfingafélaga né æfingar í meira en mánuð fyrir þessi mót því öll félög utan Draupnis leggja niður barnaæfingarnar yfir sumarið. Það gerði slæma stöðu auðvitað mun verri. Við sjáum hvernig staðan verður á næstu mótum. En hvernig sem það verður, þá er gott að eiga góðan að og Grímur sá um að hressa litla karlinn við.

Verðlaun: Reynsla og hæfileikinn til að halda aftur af tárum og ekkasogum jókst.

Ásþór og Úlfur

Líkt og daginn áður reyndist Geronimo Saucedo þeim félögum erfiður ljár í þúfu. Ásþór byrjaði þó á því að komast yfir og nú var það Geronimo sem fékk víti fyrir sóknarleysi. Hann var mjög taugaveiklaður þegar glíman byrjaði, þjálfarinn hans alveg brjálaður og það var alveg ljóst að hann vissi ekki hvernig hann átti að sækja gegn Ásþóri. En eftir langa glímu gleymdi Ásþór sér augnablik og sótti inn í ójafnvægi og Geronimo notaði tækifærið og náði að snúa hann niður og þótt hann skoraði ekki mikið fyrir það þá lenti hann í fastataki og kláraði glímuna þannig. Úlfur stóð sig verulega mun betur en daginn áður og náði stórglæsilegu leggjarbragði á honum og hefði margur dómarinn gefið Ippon. En heimamaðurinn hafði lukkuna með sér og slapp með waza-ari (sem er hálfur fullnaðarsigur). Svo sótti Úlfur inn í vanhugsaða árás seinna í glímunni og var kastað á fullnaðarsigri.

Þeir félagar unnu hinsvegar Pavlov – Rússa sem var alger snillingur í gólfglímu en slakur í standandi glímu. Úlfur kastaði honum á Ippon en hann braut fjórum sinnum af sér gegn Ásþóri og var dæmdur úr keppni. Síðasti andstæðingurinn hafði látið færa sig í þyngsta flokkinn daginn áður til að reyna að krækja í stig og keppt við 102 kg og 120 kg menn. Styst er frá því að segja að hann meiddist það illa að hann dró sig úr keppni og urðu Úlfur og Ásþór því enn að glíma um silfurverðlaunin.

Verdlaun_Dagur2_JOS

Ásþór fór gætilegar núna og glíman dróst örlítið á langinn og var gríðarlega spennandi. Úlfur skaut inn hættulegum Uchi-Mata árásum (e.k. sniðglíma á lofti) sem Ásþóri tókst naumlega að komast undan og Ásþór náði næstum að fella Úlf með leggjar og herðaköstum. Glímunni lauk skyndilega þegar Ásþór komst inn í standandi Ippon Seoinage, Úlfur náði að stöðva það andartak en með gríðarlegu átaki lyfti Ásþór honum upp og kastaði honum á einstaklega háu og glæsilegu fullnaðarsigurskasti.

Þegra Úlfur kom og þakkaði Ásþóri glímuna hafði hann einfaldlega á orði: „Eitt-eitt“.

Verðlaun: Ásþór – Silfur. Úlfur – Brons.

Daníela

Andstæðingur Daníelu var Michelle Myers, en allar aðrar höfðu því miður dregið sig úr keppni eftir fyrri keppnina þótt um stigamót væri að ræða. Þær höfðu sagt Daníelu það daginn áður að þær hafi verið á 500 kaloría dagsskammti af mat skv. skipun þjálfarans til að ná niður fyrir 78 kg og vera má að einhverjar hafi verið það búnar á því eða meiðst.

OJ Domestics - Verðlaunaafhending

Keppt er í „Best out of Three“ og Myers var einbeitt og hafði betur í tveim glímum af þrem. Daníela var ekki sátt við þetta, en því miður hafði mér ekki tekist að vera að coacha hana og Sævar þ.s. yngri drengirnir voru einir hinumegin í salnum á sama tíma að glíma og hún. En þeirra rimma var ekki búin eins og sést í næsta bloggi.

Meðfylgjandi mynd er af verðlaunalínunni daginn áður og er Myers lengst til hægri á henni. 

Verðlaun: Silfur

Sævar

Líkt og Daníela átti Sævar hafði fækkað mjög í þeirra flokkum og einungis voru þrír keppendur í hans flokki, þar af sá sem lent hafði í öðru sæti daginn áður. Sævar átti mjög erfitt uppdráttar og lenti í þriðja sæti af þrem keppendum. Hann var gríðarlega ósáttur við útkomuna og fannst halla á sig dómum og undir það var tekið af þjálfurum á svæðinu. Hann beit þó á jaxlinnn og ákvað að gera betur von bráðar. Okkur hafði nefnilega borist einstaklega skemmtilegt boð um þáttöku á enn einu stórmóti, seinna sama dag, og segir frá því í næsta bloggi og þar mundi hann eiga aftur við þennan kappa, Kevin Castillio frá Costa Rica.

Verðlaun: Brons

Samantekt á WOW Júdó í Bandaríkjunum- Staðan kl. 14.00 30. júní að tveimur mótum loknum:

Brons: 5

Silfur: 3

 

Gull: 0 

 Silfur frá Jr. Judo Olympics í Texas


Blogg #6 - Jr. Olympics Championships Domestic 28.-29. júní

Irving Convention Center

Fyrsta mót ferðarinnar hófst snemma morguns á föstudag, strax eftir hið ógurlega ferðalag sem lýst var í bloggi #4 og lauk á laugardaginn. Allir voru reknir „frekar“ snemma í háttinn, nema yðar einlægu sem vakti frameftir við skipulagningu og bloggskrif. Það hefði nú verið meiri geðveikin að fara ekki að sofa fyrir miðnætti, þannig að það var nákvæmlega það sem maður gerði og hætti að skrifa um hálf-tvöleytið.

Mótshúsakynnin eru alveg mögnuð. Það tók dálitla stund að koma okkur fyrir, leggja bílnum í einu auðu bílastæðunum, sem voru uppi á þaki í ósanngjörnum hita

Ásþór og Úlfur

Eins og farið var yfir í síðasta bloggi lentu Ásþór og Úlfur saman í flokki þar sem þyngdardreyfing var tvöfalt meiri en eðlilegt er. Þeir stóðu sig hinsvegar báðir með prýði, unnu sína andstæðinga uns kom að þrekvöxnum mexíkóskum texasbúa sem heitir Geronimo Saucedo. Þrátt fyrir 10 kg þyngdarmun hafði Ásþór í tré við hann og fékk áminningu fyrir litla sókn einu sinni í glímunni. Hann tapaði á því en glíman hefði það vel getað farið á hinn veginn því Saucedo sóti afskaplega lítið og mest til sýnis til að fá ekki víti. Úlfur tók feilspor snemma í glímu sinni gegn honum og var fleygt á hörðu bragði en ég hafði á tilfinningunni að þar væri aðallega reynsluleysi um að kenna og að hann ætti mun meira inni.

Úlfur og Ásþór með Geronimo Saucedo

Ási og Úlfur lentu því sem oftar undanfarin ár á Íslandi, í glímunni um toppsætið sem þeim stóð til boða. Þeir þekkja hvorn annan algerlega út og inn og í sínum viðureignum heima fyrir hefur Ásþór oftar haft betur. En í þetta skiptið sá Úlfur algerlega við honum þegar Ásþór hljóp á sig og reyndi leggjarbragð án þess að undirbúa það vel og tók gríðarlega vel útfært mótbragð sem færði fullnaðarsigur – Ippon.  Þeir félagar komust sem sé báðir á pall:

Verðlaun: Úlfur – Silfur. Ásþór Loki – Brons.

Sævar

 

Keppt var í flokkum Daníelu og Sævars til skiptis á nánast samliggjandi dýnum, en það gladdi mig mjög sem þjálfara því þá þurfti ég ekki að hlaupa yfir mótsstaðinn þveran og endilangan til að ná að sitja í þjálfarasætinu við völlinn og styðja þau með taktískum upplýsingum, en gríðarlegu getur munað fyrir keppendur að hafa eða ekki hafa þriðja augað á hliðarlínunni sem sér glímuna utan frá.

Það kom okkur í opna skjöldu þegar í ljós kom að fyrsti andstæðingur Sævars og sigurstranglegasti maðurinn í hans flokki var L.A. Smith sem er ríkjandi Bandaríkjameistari Seniora, þ.e. fullorðinna, í -100kg flokki en hann er aðeins 20 ára gamall og er líklegur kandídat aðkeppa fyrir þeirra hönd á næstu Ólympíuleikum. Sævar stóð sig gríðarlega vel, en laut í lægra haldi fyrir honum. Svo vann hann tvær glímur og tapaði einni og það dugði honum til verðlauna fyrir þriðja sætið á þessu fyrsta móti.

Verðlaun: Brons fyrir Sævar!

Daníela

Margir keppendur voru í flokki Danélu og hver glíma gríðarlega mikilvæg. Allir keppendurnir höfðu undirbúið sig eins vel fyrir ferðina og kostur var á og Daníela ekki síst, en hún þurfti að keyra upp árásargirnina og bitið í sóknunum en það vantar oft í glímunum heima fyrir. Undirbúningurinn borgaði sig og hún hóf leikinn vel og sigraði unga konu sem átti eftir að mæta henni oft næstu daga, Myers frá Bandaríkjunum. Eftir gríðarlega harða og langa baráttu tókst Daníelu að hafa betur og tók það svo á hana að hún var við það að líða út af sökum þreytu, vökvaskorts og andlegu álagi, en eins og með hana, Úlf og Grím þá var þetta mót það langstærsta sem þau höfðu tekið þátt í. Henni lá einnig við örmögnun eftir aðra glímuna sem hún tapaði naumlega og eftir það tókum við á aðferðum til að spara orku. Henni tókst það og átti tvær glímur eftir og vann aðra en tapaði hinni gegn sigurvegara riðilsins. Það dugði henni þó til verðlaunasætis.

Verðlaun: Brons fyrir Daníelu!

Grímur og Þórarinn í erfiðum róðri

Grímur að

Eins og lýst var í síðasta bloggi áttu Grímur og Þórarinn við ákveðið ofurefli að etja sökum formsins á mótinu og þeim venjum sem tíðkast erlendis. Þrátt fyrir gríðarlega hetjulega baráttu og góða spretti, þá þurftu þeir að játa sig sigraða og töpuðu sínum tveimur glímum hvor og voru þar með úr leik. Grímur var hinn brattasti en Þórarinn tók þessu frekar illa til að byrja með en hresstist fljótlega þegar Grímur fór yfir það með honum hve mikið þeir höfðu lært á þessu. Gott er að eiga góðan að!

Verðlaun: Keppnisreynsla og vinátta. 

Samantekt

Frábær árangur náðist sem sé á FYRSTA mótinu og eins og gefur að skilja á móti með yfir 800 keppendum þá var gríðarlegur fjöldi júdófélaga hér sem fór algerlega tómhentur heim. Hópurinn okkar vakti athygli fyrir samstöðu og samhjálp, íþróttamannslega og drengilega framkomu og vinalegheit í alla staði. Ég hef enga tölu á því hversu oft þennan fyrsta dag ókunnugir gengu upp að mér og hrósuðu mínu fólki og reyndar mér líka fyrir þjálfunina, en okkar litli hópur frá Íslandi hafði vakið talsverða athygli. Við erum jú gjaldþrota og undir sjöþúsundmilljón tonnum af eldjfallaösku og hrauni.

WOW Júdó í Bandaríkjunum 2013 - Staðan 29. júní að einu móti loknu:

Brons: 3

Silfur: 1

Gull: 0 


Blogg #5 - Dallas, Texas - Síðustu aðgerðir fyrir mótin

Vigtun og skipting í flokka – Dallas, Texas 27.-28. júní, 2013

Vigtun fór fram tvo daga, og fór eftir því hvenær hver átti að keppa – á föstdegi eða laugardegi. Laugardagsvigtanirnar giltu svo líka fyrir næsta mót sem yrði á sunnudag.

Til útskýringar þeim sem ekki vita, þá er þáttakendum í júdó skipt í flokka eftir aldri og þyngd. Það hljómar ósköp einfalt og skipulegt en er það ekki og getur verið gríðarlega ósanngjarnt ef ekki er rétt með farið þegar börn eiga í hlut. Fullorðið fólk passar ágætlega í þannig kassa, en ekki börn.

Þórarinn Þeyr (9 ára) – Vigtaði á föstudag fyrir laugardags- og sunnudagsmótin

Ásþór og Þórarinn daginn fyrir brottför

Fyrirfram var ljóst að mögulegt vandamál yrði fyrir Þórarinn Þey, 9 ára, að keppa í sínum flokki því hann er fæddur alveg seinast á árinu, lágvaxinn og ekki sérlega sinaber. Bara svona „venjulega vaxið“ barn skv. íslenskum stöðlum. Hér úti tíðkast hinsvegar miklar öfgar í barnaþjálfun frá unga aldri, erfiðir kúrar, svelti og miklar brennsluæfingar frá 6 ára aldri sem miða að því að hámarka hlutfall vöðva gagnvart fitu og hámarka með því snerpu, líkamshæð og styrk miðað við flokk. Flokksskiptingin nær yfir nokkur kíló -34 til -38. Það þýðir hinsvegar að 42-44 kílóa „venjuleg“ börn eru skorin niður í -38 kg, vigtuð þannig og svo þyngd eins og mögulegt er á milli vigtunar og móts, en sá tími getur verið allt frá 24 tímum til tveggja sólarhringa. „Venjuleg“ börn sem ekki ganga í gegnum neitt sérstakt af því tagi, eins og Þórarinn og vigtar 36,4 kg. við vigtun eigaþá við ofurefli að etja. Á Íslandi er komist hjá þessu á flestum mótum með samráði þjálfara sem tefla saman börnm af svipaðri getu, en hér úti er komið punktakerfi og peningakerfi á mót 6 ára og eldri og því verður þetta svona. Þórarinn lenti þarna en ég ákvað að sjá hvernig skiptingin yrði.

Ásþór og Úlfur (14 ára) – Vigtuðu á fimmtudag fyrir föstudags- og sunnudagsmótin

Ásþór er 70kg og Úlfur 77. Þeir lentu í þeirri sérstöku aðstöðu að þótt þeir væru í 13-14 ára flokknum þá var þyngsti mögulegi flokkurinn +64 kg. Það þýddi að sá sem var rúm 69 kíló eins og Ásþór gat hæglega lent í flokki gegn +100 kg manni. Það gefur auðvitað auga leið að er fáránlega ósanngjarnt. Það sem þjálfurum stendur til boða í því tilviki er að mæta á fundinn þar sem dregið er í flokka og fá honum skipt upp af öryggisástæðum, en ekkert er tryggt í því efni. Sem betur fer tókst mér að setja fram mál mitt almennilega þegar í ljós kom að strákarnir í þessum flokki voru frá 69 kg til 120 kg. USA Judo ætlaði engu að síður að draga í flokkna en þá er það þjálfaranna að kalla fram í og breyta þessu. Því miður voru hinsvegar ekki nægilega margar skráningar til að deila þeim Ásþóri og Úlfi í sitthvorn flokkinn en á þeim munar miklu meiru en eðlilegt er innan flokks. Í Evrópu er Ásþór í -73kg flokki en Úlfur í –81kg en hér voru mótshaldarar ekki tilbúnir að hafa miðflokkinn og höfðu því alla 63-81kg saman í flokki.

Þetta var talsvert áfall fyrir Ásþór því bæði veit hann hversu ósanngjarnt það er og svo vildi hann og Úlfur helst ekki keppa um sömu sætin enda eru þeir vinir og félagar og hálf-bjánalegt að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að slá hvorn annan út. Það varð hinsvegar ekki umflúið.

Daníela (19 ára) og Sævar (20 ára) – Vigtuðu á föstudag fyrir laugardags- og sunnudagsmótin

Daníela hafði verið að miða á -78kg flokkinn og náð því takmarki fyrir tæpum 2 vikum og þurfti bara að gæta sín. Ein lítil flaska af vatni er hálft kíló! Það að hora sig niður í gufu daginn frir mót (sem hér í Texas felst í því að fara í hettupeysu og út í svækjuna að hlaupa) kostar orku, einbeitingar- og úthaldstap. Sævar þurfti að ná af sér þó nokkrum kílóum á milli klukkan 09.00 og 14.00 og Daníela tók að sér að píska hann áfram ef þurfti. Hann stóð sína plikt og það hjálpaði að úti var 40 stiga hiti þannig að fimm mínútum áður en vigtunin lokaði klukkan 14.00 var Sævar kominn niður fyrir 100 kg og vigtaði 99,9 kg takk fyrir. Hann var hinsvegar orðinn líkamlega ófær um að skyrpa sökum vökvaleysis en við hin biðum hans utan við vigtunarherbergið með rúman lítra af Gatoradel sem hann drakk allan í 20 skrefum. Svona er bræðralagið!

Köttið mikla Daníela og Sævar

Grímur (15 ára) – Vigtaði á fimmtudag fyrir föstudags- og sunnudagsmótin

Grímur var nákvæmlega jafn þungur og hentaði honum best við vigtun og lenti í -81kg flokki. Öfugt við alla hina júdómennina var þyngdin var ekki andstæðingur hans númer eitt, heldur aldurinn, en hann var yngstur í flokki 15 til 17 ára. Á þeim árum á sér stað gríðarlegt stökk hjá flestum drengjum. Nær lagi væri að segja að þeir breytast úr drengjum við 15 ára aldurinn í karlmenn við 18 ára aldurinn eða svo. En þetta var vitað mál fyrirfram og Grímur sem er gríðarlega hraustur líkamlega hafði ákveðið að stefna fyrst og fremst á því að öðlast keppnisreynslu og gera sitt besta út í gegn. Þess ber að geta að enginn annar 15 ára einstaklingur var skráður til keppni, en það er vegna þess að þjálfarar þeirra sem senda unglinga á þessi mót vita hve erfiður róðurinn er. En Íslendingar eru klikk auðvitað þannig að af keppendunum í ferðinni eru þrír af sex í mjög erfiðum málum, annaðhvor þyngdarflokkalega séð eða aldurslega séð.

Gerónímó!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband