Blogg #16 Grímur og Þórarinn á Jr. Open Judo Nationals

Búið að draga í flokkaGrímur og Þórarinn kepptu laugardaginn 6. júlí á fyrri degi mótsins. Við sváfum einhvernveginn næstum yfir okkur, skrúfað var niður í vekjaraklukkunum og sjálfkrafa, innbyggð bjalla í ykkar einlæga bloggritara hringdi og kom öllum nánast tímanlega út. Sem betur fer tafðis mótið vegna lagfæringa á riðlum þannig að þrátt fyrir seinaganginn náðum við opnunarathöfninni og vel það.

 

Gríms þáttur

Grímur var ekki nægilega vel upplagður í fyrstu glímunni og tapaði fyrir náunga sem var leiftursnöggur leggjabragðamaður. Ég var að þjálfa og kom þessu áleiðis til hann og Grímur fann það sjálfsagt sjálfur, en allt kom fyrir ekki. Leggjasópin hjá Grími voru einhvernveginn á autopilot og það endaði illa.

Hann espaði sig hinsvegar vel fyrir næstu glímu og hitaði sig alveg hreint rosalega vel upp með Úlfi sem var á hliðarlínunni í galla. Það gekk betur og Grímur skellti þeim náunga örugglega á varnarbragði og þar var fullnaðarsigur í höfn – Sá 

fyrsti hjá Grími í ferðinni. Við vorum mjög ánægð með þetta náttúrulega og hann hitaði vel upp fyrir næstu glímu.

Það skal tekið fram hér að miðað við jafnaldra sína er Grímur algjört heljarmenni. Það er ekki arða af spiki á þessum dreng og hann er hávaxinn og leggjalangur sem hentar afburðavel í júdóið. Sá sem hann mætti var lágvaxinn og ólögulegri allur einhvernveginn og átti ekki roð í Grím. Vissi ekkert hvað hann átti að gera og reyndi helst einhver brögð úr grísk-rómverskri glímu sem eru auðveld fyrir júdómann sem heldur bara sínum tökum. En gæfan var ekki með Grími í þeirri glímu. Eftir að hafa tryggt sóknarvíti á andstæðing sinn varð Grími það á að grípa í fæturnar á þeim bandaríska eftir að Grímur var kominn í gólfglímu en hinn ekki. Það má alls ekki því það er bókstaflega leiðinlegt fyrir áhorfendur og býr til passíft júdó. Það varð þó leiðinlegast fyrir Grím sem var umsvifalaust rændur öruggum sigri. Ég var vægast sagt svekktur því ég vissi alveg 100% að hann mundi annars taka þennan mann sem þó var búinn að vinna glímur á undan. Grímur var bara sterkari, enda heljarmenni.

Þórarins þáttur

Eins og áður sagði þá náði Þórarinn ekki vigt fyrir -34kg flokkinn og þurfti að keppa í -38kg. Hinsvegar kom í ljós um morgunninn að svo vildi til að þeim sem komu á mótið var afskaplega misskipt og aðeins einn keppandi sem var í þeim þyngdarflokki hafði treyst sér að mæta – Raphael frá New London Judo Club.

Rétt er að taka fram að algengt er í kvennaflokkum sérstaklega þar sem oft eru fáir keppendur í hverjum flokki, að hæðst sé að sigurvegurum í fámennum flokkum fyrir að hafa unnið svo fáa, en þeir sem vita aðeins um form þessara móta geta frætt amatörvitringana um að t.d. á Ólympíuleikum þarf hver keppandi ekki að eiga nema 5 glímur til að verða gullverðlaunahafi. Svo ekki sé talað um MMA og önnur heilahristingssport þar sem þeir bestu keppa ekki nema einusinni til tvisvar á ári. Þeir sem mæta á meistaramótin hér eru þeir sem geta og þora og það eru þeir sem skipta máli.

Því var það þannig að andstæðingur Þórarins sem var nokkuð þyngri en hann þurfti að vinna tvisvar af þremur glímum.

Þórarinn var mjög spenntur fyrir fyrstu glímuna en náði að róa sig aðeins niður og þreifa á glímustílnum. Kumi-kata Þórarins (baráttan um betri tök) var mun sterkara en Raphaels og hann keyrði á það og sótti á meðan hann var með tök en Raphael enn að reyna að brjótast í gegn. Það bar árangur og Þórarinn náði að kasta Raphael á flottu axlarkasti fyrir fullnaðarsigur.

Í næstu glímu var ég viss um að þjálfari Rafaels mundi leggja fyrir hann að bregðast við axlarkasti Þórarins þannig að nota þyngdina og rífa hann aftur á bak og reyna að leggja á mótbragði, því Þórarinn notaði standandi axlarkast í stað þess að fara alveg niður og undir anstæðinginn sem erfiðara er að eiga við fyrir þann sem kasta skal. Þórarinn átti þó erfitt með að fara alveg eftir því og litlu munaði að illa færi fljótlega. Þórarinn lenti á afturendanum og á olnbogunum en það er ekki skor skv. reglunum. Dómararnir voru hinsvegar ekki að nota vídeótæknina sem nú er allstaðar notuð og sáu allir vitlaust.

Þórarinn Bandaríkjameistari 2013

Ég var náttúrulega með vídeó af þessu en skv. gömlu reglunum má ekki nota vídeó frá þriðja aðila til að skera úr um deilumál. Það stig var hálfur fullnaðarsigur – Waza ari svokallað – og Þórarinn sótti á hann hart og náði að skora sama stig. Hinn fékk áminningu fyrir sóknarleysi en hann sótti alls ekki neitt og hefði hæglega getað verið búinn að tapa glímunni ef dómgæslan hefði verið betur með á nótunum. Rafael náði Þórarni svo aftur niður á sama trixi og nú fyrir lágmarksstig þannig að titillinn hékk nú á þriðju og síðustu glímunni.

 

Taugastríðið hjá drengjunum var mjög mikið en báðir tveir heilsuðust með virktum eftir hverja glímu og íþróttamennskan var aðdáunarverð. Mun betri en hjá þjálfurunum sem ragna í dómurum þegar við á og sleppa sér aðeins á hliðarlínunni.

Bandaríkjameistari

Síðasta viðureignin varð stutt. Þórarinn var nú alveg harðákveðinn að fara alveg gjörsamlega niður á hnén ef hann reyndi axlarkastið og skjóta tveimur algjörlega annarskonar árásum inn til að villa um fyrir og mögulega fá skor. Hann stjórnaði tökunum og sótti grimmt og náði Rafael niður á djúpu axlarkasti út á hlið, festi handlegginn á honum undir sér og náði að vinna sig á nokkurri stundu inn í fastatak og halda nægilega lengi til að fá fullaðarsigur.

Þar með er hópurinn kominn með GULLVERÐLAUN aftur og núna í Jr. US National Championship mótaröðinni sem við komum til að taka þátt í upprunalega (en eins og glöggir lesendur muna þá vann Daníela gull í stórmóti sem okkur var óvænt boðið í af Perúmönnum, en það var Central Northern American Championships í Dallas.

Úlfur, Ásþór, Sævar og Daníela keppa svo á morgun. Fylgist með.

Samantekt á WOW Júdó 2013 í Bandaríkjunum 1. júlí 2013

Brons: 6

Silfur: 4

Gull: 2 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að fá að fylgjast með þessum frækna flokki.

Samgleðst ykkur með árangurinn, ekki síst hjá honum nafna mínum Rúnarssyni með gullið eftir nokkra bið og mikið harðfylgi...

Hlakka til framhaldsins, sem ég veit að Rúnar mun skila vel frá sér, eins og hingað til...

 Með bestu kveðju og -   áfram Ísland...!

Þórarinn Lárusson (IP-tala skráð) 8.7.2013 kl. 02:24

2 Smámynd: WOW Júdó!

Takk :)

WOW Júdó!, 9.7.2013 kl. 06:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband