Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Blogg #4 Keflavík, Ísland til Boston, Massachusetts til Atlanta Georgia til Dallas, Texas

Ég ætla að hætta að sofa á morgun

Þriðjudagurinn 25. júní  var önnum hlaðinn hjá öllum, ekki síst þeim sem þetta ritar en ég er Rúnar Þór Þórarinsson. Ég fer með það öfundsverða hlutverk að sjá um allt annað í þessu ævintýri keppa á mótunum og njóta ferðarinnar. Þriðjudagurinn var dagurinn áður en haldið skyldi af stað og ekki svaf ég mikið nóttina á undan og hugði mér gott til glóðarinnar að sofa nú vel því langt flug og svo löng bílferð voru framundan eldsnemma morgunninn eftir. Það var ekki svo gott og ég sofnaði um tvö um nóttina í stað tíu eins og ætlunin var. Hugði ég mér þá gott til glóðarinnar að sofa í Icelandair flugvélinni til Boston eins og Gillzenegger á femínistasamkomu en varð ekki kápan úr því klæðinu heldur. Búið var að hræra í sætaskipaninni þannig að ég lenti í leðurklæddu vítisstiknunarsæti með fæturna eins og í skrúfstykki. Þórarinn var gráti næst því við höfðum verið aðskildir vegna aukafarþega sem höfðu lent í olíulekahremmingum í Stokkhólmi og restin af genginu var dreifð um alla vél. Úr því rættist þó því allir gátu glápt á mynd. Nema ég, sem þurfti að sofa. Það gekki hinsvegar ekki nema í 20 mínútur því ég var að stikna í þessu hásæti djöfulsins. En allt í lagi, ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að leggja mig í flugstöðinni.

Flugstöðin í Boston

Engir donuts!

Ekki kom mér blundur á brá í flugstöðinni og kom þar til samsett ástæða. Allir þurftu að borða, en þ.s. tveir keppendanna máttu ekki þyngjast þá fóru allir á bræðralagssabbatfyllerí og átu það sama og sveltararnir. Ég mátti til með að næra þau eitthvað og keypti sparlega í rándýrri flugsjoppunni. Eftir nokkra tíma komust samúðarsveltararnir að því að þetta var afleit hugmynd en bökkuðu þó ekki undan. Bræðralag í lagi það! Við komum okkur fyrir á óþægilegum stólum þar sem við svitnuðum bara meira og svo sófum sem eru gerðir til þess að ekki sé hægt að sofna í þeim. En hvað um það, ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að sofna svefninum óhjákvæmilega í vél Air Tran frá Boston til Atlanta.

Fingralangur eða Ungfrú Ólán rænir veski, kortum og $1000 í Atlanta.

Flogið til Atlanta

Ég reyndist sá eini sem ekki svaf á leiðinni til Atlanta.  Mikið var það nú ömurlegt. Það var svo pirrandi að vera ófær um að sofna að ég gat enn síður sofnað. Þá tilfinningu kannast allir við. Róandi hroturnar bárust allt um kring, lítill glókollur hallaði sér að öxlinni á mér og hélt um upphandlegginn og handan hans varpaði stóískur rólyndissvipur Sævars mjúkum ljóma yfir vélina. Ásþór virkjaði sinn undrakraft en enginn getur sofnað og haldist sofandi í jafn miklum látum og hann og svo vaknað við jafn lágvært hvísl, sé því ætlað að vekja hann. Úlfur og Grímur voru að mér virtist að telja Selfýsk folöld á stökki yfir lágreista girðingu sem engu hélt.

Ég var hinsvegar aleinn vakandi og var að velta fyrir mér hvern fjárann ég gæti gert í því að vera svona ósofinn því ekki yrði umflúið að keyra eftir lánsbílnum sem við ætluðum að fara á frá Atlanta til Texas, heim til Péturs bróður og bruna af stað ef við ætluðum að komast til Dallas tímanlega í vigtun. Galdramenirnir í vélunum hjá Google gáfu mér, dauðlegum bílstjóra, nákvæmlega 12 klukkustundir til að komast alla leið ef ég keyrði stanslaust. En tíminn sem var til aflögu umfram þær virtist mér vera einungis 4 klukkustundir og þær þyrfti að nota til að taka bensín nokkrum sinnum, borða og drekka (sem lítið varð úr, bíðiði bara), pissa og teygja úr sér og auðvitað sofa aðeins. Þetta þýddi að 12 tímar væri ef farið væri í einum rykk. Ég velti þessu fyrir mér í smá stund hvar ég ætti að krækja í svefninn á meðan við tókum lestina frá flugbrautinni inn í farangursendurheimt. En það var þar sem Sævar Þór Róbertsson fölnaði skyndilega. Hólfið á bakpokanum hans sem hann hafði geymt veskið í var opið og veskið var horfið og í því hafði „allt“ verið plús eitt þúsund dollarar sem var mun hærri upphæð en ég mælti með við keppendurna að taka með. Kort má endurnýja, peningarnir eru farnir. Þar fór klukkustund í að ganga á milli óviljugra starfsmanna flugfélags, flugstöðvar og lögreglu og skilja eftir orðsendingar og tölvupósta út og suður, leggja inn leitabeiðnir, senda hreinsiteymið út í vél að leita að veskinu. En allt kom fyrir ekki, veskið fannst ekki. Við gátum ekki gert meira að svo stöddu, ég fékk nokkur símanúmer, skildi eftir tölvupóstfangið mitt á vel völdum stöðum og svo fórum við í leigara heim til Péturs að sækja bílinn. Annað var ekki að gera, töfin orðin en sporrakningin komin í gang.

Ég vissi að ég gæti ekki sofið lengi, leigubílstjórinn þurfti leiðbeiningar heim til Péturs og ég hafði ekki verið í Atlanta í nokkur ár þannig að ekki svaf ég þar. Ég leyfði mér þó að hugsa mér gott til glóðarinnar og ná tveggja tíma svefni áður en við yrðum að leggja í hann.

Köngulær, vatnsleysi og dýrmæt raforka

Eftir að við greiddum leigubílstjóranum álíka verð fyrir 40 mínútna þjónustu og vinnu og við greiddum flugvallarstarfsmönnum fyrr um daginn fyrir að taka tíu sekúndur í að fleygja fimm töskum upp í flugvél, reyndum við að opna dyrnar að heimili Péturs, Þóru og fjölskyldu. Það gekk ekki sem skildi og ég mundi að það var eitthvað trix til að opna báða lásana með einum og sama lyklinum í einu. Ég var hinsvegar orðinn svo þreyttur og kominn með þvílíkan höfuðverk og handskjálfta að ég gat ekki rifjað upp slíka sjónhverfingu og treysti því á heppnina. Hún virkað ekki þannig að ég hugsaði aðeins lengur og viti menn, hurðin opnaðist og gamalkunnur ilmur mætti okkur. Þá var komið að því að sýna unga fólkinu húsið og leggja sig.

Unga fólkið tók hinsvegar bara eitt skref í einu og bara ef ég sagði því að taka eitt skref í einu því það var svo margt að skoða heima hjá Pétri og Þóru því þau eru auðvitað svo skemmtilega að við hvert fótmál beið eitthvað forvitnilegt. Svo þurfti að velja rúm og herbergi, þótt allir vissu að enginn af okkur mundi sofa þar í þó nokkra daga. Ég áttaði mig síðan á því að ekki var rétt pakkað í töskurnar og bað Ásþór, eldri snillinginn minn, að taka töskuna og bjarga þessu áður en við þyrftum að fara af stað og ganga úr skugga um að allir aðrir gerðu það líka.

Nú skyldi farið í sturtu og sofnað hvað sem tautaði og raulaði. Ég fór því úr gegnblautum fötunum sem ég hafði verið að stikna í alla ferðina, sauðbrunninn af salti og rá mér í sturtuna. En það kom ekkert vatn. Þá mundi ég eftir krana sem var á neðri hæðinni undir vaski og fór þangað og viti menn, þar voru tveir kranar. Svo er það svo einkennilegt með kranana í Ameríku að þef þú snýrð þeim þá virka þeir fyrst eins og þeir eiga að virka en svo ef þú snýrð aðeins lengra þá virka þeir stundum öfugt og skrúfa fyrir. Hinsvegar er ekkert merki um hvor tegund kranana er um að ræða né merki þar sem komið er hálfa leið. Þetta er eins og tommukerfið, maður á að finna stöðu vatnskrananna á sér. Sturtan var uppi, einn skrúfaði frá vatninu niðri og hinn uppi þannig að ég varð að hlaupa upp og niður og skrúfa fyrir og frá í baðinu því baðkranarnir lúttu sömu verkfræðilögmálum og eldhúskranarnir og vatnsinntakskranarnir. Þegar þessi Órígamíþraut hafði verið leyst fór ég í sturtuna loksins en þá var bara kalt vatn í gangi. Ég gaf skít í það og þvoði mér skjálfandi með köldu vatni og sjampói sem reyndist hárnæring þannig að ég þvoði mér aftur með sjampói og svo hárnæringu. Þetta var hin mesta raun því vatnið kólnaði í sífellu en mér var sama. Nú styttist í að ég kæmist í rúmið og sofnaði. En það lá á því nú voru aðeins tveir tímar til svefns og 1.330 kílómetra akstur beið mín daginn eftir með bílinn fullan af fólki. Ég herti upp hugann og ætlaði að skrúfa fyrir, en skrúfaði sökum þreytu aðeins lengra og ÞÁ kom heita vatnið og blandaðist saman við kalda vatnið. Ég gafst upp fyrir pípulagningamanninum og fór fram til að sofa.

Þá tók ég eftir Ásþóri standandi alveg hreyfingalausum í einkennilegri stöðu með Þórarinn Þey fyrir aftan sig, sem stamaði: „Könguló, ég held það sé Brown Recluse.“ Óargadýr það er skepna sem orsakar rotnun holds og dauða þess sem hún bítur þannig að maður tekur svona alvarlega. Strákarnir tóku á rás og ég óð fram með handklæðið sem herklæði vopnaður einhverju barnadóti sem ég greip á gólfinu. Kóngulóin skaust undir teppið með leifturhraða en hafði ekki við veiðimanninum sem klessti hana fimlega ofan í teppið og nuddaði fast á meðan leiktækið söng einhverja barnagælu. Ég komst reyndar að því við nánari skoðun að þetta var ekki Brown Recluse, en könguló var könguló. Strákarnir fóru fram og ég tók teppið af rúminu og skyldi nú leggjast til hvílu. En hvað var þar nema brún, lítil og andstyggileg könguló undir teppinu í miðju rúminu og kom trítlandi í áttina að mér. Ég sá nú samsæri skordýranna fullkomnað og gekk ákveðinn inn á bað til að finna eitthvert stórvirkt morðtól á meðan heilinn reiknaði hvar á rúminu köngulóin væri staðsett miðað við fyrri stöðu og hreyfingu því ekki ætlaði ég að vera svo lengi að missa af henni af lakinu. Ég kom út með stóran plastdúk með sogskálum eins og fólk notar á sturtubotna og miðaði á kvikindið og steindrap það. Upp rifjuðust sögur af fólki sem drap brúnar, litla könguló að kvöldi í rúmi sínu en vaknaði svo við það að vera bitinn af bróður hennar og bráðna í rotnandi haug á leið á sjúkrahús, en mér var sama. Ég skyldi leggjast út af og það í þetta rúm og sofna hvað sem liði köngulóm. Einn klukkutími og fjörtíu og fimm mínútur til stefnu.

Nú mátt þú lesandi góður, gjarnan sjá sjálfan sig fyrir sér reyna að sofna í þessu ástandi með allar hugsanir mengaðar af brúnum, litlum köngulóm, klæjandi undan sápunni og dofanum í húðinni undan kalda vatninu og örmagna hugurinn túlkandi allt sem köngulóarbit. Kannski eruð þið viljasterkari en ég en eftir 45 mínútur í rúminu leit ég á klukkuna og ákvað að hugleiða bara og slaka á. Það virkaði og ég lá algerlega lamaður og náði að sofna í um 50 mínútur áður en klukkan hringdi. Nú voru góð ráð dýr. Vara- vara- vara- varaplanið var að treysta á það að Sævar, sem var hinn einstaklingurinn sem var með bílpróf og ekki Tourette, hefði náð svefni í flugvélinni. Þá næðum við að sofna í bílnum til skiptis án þess að tefjast þannig að ef ég byrjaði að keyra gæti hann tekið við, svo ég eftir smá svefn og svo koll af kolli. Þannig gætum við byggt upp tiltölulega öruggt vökuástand. Ekki var um annað að ræða því við URÐUM að vera komin til Dallas eftir rúmar 14 klukkustundir að tímamuninum meðtöldum og höfðum 12 til að keyra í stanslausri keyrslu.

Ég "vaknaði" eftir þennan blund og Ásþór Loki, 14 ára sonur minn hafði staðið sig með prýði og pískað alla áfram í að hafa allt tilbúið til brottfarar. Þessi drengur er bara snillingur og ég vildi að ég hefði átt einhvern þátt í að ala hann upp. Allt var komið í bílinn á innan við 15 mínútum að fólki meðtöldum, skúrinn hafði verið opnaður upp á gátt, ég næstum vaknaður almennilega, Sævar búinn að fá leiðbeiningar hvernig loka skyldi sjálfkrafabílskúrshurðinni því stökkva þarf eins og Kattarkonan yfir ljósgeisla niðri við gólf. Lykillinn fór í svissinn og ég snéri. Ekkert gerðist. Ekki segja að ykkur hafi ekki grunað þetta, en þetta gerðist samt og helvítisandskotans.

Eitthvert tif var undir húddinu, engir startkaplar, annar bíll við hliðina og eins og til að pirra okkur þá rauk hann í gang en var pínulítill þannig að við gætum aldrei komist á honum. Nú voru góð ráð dýr. Ég hringdi til Péturs bróður og Þóru þar sem þau voru í fríi á Íslandi til að vita hvort það væri eitthvað sérstakt, takki sem ýta þyrfti á, fótstig að stíga á, fiðurfé að fórna um leið og lyklinum væri snúið en svo var ekki. Þóra benti mér hinsvegar á það, yfir símann sem datt út tvisvar í samtalinu, hvar startkaplarnir voru og ég lagði á og fékk Grím að halda húddinu á gömlu tíkinni opnu og Sævar að starta gamla bílnum á meðan ég reddaði startinu. Ekki veit ég hver framleiðir rafgeymana á bílunum í Bandaríkjunum en viðkomandi kann víst ekki plús og mínustáknin. Við leituðum dálitla stund að þeim en tókum svo eftir því í næturmyrkrinu að bandarískir bílahönnuðir væru ekki litblindir því annar póllinn á báðum bílum var rauður en hinn svartur. Þá virtist okkur leiðin greið, köplunum var smellt á og stokkið inn í bíl að starta. Nokkrir auka neistar höfðu komið þegar klónum var brugðið á, en það gat nú gerst. Þegar við ég startaði bílnum varð mér samstundis ljóst að þótt kaninn væri ekki litblindur þá var rökrétt notkun litanna ekki alveg í samræmi því svart var augljóslega rautt á hinum bílnum og öfugt. Afleiðingin af því var sú að einu startkaplarnir sem var að finna í næsta nágrenni voru að bráðna en ég náði að stöðva þá katastrófu. Eitthvað bölv or ragn fór þarna út í nóttina í þessu ferli öllu saman og var ekki fallegt en við hugguðum okkur við það að mýflugurnar héldu sig fjarri fyrir vikið. Þær vildu sjálfsagt ekki svona sóðatal í sínar fíngerðu hlustir.

Hvað er pabbi að GERAÐ?!

Allavega, þá var bíllinn kominn í gang og þá var bara eftir að virkja GPS tækið. Til til að nota þannig tæki til að hjálpa sér að rata þarf þrennt. Tækið sjálft sem var milli sætanna, sogskálina góðu sem heldur tækinu passlega hátt í glugganum og snúruna á milli tækisins og rafmagnsins í bílnum. Auðvitað hlaut einn þessar hlut að vera alveg gjörsamlega týnt og það reyndist vera snúran sem er mjög sérhæfð. Í þriggja hæða húsi þar sem búa þrjú börn er ekki að vænta að allt sé á sínum stað og því keyrðum við af stað klukkan hálf tvö um nóttina með útprentaðar leiðbeiningar til Texas  sem ég hafði prentað fyrir algjöran grís á Íslandi örmagna af þreytu seint kvöldið þar-þaráður og María pakkað niður.

Ekið til sigurs

SAM_3528

Ekki var annað að gera en að treysta á Google Maps á föstu formi og við krúsuðum af stað. Þetta var óhemju keyrsla, 1.330 km á 12 tímum og til að gera langa sögu stutta þá var Sævar alveg magnaður trúper og við svissuðum samkævmt áætlun tvisvar sinnum og ég náði 30 mínútna svefni á milli sex og sjö um morguninn og heilli klukkustund nokkrum tímum síðar í hugleiðslumóki. Við komumst allavega til Texas á löglegum hraða, framhjá fjölda vegaviðgerða og þremur umferðarslysum með 30 mínútur til góða. En þá villtumst við út af réttri braut því ein leiðbeininganna var nú orðuð á annan hátt en aðrar og það skilaði sér ekki nógu vel til bílstjórans sem aðstoðarbílstjórinn las upp. Við vorum því strand, netlaus, gps-laus og svefnlaus sunnan við Dallas en áttum að vera norðan við Dallas. Einhver undrakraftur leiðrétti þá himintunglin og beindi mér að götu sem ég átti ekki að beygja og að spyrja til vegar á nálægu veitingahúsi. Ég stoppaði við það fyrsta sem ég sá og viti menn það var eitt af tveimur „Dickey‘s“ í Dallas, en það hafði verið uppáhaldsveitingastaðurinn okkar fjölskyldunnar í Georgíu mörgum árum áður en honum var lokað þar. Þar mætti ég mexíkana sem talað bjagaða ensku og sagðist lítið rata nema í Dallas en viti menn, hann var gangandi Google þegar Marriott hótelið í Norður-Dallas var annars vegar og við komumst á hótelið um 30 mínútum áður en vigtuninni lauk. Ef við hefðum ekki náð því var ljóst og óafturkræft að ENGINN fengi að keppa á þessu fyrsta móti og allt erfiðið hafði verið til einskis.

Vigtun og gæfan snýst okkur í vil

Nú gekk vel að vigta og Sævar sem var heil 3 kíló yfir vigt og var eini maðurinn sem ekki hafði lést mikið í ferðinni sjálfri, fékk að vita að hann mætti vigta daginn eftir ásamt Daníelu og Þórarni. Þetta voru mikil gleðitíðindi, ekki síst vegna þess að nú gátum við farið að borða, hann varð að passa sig og svo ná þessu af sér en það yrði hægt vonadi daginn eftir ef það væri nægilega heitt úti og hann kæmist á fætur nægilega snemma.

Halló hótel!

Meðfylgjandi vídeó er frá því er við fengum að vita hvar HITT Dickeys í Dallas var, en það reyndist – merkilegt nokk – vera í 5 mínútna akstursfjarlægð frá hótelinu. Það var magnað!

Dregið í riðla

Deginum var ekki lokið hjá mér því draga þurfti í riðla og það þarf þjálfarinn að vera viðstaddur og það hófst klukkan sex. Þeir sem hafa sótt svona viðburði í Bandaríkjunum vita að það er alveg óskaplegt atriði fyrir þá blessaða að tala mikið fyrirfram, draga fyrirmenni og gúrúa fram fyrir alla, þakka Guði fyrir tilvist þeirra, kvarta svo við hvorn annan yfir formsatriðum, beita valdi í krafti stöðu til að þagga mótmælin og svoleiðis. Ég var ansi þreyttur að varð einhvernveginn sáttasemjari á milli stríðandi fylkinga og hef síðan uppskorið tölvuvert óvænt skemmtilegheit út úr því!

Þegar þessu var lokið klukkan 22.30 að staðartíma voru allir keppendurnir mínir sem betur fer löngu sofnaðir og ég settist við tölvuna að reyna að koma gögnum á milli diska, skrifa blogg og svoleiðis en upp úr miðnætti ákvað líkaminn að hausinn á mér hefði misst ökréttindin á sér og ég svaf til sex um morgunninn. Þá hringdi klukkan því kominn var tími til að því skafa kílóin af þeim sem það þurftu og gæta þess að þeir sem væru akkúrat héldu því fyrir vigtun. Svo var auðvitað aðal málið þann daginn að peppa Ásþór, Grím og Úlf upp þannig að þeir færu snaróðir í glímurnar og kæmust á pall. Það kemur næst.

MYNDBANDHungrið satt í Irving Texas


Blogg #3 "...en hvaða fólk er þetta Júdófólk?"

Ungmennin sex sem eru í þessu ferðalagi hafa ýmis afrek unnið þrátt fyrir ungan aldur. Þeir sem þekkja þau ekki öll fá sjálfsagt aðeins meira út úr því að kynnast þeim aðeins nánar og eins og lofað var þá verða hér á blogginu birt júdóæviágrip þeirra. Þar sem mikið vatn hefur til sjávar runnið þá tökum við þau eitt af öðru fyrir og byrjum á þeim sem keppa á morgun en endum á þeim sem kepptu í dag. Þetta er nefnilega svo assgoti langt því þau eru svo flink!

Þórarinn Þeyr Rúnarsson
9 ára, æfir hjá JR (Rvk)

Besti árangur hans voru silfurverðlaun á Bandaríkjameistaramótunum Jr. International Open árið 2009 og brons og silfur á Jr. Olympics og Jr. International Open árið 2010

Þórarinn Þeyr Rúnarsson

Þeirra yngstur er Þórarinn Þeyr Rúnarsson, 9 ára. Þrátt fyrir ungan aldur er Þórarinn Þeyr mjög reyndur keppnismaður, en hann byrjaði í júdó aðeins fjögurra ára gamall. Fyrstu tvö árin í júdóinu keppti Þórarinn að jafnaði á einu móti á mánuði í Suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem fjölskyldan var búsett. Meðal verðlauna voru 2. sæti á Jr. Open International í Flórída 2009, 3. sæti 2010 og 2. sæti á Jr. Olympics í Georgíu en á öllum þeim mótum keppti hann fyrir Íslands hönd þótt hann væri búsettur í Bandaríkjunum. Einnig varð hann fylkjameistari barna m.a. í Georgíu, Tennessee og S-Karólínu og fleiri fylkjum á sömu árum og vann til fjölda brons og silfurverðlauna. Hann vann einnig Hillerod Open í Danmörku 2011 eftir að hann flutti heim, en á Íslandi hefur hann síðan unnið allar glímur sínar á mótum utan tvær og hefur keppt á langflestum mótum fyrir sinn aldur síðan 2011 en þau voru mun stopulli en þau sem hann keppti í erlendis. Hann er því í nokkrum sérflokki í sínum aldursflokki, en glímurnar hafa verið að þyngjast síðasta árið. Þórarinn er sá eini af Bandaríkjaförunum sem ekki hefur getað æft með félaga undanfarnar 5 vikur en þá voru krakkaæfingarnar lagðar niður yfir sumarið. Nokkrir foreldrar og börn hlupu þó undir bagga og komu eða héldu eina æfingu hver og eiga þau þakkir skildar. Fyrsta glíman hans í ferðinni er á morgun, 29. júlí á fyrsta mótinu sínu hér úti og er í nokkuð stórum og mjög sterkum riðli.

Sævar Þór Róbertsson
20 ára, JR (Rvk.)

Sævar er fæddur 1993. Hann byrjaði júdóferilinn hjá Júdófélagi Reykjavíkur þegar hann var 9 ára og hefur því æft í um 11 ár.

Sævar Þór Róbertsson

Sævar byrjaði að keppa þegar hann var 11 ára og hefur unnið til vægast sagt fjölda verðlauna hérlendis og erlendis. Eina leiðin til að gera þeim skil er að skoða þau í Excel, en ef tekin eru nokkur dæmi þá vann hann sinn flokk og opna flokkinn á Hillerod 2010 og tvisvar að auki. Norðurlandamót, unnið tvisvar, einusinni 2. einusinni 3. Silfur á Budo Nord 2008. Opna sænska meistaramótið 3. sæti. Matsumae keppt ekki náð á pall. EYOF (European Youth Olympic Festival) keppt, ekki unnið, meiddur 2008.

Sævar náði að keppa á einu A-móti opna þýska Jr. og Sr. áður en hann meiddist á síðasta ári. Sævar er margfaldur Íslandsmeistari unglinga og vann síðast 2011 en keppti ekki í fyrra v. meiðsla. Hann hefur æft af miklum dugnaði og sótt fjölda æfingabúða erlendis m.a. í tengslum við Matsumae Cup, opna sænska meistaramótið, opna þýska meistaramótið, Budo Nord og Norðurlandameistaramótið í Noregi. Sævar keppir nú í ár, 2013, sitt síðasta ár í unglingaflokki og stefnir á að klára það skeið með glæsibrag. Fyrsta glíman hans hér verður á morgun, laugardaginn 29. júlí.

Daníela Rut Daníelsdóttir
19 ára, JR (Rvk.)

Daníela eini kvenmaðurinn í ferðinni en er samt eiginlega jafn mögnuð og fimm þannig að kynjahlutfallið í Bandaríkjaferðinni er jafnt!

Daníela Rut Daníelsdóttir

Daníela er fædd í júní 1994 og býr í Grafarvogi þar sem hún gengur í Borgarholtsskóla. Hún er dugnaðarforkur því til viðbótar við námið vinnur hún tvær vinnur og stundar júdó af krafti.

Hún hóf júdóferilinn árið 2008 hjá JR og hefur æft þar síðan. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna hérlendis en hennar besti árangur erlendis var á Hillerod 2009-10 þegar hún náði öðru sæti. Hún glímdi til silfurs á opna sænska meistaramótinu 2010 og keppti á norðurlandamótunum í Noregi 2011 og á Íslandi 2010 þar sem hún náði 2. sætinu. Meðal stórra sigra hérlendis hefur hún landað þremur Íslandsmeistaratitlum og unnið til silfurs á Reykjavik International Games (RIG) 2011.

Hinir keppendurnir eru: Ásþór Loki Rúnarsson (14 ára), Úlfur Böðvarsson (14 ára) og Grímur Ívarsson (15 ára). Þeir fá sitt pláss í einhverju næstu blogga en næst er komið að ferðafréttunum Keflavík - Dallas.

Óhætt er að segja að á ýmsu gekk!

 


Blogg #2 Mótin, æfingarnar, tómstundir og ferðalögin - Yfirlit!

Blogg 2 um hið ævintýralega keppnisferðalag - WOW Júdó 2013!

Ýmislegt annað verður gert en að keppa og æfa júdó því júdómennirnir eru ungt fólk og ungt fólk á að skemmta sér og fræðast til jafns á við að styrkja líkamann og bæta sig í íþróttinni! Við viljum því deila með ykkur ferðaáætluninni sem komin er í nokkuð grófum dráttum en hún er svona.

 

  • 26.-27. júní – Úthaldsferðalag! Flogið frá Íslandi til Boston, þaðan til Atlanta og keyrt til Texas í einum rykk því við verðum að ná áður en vigtun er lokið kl. 16.00 þann 27.júní. Ferðatími = 32 klst. Vekið mig á hótelinu!
  • 28.-30. júní - Jr. Olympics Domestic & Jr. Olympics International í Texas
  • 5.-7 júlí - Jr.Open Nationals í Pennsylvania
  • 7.-10 júlí - Menningarfrí í Washington DC, tæpir þrír dagar í Smithsonian og nærliggjandi söfnum
  • 13.-14. júlí – Möguleiki á að mæta á eitthvert smærra „æfingamót“ í Georgíu eða aðliggjandi fylki.
  • 11.-20 júlí – Vettvangsferðir og heimsóknir í Atlanta og nágrenni. Óvæntir áfangastaðir!
  • 2.-3. og 11.-20 júlí - Júdóæfingar í Atlanta hjá Waka-Musha hjá sensei Leo White, Gwinnett Judo hjá sensei Jackie White og Trammell Fitness Center hjá sensei Joshua White.
  • 22.-25 júlí - Júdóæfingabúðir í Flórída og afslöppun á ströndinni þess á milli.
  • 26.-29. júlí - Jr. Open International í Flórída. Þetta verður líklega sterkasta mótið með keppendur frá tugum landa.
  • 29. júlí Golden Score Tournament í Flórída.
  • 30. júlí – Atlanta kvödd og heimferðDaníela, Sævar, Ásþór og Þórarinn krjúpandi á síðustu meistaraflokksæfingunni fyrir brottför

 

Meðfylgjandi mynd er frá síðustu meistaraflokksæfingunni fyrir brottför, en þar vantar Úlf og Grím þar sem þeir eru við æfingar hjá sínu félagi, UMFS á Selfossi. Krjúpandi eru Sævar, Daníela, Ásþór og Þórarinn sem keppa fyrir Íslands hönd.

 

Í næstu uppfærslu mun ég segja aðeins frá keppendunum sjálfum, en þau hafa ýmis afrek unnið þrátt fyrir ungan aldur.

 

Takk fyrir í bili.

 


Blogg #1 Ungt júdófólk heldur til Bandaríkjanna

Í fimm vikur mun glæsilegur hópur sex ungmenna halda til Bandaríkjanna þar sem þau munu dvelja í Georgíu og keyra um landið þvert og endilangt á milli hinna Fjóru Stóru Bandaríkjameistaramótum ungmenna nú í júní og júlí. Þau munu sækja æfingabúðir og smærri mót, sækja tíma hjá félögum í Atlanta, sækja fjölda spennandi staða heim um Bandaríkin þver og endilöng.

Þú getur fylgst með þeim hér, en bloggið verður uppfært reglulega.

Ferðin fer einstaklega vel af stað en WOW Air hefur ákveðið að styðja við bakið á Júdófólkinu og er þeim færðar hinar mestu og bestu þakkir fyrir. Meðfylgjandi mynd var tekin við það tækifæri með Guðrúnu Valdimarsdóttur, aðstoðarmanni forstjóra. 

Hluti júdóhópsins með fulltrúa WOW Air í morgun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband