Blogg # 26 Yfirlit 2 frá Atlanta
26.7.2013 | 16:58
Komið var að síðustu helginni og eins og tíðkast á Íslandi hefst hún á föstudegi og lýkur á mánudegi.
Föstudagurinn
Föstudagurinn var þéttpakkaður af úrvalsviðburðum sem vinkona okkar Barbara Dominey hafði skipulagt. Í réttri röð voru þeir a) heimsókn í The King Center sem er minningarsetur um Martin Luther King Jr. b) Jimmy Carter Library sem er safn um samnefndan forseta Bandaríkjanna sem kjörinn var 1976-80, c) matur og d) heim í Signal Court í spunaspil og svo í bólið.
Föstudagur - The King Center
M.L.King er án efa er einn allra merkilegasti ameríkani sem uppi hefur verið. Á stuttri ævi tókst honum að mynda mannréttindahreyfinguna í Bandaríkjunum með góðra manna hjálp og leiða hana til lykta þannig að ekki varð aftur snúið með að leiðrétta kynþáttamisréttið vestanhafs. Þeirri baráttu er reyndar ekki lokið í hugum fólks og menningu en lagalega er henni lokið.
Safnið er afskaplega vel sett upp, en stytta af Ghandi stendur fyrir utan og á henni er ágrip af boðskap hans, en Ghandi hafði mikil áhrif á M.L.King Jr. sem fór til Indlands að fræðast um baráttu hans á námsárum sínum. Í safninu sjálfu er maður leiddur í gegnum kynþáttaaðskilnaðinn sem King fæddist inn í og menninguna í Atlanta sem var vægast sagt eldfim.
King fæddist og bjó á götu sem kallaðist í daglegu tali Sweet Auburn, en þar höfðu negrar komið sér fyrir í eigin samfélagi í algerum aðskilnaði frá hinum hvítu og var hvorum um sig refsað ef farið var yfir mörkin. Þegar höfðu menn verið hengdir og brenndir sökum þess að velgengni hafði grafið um sig eins og krabbameinskýli í helsjúkum aðskilnaðarlíkamanum til að reyna að halda því í skefjum.
Námsárum hans voru svo gerð skil, en hann var alveg fáránlega kristinn. Við heimsóttum Babtistakirkjuna þar sem hann predikaði og þar þrumar í sífellu prédikun hans úr hátölurum og lýðurinn tekur undir eins og trúuðum er lagið með reglulegum Yeess! og Halelujah! og ef maður lokar augunum þá er ekki svo langt í M.L.King Jr. sjálfan.
Magnað að hafa í huga hve mikilvægt það var fyrir þennan hreinlífa og ofurkristna prestsson þegar hann fór til Indlands og lærði af löglærðum hindúa í lendaklæðum en Ghandi átti sem nemur einni geit, moldarkofa og hlýjaði sér á næturnar með kornungum stúlkum og frelsaði í frítíma sínum Indland undan oki bretanna, en hans er helst minnst fyrir það auðvitað, ekki allt hitt.
M.L.King hlýjaði sér bara með konunni sinni og það er eiginlega ekki við hæfi að vera með frekari hótfyndni hér í kringum alla kynþáttavitleysuna og trúarofstækið því maðurinn gnæfir höfuð og herðar yfir aðra Bandaríkjamenn. Samt var hann bara tæpur einn og hálfur metri á hæð.
Föstudagur Óvænt aukastopp á Thelmas Rib Shack
Áður en við fórum á Jimmy Carter safnið kom gengið við á rifjastað sem er þess virði að minnast á. Thelmas Rib Shack leit alls ekki vel út utanfrá, en þvílíkur rifjarekki sem við fengum þar! Þeir kunna þetta svertingjarnir á Sweet Auburn, enda margt og mikið búið að grilla á þessum slóðum. Húsið var gjörsamlega að falli komið utanfrá séð og það er gjörsamlega útilokað að það eigi sér vefsíðu einhversstaðar. Ein hæð, múrsteinshlaðið, rauðmálað, lúið þak, áratuga gamalt einkennismerki og slagorð á spjaldi tyllt ofan við sama slagorð málað utan á húsið, næstu hús rústir einar. Við rétt svo þorðum inn, Barbara krossaði fingurna því mælt hafði verið með þessu við hana en hún ekki prófað sjálf. Við fórum inn og svo búmm! Galdur. Við borðuðum of mikið.
Föstudagur - Jimmy Carter safnið
En þá til safnsins. Jimmy Carter, eða Kip Carter var bolað úr embætti 1980 á fremur andstyggilegan hátt er Repúblikanar komu í veg fyrir að eigin borgurum væri sleppt úr gíslingu í Íran fyrr en eftir að þeirra maður hafði náð kjöri. Halelúja. Pétur bróðir Rúnars (yðar einlægur) hafði planað að fara þennan rúnt fyrir 7 árum er hann flutti til Atlanta. Ég er viss um að hann vara bara að bíða eftir bróður sínum og ekki að trassa þessa heimsókn. Heldur ekki Barbara sem hefur búið þarna í 20 ár eða eitthvað svoleiðis :)
Carter er einn af merkilegri leiðtogum ríkisins fyrir friðar sakir, en eftir forsetatíð sína hefur hann unnið sleitulaust að friðarumleitunum. Hann er rammkristinn auðvitað eins og King þannig að fyrirgefningin er eins og rauður þráður í gegnum feril hans, allt frá því að hann tók á móti Shahinum af Íran sem hafði murkað lífið úr milljón Írönum í valdatíð sinni undir vernd Bandaríkjamanna. Það er svona opinberlega allavegana, eini virkilega ljóti bletturinn á forsetatíð hans, því maðurinn er eins og engill í alla aðra staði. Ok, kannski ekki baráttunni gegn tóbaksreykingum, en fyrir utan það þá var hann Gabríel.
Maður segir var eins og maðurinn sé látinn. Það er svolítið skrýtið að vera í svona safni um mann sem er enn í fullu fjöri að reyta af sér snilldina um heim allan í þágu friðar og réttlætis. Uppáhaldsforsetinn minn síðan Roosevelt var og hét, sósíalistinn sá arna.
Að þessu loknu fórum við með Barböru og hittum manninn hennar Jack og dóttur Meg, út að borða ís með ávöxtum. Það var hreinlega óbærilegur hiti í Lilburn Atlanta akkúrat þá og ég held að allir hafi fengið sér tvo risaskammta. Það var yndislegt.
Föstudagur - Ævintýri í Signal Court
Kvöldinu lauk heima hjá Pétri með ævintýri fram til miðnættis og þar fóru mál í nokkurn hnút. Þar komumst við að því að launsátur sem hafði tekist að afstýra áður hafði verið að undirlagi frænda fórnarlambsins og ætlun hans var að leggja undir sig konungdæmið. Okkur tókst að finna nokkrar vísbendingar en á meðan einni þeirra var fylgt eftir lentum við í ógöngum og urðum fjölda fólks að aldurtila fyrir vikið. En það voru handbendi óþokka sem áttu það skilið þannig að samviskan svaf vært þótt við hefðum viljað standa öðruvísi að þessu. Mist hefði örugglega gert þetta öðruvísi.
Enter Sandman...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.