Blogg #3 "...en hvaða fólk er þetta Júdófólk?"

Ungmennin sex sem eru í þessu ferðalagi hafa ýmis afrek unnið þrátt fyrir ungan aldur. Þeir sem þekkja þau ekki öll fá sjálfsagt aðeins meira út úr því að kynnast þeim aðeins nánar og eins og lofað var þá verða hér á blogginu birt júdóæviágrip þeirra. Þar sem mikið vatn hefur til sjávar runnið þá tökum við þau eitt af öðru fyrir og byrjum á þeim sem keppa á morgun en endum á þeim sem kepptu í dag. Þetta er nefnilega svo assgoti langt því þau eru svo flink!

Þórarinn Þeyr Rúnarsson
9 ára, æfir hjá JR (Rvk)

Besti árangur hans voru silfurverðlaun á Bandaríkjameistaramótunum Jr. International Open árið 2009 og brons og silfur á Jr. Olympics og Jr. International Open árið 2010

Þórarinn Þeyr Rúnarsson

Þeirra yngstur er Þórarinn Þeyr Rúnarsson, 9 ára. Þrátt fyrir ungan aldur er Þórarinn Þeyr mjög reyndur keppnismaður, en hann byrjaði í júdó aðeins fjögurra ára gamall. Fyrstu tvö árin í júdóinu keppti Þórarinn að jafnaði á einu móti á mánuði í Suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem fjölskyldan var búsett. Meðal verðlauna voru 2. sæti á Jr. Open International í Flórída 2009, 3. sæti 2010 og 2. sæti á Jr. Olympics í Georgíu en á öllum þeim mótum keppti hann fyrir Íslands hönd þótt hann væri búsettur í Bandaríkjunum. Einnig varð hann fylkjameistari barna m.a. í Georgíu, Tennessee og S-Karólínu og fleiri fylkjum á sömu árum og vann til fjölda brons og silfurverðlauna. Hann vann einnig Hillerod Open í Danmörku 2011 eftir að hann flutti heim, en á Íslandi hefur hann síðan unnið allar glímur sínar á mótum utan tvær og hefur keppt á langflestum mótum fyrir sinn aldur síðan 2011 en þau voru mun stopulli en þau sem hann keppti í erlendis. Hann er því í nokkrum sérflokki í sínum aldursflokki, en glímurnar hafa verið að þyngjast síðasta árið. Þórarinn er sá eini af Bandaríkjaförunum sem ekki hefur getað æft með félaga undanfarnar 5 vikur en þá voru krakkaæfingarnar lagðar niður yfir sumarið. Nokkrir foreldrar og börn hlupu þó undir bagga og komu eða héldu eina æfingu hver og eiga þau þakkir skildar. Fyrsta glíman hans í ferðinni er á morgun, 29. júlí á fyrsta mótinu sínu hér úti og er í nokkuð stórum og mjög sterkum riðli.

Sævar Þór Róbertsson
20 ára, JR (Rvk.)

Sævar er fæddur 1993. Hann byrjaði júdóferilinn hjá Júdófélagi Reykjavíkur þegar hann var 9 ára og hefur því æft í um 11 ár.

Sævar Þór Róbertsson

Sævar byrjaði að keppa þegar hann var 11 ára og hefur unnið til vægast sagt fjölda verðlauna hérlendis og erlendis. Eina leiðin til að gera þeim skil er að skoða þau í Excel, en ef tekin eru nokkur dæmi þá vann hann sinn flokk og opna flokkinn á Hillerod 2010 og tvisvar að auki. Norðurlandamót, unnið tvisvar, einusinni 2. einusinni 3. Silfur á Budo Nord 2008. Opna sænska meistaramótið 3. sæti. Matsumae keppt ekki náð á pall. EYOF (European Youth Olympic Festival) keppt, ekki unnið, meiddur 2008.

Sævar náði að keppa á einu A-móti opna þýska Jr. og Sr. áður en hann meiddist á síðasta ári. Sævar er margfaldur Íslandsmeistari unglinga og vann síðast 2011 en keppti ekki í fyrra v. meiðsla. Hann hefur æft af miklum dugnaði og sótt fjölda æfingabúða erlendis m.a. í tengslum við Matsumae Cup, opna sænska meistaramótið, opna þýska meistaramótið, Budo Nord og Norðurlandameistaramótið í Noregi. Sævar keppir nú í ár, 2013, sitt síðasta ár í unglingaflokki og stefnir á að klára það skeið með glæsibrag. Fyrsta glíman hans hér verður á morgun, laugardaginn 29. júlí.

Daníela Rut Daníelsdóttir
19 ára, JR (Rvk.)

Daníela eini kvenmaðurinn í ferðinni en er samt eiginlega jafn mögnuð og fimm þannig að kynjahlutfallið í Bandaríkjaferðinni er jafnt!

Daníela Rut Daníelsdóttir

Daníela er fædd í júní 1994 og býr í Grafarvogi þar sem hún gengur í Borgarholtsskóla. Hún er dugnaðarforkur því til viðbótar við námið vinnur hún tvær vinnur og stundar júdó af krafti.

Hún hóf júdóferilinn árið 2008 hjá JR og hefur æft þar síðan. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna hérlendis en hennar besti árangur erlendis var á Hillerod 2009-10 þegar hún náði öðru sæti. Hún glímdi til silfurs á opna sænska meistaramótinu 2010 og keppti á norðurlandamótunum í Noregi 2011 og á Íslandi 2010 þar sem hún náði 2. sætinu. Meðal stórra sigra hérlendis hefur hún landað þremur Íslandsmeistaratitlum og unnið til silfurs á Reykjavik International Games (RIG) 2011.

Hinir keppendurnir eru: Ásþór Loki Rúnarsson (14 ára), Úlfur Böðvarsson (14 ára) og Grímur Ívarsson (15 ára). Þeir fá sitt pláss í einhverju næstu blogga en næst er komið að ferðafréttunum Keflavík - Dallas.

Óhætt er að segja að á ýmsu gekk!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband