Blogg #34 Partý og heimferð

Við höfðum samið við Saucedo feðgana sem voru meðal þeirra sem við vinguðumst mest við að nota sturturnar þeirra, því við höfðum tæmt herbergin okkar um morgunninn. Hinsvegar bólaði ekki á þeim og við tylltum okkur ásamt landsliði Bahamas á barinn og fengum okkur sérdeilis holla og óþynnkuvaldandi drykki. Við röbbuðum lengi vel og þar sem við vorum herbergislaus og sturtulaus þá buðu eyjaskeggjarnir okkur að skola af okkur. Við þáðum það og mikið óskaplega var það gott.

Eftir mótin kastaði maður mæðinni og hugsaði að nú væri helstu viðburðum lokið og hversdagsvirðuleikinn tæki við.

Gerry Navarro, Ásþór og Úlfur

Svo var aldeilis ekki! Time to go crazy!

Gerry og Rugludallarnir

Gerry Navarro, skipuleggjandi mótsins, hefur ævinlega lokaviðburð Jr. International Open ár hvert alveg stórkostlegt partí með mat, opnum bar, drykkjum, kökum, skemmtiatriðum og allskyns gamni. Þetta ár var partíið í stórum sal niðri við snekkjuhöfn og þar voru kræsingarnar alveg ólýsanlega flottar.

Partýflötin við höfnina 

Opinn bar með áfengum og óáfengum drykkjum af öllu tagi bókstaflega var mannaður hressum gaurum sem gátu blandað hvað sem hugurinn girntist án þess að sjá handa sinna skil. Við sátum auðvitað á okkur þ.s. framundan var löng keyrsla en við borðuðum hressilega. Sumir voru ákafari en aðrir:

Þórarinn partígaur 

Stelpurnar frá Bahamas eyjum byrjuðu á að bjóða Þórarni Þey upp í dans og hann ætlaði nú ekki að láta sig sjást dansa við gullfallega stelpu frá suðurhafseyju undir tónlist Justin Bieber! En svo lærði hann smátt og smátt að hundsa tónlistina og brátt var hann í algerum berserksgangi og sömleiðis íslenska gengið eins og það lagði sig. Þau slettu ærlega úr klaufunum en byrjuðu auðvitað á "Evil Pose":

Evil Pose í partíi 

Þetta eru nú  meiri vitleysingarnir! 

Þetta eru nú meiri vitleysingarnir 

Flottur hópur, frábært partí.

Góður hópur 

Þarna voru allir þjálfararnir, aðstandendur, íþróttaungmennin og aðstoðarlið og nóttin var  löng. Undir lok var ýmislegt gert, meðal annars sendir upp kínverskir pappírsloftbelgir og það var skemmtilegur endir á alveg svakalegu partíkvöldi.

Ferðin til Atlanta

Stefnan var að keyra á vöktum til Atlanta og ég tók fyrsta sprettinn. Eftir tveggja tíma keyrslu hafði hinum bílstjórunum ekki tekist að sofna og ég var nokkuð brattur til að byrja með en skyndilega sagði allt stopp. Þessar fimm vikur höfðu tekið toll af manni og hinir bílstjórarnir voru alveg búnir á því sömuleiðis. Við stóðum í þeirri trú að vera komin á ódýrt svæði og tókum næstu beygju út af hraðbrautinni Florida Turnpike. Engar merkingar voru og hvergi sjáanleg hús þannig að við vonuðum að við værum nú komin út fyrir „dýru“ svæðin.

Eftir að hafa keyrt í gegnum alveg stórfurðulegt verslanahverfi vorum við orðin nokkuð viss um að hafa skjátlast og þegar við komum á mótelið varð það ljóst – Við vorum á Palm Beach! Ekki ódýrt heldur dýrt sem sagt og í meira lagi. Þrátt fyrir að vera hálf dauður úr þreytu megnaði ég að þræta aðeins við næturvörðinn sem lækkaði hótelverðið niður í $99 fyrir nóttina frekar en að missa okkur út úr húsinu á næsta hótel. Ég hefði reyndar ekki meðgnað að keyra lengra en HANN vissi það ekki!

Hótelið á Palm Beach 

Þetta verð telst gríðarlega vel sloppið á gæðamóteli á Palm Beach og herbergið var það flottasta sem við gistum í alla ferðina, lítil sundlaug var útivið sem ég dýfði mér í þegar ég vaknaði, morgunmatur innifalinn og þar frameftir götunum.

Sundlaug á Palm Beach hótelinu 

Allt eins og best var á kosið. Eða kossið, það var svo gott að leggjast á koddann, ég ætla ekki að fara nánar út í það. Lá við að ég tæki hann með mér heim.

Til Atlanta

Við vorum svo þreytt að við ætluðum aldrei að hafa okkur af stað. Hópurinn var afslappaður, góð stemning og við stoppuðum nokkrum sinnum eftir smáræði hér og þar. Svo fundum við okkur „out of the way“ B-B-Q stað þar sem við fengum síðustu ekta bandarísku máltíðina okkar og það tók tímana tvo (bókstaflega) að fá matinn og klára hann. Við ætluðum auðvitað að vera tímanlega heima hjá Pétri og gera hitt og þetta en það bara náðist ekki. Við vorum mætt klukkan um hálf þrjú um nóttina og einungis fimm tímar þar til við þurftum að vakna og keyra út á völl.

Er ekki annars kominn tími til að birta myndir af bíl númer tvö sem hlaut ekki eins afgerandi gælunafn og bíllinn þeirra Péturs og Þóru sem ferjuðu okkur fyrri hlutann? Hér er Hvíti Drekinn/Risaeðlan:

Hvíti Drekinn 

Pétur náði rétt svo að kveðja okkur og í stuttu máli gekk allt eins og sögu á leiðinni heim. Eins og venjulega náði undirritaður reyndar ekki að leggja sig en það var bara fínt, því ég hefði þá etv. misst af júdóhópnum brillera á leiðinni. Það var svo mikið spaug og sprell í gangi hjá þeim öllum saman, eins og stórum systkinahópi, t.d. á flugvellinum í Boston að maður komst við.

Ávinningurinn af þeim júdósigrum sem hópurinn vann til eða annað sem hann upplifði í ferðinni komst í raun ekki í hálfkvisti við að koma til Íslands ríkari að vinum og virðingu, og umhyggju og umburðarlyndi gagnvart náunganum en áður en lagt var af stað. Það er eilíft veganesti. Þau höfðu hugrekki til að takast á við svo langa samveru og koma sterk út úr henni sem samstæður hópur. Samhjálp, samábyrgð og stuðningur hópsins við hvert annað var aðdáunarverður og eftir því var tekið. 

En hver var samt júdóávinningurinn? Jú:

Gull: 8

Silfur: 8

Brons: 11 ...eða 12 - Við hreinlega misstum töluna :) 

Ég færi hiklaust með þau öll aftur í svona ferð. Snilldarfólk.

Heimkoma

Fagnaðarfundir urðu á flugvellinum auðvitað og maður fann að foreldrahópnum var þakklæti í hug, en það var okkur Maríu einnig. Það er mikill heiður að vera sýnt það traust að sjá um börn annarra, þótt stálpuð sú orðin, í svo langan tíma. Það var manni ofarlega í huga og verður ætíð. Ég veit ekki hvort maður sjálfur væri nægilega sterkur til að sjá á eftir eigin drengjum í svo langa ferð með nokkrum manni. Ég vil þakka þeim kærlega fyrir samvinnuna og að koma þessu áfram og ég treysti því að allir séu ríkari fyrir vikið.

Móttökunefndin 

Foreldrarnir komu okkur Maríu svo hressilega á óvart með því að gefa okkur lúxusgistingu og fæði að Glym í Hvalfirði ásamt heimboði fyrir Ásþór og Þórarinn á meðan svo við hjónin náum góðri slökun og hvíld og að vera smá útaf fyrir okkur. Falleg hugsun þar og við þökkum þeim kærlega fyrir óvæntan glaðning.

Takk fyrir lesturinn kæru lesendur, Ferðin var öll tekin upp og stefnan er að gera um hana heimildamynd eins fljótt og auðið er.

Að lokum - Takk WOW Air fyrir að vera bakhjarl hópsins!

WOW bakhjarl júdósins 

 

Með bestu kveðju, Rúnar Þór Þórarinsson

PS. Er það ekki bara USA 2015?

2015? 

 


Blogg #33 Golden Score Tournament Florida

Jr. Open Intarnational, Golden Score – Allir kepptu!

Golden Score mótið fór fram strax að loknu Jr. Open International og til að fá að taka þátt þurfti maður að hafa keppt á aðal viðburðinum. Það gekk afar hratt fyrir sig og var undirritaður bókstaflega á hlaupum til að reyna að ná sem flestum glímum. Við höfðum komið upp aðalbækistöðvum á besta stað ofarlega í pöllunum og það var flottasti staður sem við höfðum verið á á nokkru mótanna.

Úlfur Þór á Golden Score mótinu

Úlfur og Ásþór eru auðvitað jafngamlir en þeirra flokki (Golden Score þungavigt) hafði verið skipt í léttari og þyngri sökum mikillar þáttöku og þyngdardreifingar. Það hefði því getað endað með því að þeir glímdu hvor við annan því Úlfur var í þyngri og Ásþór í léttari flokki, en um 25 kílóum munaði á léttasta og þyngsta í þeim aldursflokki.

Úlfur, Ásþór og Þórarinn í viðtali hjá Rúnari 

Nú var komið að Úlfi að ná sér ekki á strik en fram að þessu hafði hans aðalandstæðingur eiginlega bara verið Geronimo Saucedo og svo Ásþór Loki á fyrsta mótinu. Hann vann eina glímu örugglega en tapaði svo gegn Geronimo og svo einum öðrum náunga og lenti því ekki verðlaunasæti í sínum flokki og komast þar með ekki áfram í „overall“ útsláttarglímurnar. Þetta varð eina mótið af þeim sex sem hann keppti á sem hann náði ekki á pall og það er mjög góður árangur!

Ásþór Loki á Golden Score mótinu

Ásþór átti líkt og Úlfur möguleika á því fyrstur allra að ná í verðlaun á öllum mótunum í ferðinni, en til þess þurfti hann að lenda í efstu tveimur sætunum í sínum flokki til að komast áfram í „ovarall“ útsláttinn og svo vinna a.m.k. eina glímu þar.

Ásþór lenti í þeirri óskemmtilegu stöðu að tapa fyrstu glímunni. Hann var yfir en augnablikskæruleysi í glímunni um tökin kostaði hann sigurinn þar. Hann sýndi aftur mikinn karakter og vann hinar og lenti þar með í öðru sæti í sínum flokki og hafði silfur upp úr krafsinu og komst þar með í „Overall“ útsláttinn. Þar var síðasti möguleikinn á gullverðlaunum en þar yrði við ramman reip að draga því andstæðingarnir voru miklum mun þyngri og mjög keppnirsreyndir.

Ásþór og sigurvegari hans flokks á Golden Score 

Langflestir útsláttarflokkarnir fóru einfaldlega þannig að þyngri keppendurnir unnu. Það helgast af því að allir á þessum mótum eru á einn eða annan hátt reyndir eða óvenjulega öflugir í sínum aldurshóp eða með eitthvað mjög sterkt í sínum glímustíl, þá ýmist vörn, árás eða gólfglímu. Ásþóri Loka tókst að hafa fyrsta andstæðing sinn úr þunga flokknum undir. Sá var með eitt áberandi kast og hafði raunverulega engin önnur brögð og Ásþór náði að loka svo á hann að áður en langt var um liðið fékk sá dæmt á sig víti fyrir falssókn og þótt fyrr hefði verið en hann kastaði sér í gólfið án þess að ógna um leið og hann snerti á anstæðingnum. Ásþór þurfti auðvitað að sækja sannfærandi á meðan og gerði það og hafði næstum haft erindi sem erfiði fyrir vítið. Undirritaður var staddur hinumegin á keppnissvæðinu þannig að það var Sævar sem hjálpaði Ásþóri Loka að sigra þessa glímu, enda með vörnina við þessu kasti á hreinu.

Þá var eftir síðasta glíman við Geronimo Saucedo. Eins og fyrri daginn var Ásþór yfir á sóknum, dómarinn ætlaði að dæma sóknarvíti (sóknarleysi) á Geronimo en aðstoðardómararnir komu í veg fyrir þann dóm. Það fór aftur þannig að Ásþór fór út í árás sem hann hafði ekki mikið æft, tók of langan tíma að koma sér út úr henni og Geronimo náði honum niður á glæsilegu mótbragði. Önnur silfurverðlaunin voru í höfn þennan daginn og sem fyrr, aðeins hársbreidd frá gulli í þeim báðum.

Ásþór og Geronimo á palli Golden Score 

Ásþór vantaði kannski þolinmæði frekar en eitthvað annað til að klára mótið þessa síðustu helgi með þrenn gullverðlaun í stað þriggja silfurverðlauna. Það vita allir hve sárt það er að taka við silfri, en líka hvað það læknast fljótt þegar maður lítur yfir mótið í heildina. Sæt sigurhelgi var að baki og Ásþór tryggði sér verðlaunasæti á öllum mótunum!

Þórarinn Þeyr á Golden Score mótinu

Eftir mjög erfiðan fyrri dag var Þórarinn staðráðinn í að gera sitt besta. Hann lenti í léttasta milliþyngdarriðlinum ásamt aðeins einum öðrum dreng, en þyngri milliþyngdarriðillinn var með þrjá keppendur.

Andstæðingurinn var japanskur innflytjandi, Suzuki, sem stundað hefur júdó í þrjú ár. Hann var eins og flest börn á þessu móti í 2003-flokknum, fæddur á fyrstu þremur mánuðum ársins og hafði því nokkurt líkamlegt forskot á Þórarinn sem heldur upp á afmælið 24. nóvember. Tæpt ár er mikið á þessum aldri. 

Þórarinn vissi að hann átti silfur öruggt og færi því ekki tómhentur. Þegar svo stendur á er mikilvægt að brýna fyrir krökkunum að þótt þau fái verðlaunapening, þá þýðir lægsti peningurinn ekkert annað en maður tapaði sínum glímum. Gullið er alltaf gull. Hann einbeitti sér því að því að ætla að vinna, hugleiddi vel með aðstoð pabba síns og hugsaði um sín köst. Þegar þeir voru svo kallaðir inn á var hann staðráðinn í að fá gullið í flokknum og komast áfram gott sæti í útsláttinn við þyngri krakkana.

Glíman fór rólega af stað hjá honum. Hann flýtti sér ekki og sótti í sig veðrið eftir því sem á leið. Golden Score þýddi auðvitað að hið minnsta skor þýddi vinning og því mikilvægt að láta ekki slá sig út af laginu. Eftir nokkra spennandi varnartilburði á báða bóga var Þórarinn kominn með yfirhöndina í sóknum að okkur fannst og var að loka vel á sóknir japanska stráksins. Þá sá ég að vörn hans var opnari í miðjunni og Þórarinn hafði einmitt æft ofboðslega mikið tæknilega flókið kast sem heitir Uchi Mata, sem er glæsilegt klofbragð þar sem maður kastar andstæðingnum yfir sig. Þórarinn hafði ætlað að láta á það reyna og skaust inn alveg ofboðslega flott og skoraði með glæsilegu kasti.

Seinni glíman var stutt, en Þórarinn lýsti því yfir að hann ætlaði „bara að kasta honum strax á Uchi Mata“ og gerði það. Gull í höfn og góð ástæða til að fagna!

Þórarinn fagnar með bróður sínum 

Glíman í sameinaða flokknum með þyngri keppendunum var mjög stutt, Þórarinn steig óvart í kross í upphafi glímunnar í baráttunni um tökin og það var ekki að sökum að spyrja, honum var samstundis refsað. En sökum þess að hann vann léttari flokkinn og sá sem hann keppti við þar tapaði sinni glímu, þá lenti Þórarinn í þriðja sæti af fjórum og hlaut bronsið. 

Afrakstur dagsins hjá Þórarni voru því gull og brons. 

Grímur á Golden Score

Dagurinn hófs vel hjá Grími en hann hafði unnið tvær glímur en tapað einni. Því miður missti ég af þeim því ég þurfti að ganga frá greiðslum og öðru á hótelinu og það tók svo langan tíma að mótið var byrjað. Sævar hafði séð um að vera í stólnum og leiðbeina og staðið sig með prýði.

Með nokkrum vinningum og einu tapi og einni glímu til góða var komin upp mjög kunnugleg staða, því Grímur hafði í ferðinni oft átt möguleika á verðlaunum en orðið af þeim í síðustu glímunni. Ég skoðaði hvernig staðan var fyrir þessa seinustu glímu og sökum þess hvernig stigin höfðu fallið þá var ljóst að ef hann mundi tapa þessari úrslitaglímu fengi hann ekkert en ef hann ynni hana fengi hann silfur.

Því var tekinn peppfundur í skyndi, ég las honum pistilinn og minnti á allt sem hann hafði lært og allt sem hann hafði bætt sig á hverju móti. Hvernig hann hafi tekið einn galla í einu út og bætt við sig hægt og bítandi. Nú væri síðasta glíman á síðasta mótinu runnin upp, hann áfram yngstur í sínum flokki 15-17 ára keppenda og einn úr íslenska hópnum með engin verðlaun. Nú riði á að sjá sjálfan sig fyrir sér með silfur um hálsinn þegar við kæmum heim í stað einskis.

Hann var orðinn alveg blóðgíraður þegar kom að glímunni og staðráðinn sem aldrei fyrr í að vinna. En þegar þeir gengu inn gólfið keppendurnir sáum við að þar var líklega elsti og klárlega fullorðinslegasti náunginn í þyngdarflokknum, svartbeltungur (Grímur er með blátt), þrekvaxinn skeggapi, hærri og vöðvamassaður náungi, tvöfalt gildari en Grímur sem er þó öflugur miðað við aldur.

Við görguðum á hann hvatningarorð og það var gaman að sjá að þessi fagurfræðilegu vöðvafjallsatriði höfðu bókstaflega engin áhrif á Grím. Hann ætlaði að ganga frá honum og það seinasta sem ég kallaði á hann var „Gerðu engin mistök og þá hefurðu hann. Hann er skíthræddur!“ Og það var engin lygi, maðurinn var hikandi, etv. vegna þess að Grímur tók svo hraustlega á honum strax, reif hann til og tuskaði svartbeltann til eins og æfingabrúðu. Eftir tvær sóknir, var ég orðinn nokkuð bjartsýnn, svartbeltinn átti engar sóknir og mér datt í hug að hann ætlaði að taka Grím á varnarbragði en það hafði oft gerst áður. Eitthvað gargaði maður til hans um það, veit ekki hvort það skilaði sér en í næstu árás Gríms tók andstæðingur hans á honum og ætlaði að rífa hann niður. Grímur sá við því, komst út, og tók krók á móti mótbragði og þar stöðvaðist glíman í augnablik og ekki mátti á milli sjá. Svo rumdi Grímur einhvern fjárann og reif manninn aftur á bak á alveg hreint glæsilegu ipponkasti. Silfur!  Ef satt skal segja var þetta einn af hápunktum ferðarinnar fyrir mig persónulega og örugglega fyrir Grím líka. Nú voru allir orðnir loðnir um lófana fyrir heimferðina og það var árangur sem við höfðum rétt látið okkur þora að dreyma um.

Því miður höfðum við ekki rænu á að taka mynd af þessu tilefni en eigum eina frá kvöldinu sem segir sitt:

Partý_Grímur 

Daníela Rut  á Golden Score mótinu

Því miður var tímasetningum glímanna hagað þannig að undirritaður missti af öllum Golden Score glímunum hennar Daníelu. Hún hafði auðvitað háð mikla hildi fyrr um daginn og var þreytt og meidd á ökkla. Engu að síður þá telst okkur fararstjórunum nú (svona löngu síðar) sem svo að hún hafi unnið eina glímu og tapað tveimur á þessu síðasta móti og náði ekki á pall.

En hverjum er ekki sama? Hún var svo búin að vinna svo kyrfilega inn fyrir laununum sínum í þessari ferð að hún átti skilið að lúlla sér aðeins á júdódínurnar og telja í þeim sprungurnar í síðustu glímunum. Finnst ykkur ekki? Mér finnst það.

Sævar á Golden Score mótinu

Sævar var algjör yfirburðamaður á Golden Score mótinu. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Dómurunum tókst samt að hafa af honum gullverðlaunin og þá ca. $200 sem sigrinum fylgdu með alveg ótrúlega slakri dómgæslu. Hann vann fyrstu glímurnar af öryggi og var í efstu fjórum, en þá tók þjóðræknin við sér hjá dómurunum eða einhver annar andstyggilegur karakterveikleiki. Fyrri fjórðungsúrslitaglíman endaði þannig að andstæðingur Sævar hafði dýft sér í gólfið og Sævar hæglega stöðvað þá kasttilraun. Um fimm sekúndur liðu í gólfinu og Sævar var ofaná að undirbúa viðsnúning. Þegar hann lét til skarar skríða kallaði dómarinn Ippon og gaf hinum sigurinn fyrir að hafa „klárað kastið“ sem Sævar var löngu búinn að drepa og allir búnir að gleyma. Ég var annarsstaðar að coacha og hefði sleppt mér og heimtað aðaldómarann á svæðið, en sá þetta ekki gerast. Enn var ég minntur á hve gott það hefði verið að hafa einn þjálfara í viðbót á staðnum sem er klár á þessum reglum. 

Í síðustu glímu Sævars var ég á svæðinu og sú glíma var alveg fáránleg frá upphafi til enda. Andstæðingur hann fékk leyfi til að brjóta reglurnar gróflega ítrekað með því að kasta sér niður í algerlega vonlaus köst og fara beint í varnarstöðu í gólfi. Það er bannað og verðskuldar beint víti sem hefði þýtt sigur. Sævar gerði bendingar en ég sá að dómararnir ætluðu sér að hundsa þetta þannig að ég áminnti hann að sækja ef dómararnir væru svo heimskir að refsa manni fyrir sóknarleysi sem gert var útilokað að sækja með því að glíma ekki standandi glímuna gegn honum. Það varð úr, SÆVAR fékk vítið og ég brjálaðist alveg og kallaði til aðaldómara en þeir voru tveir talsins á mótinu. Nema hvað... hvorugur þeirra fannst, mótmæli mín voru sussuð og ég varaður við að mér gæti verið vísað úr salnum fyrir óhófleg mótmæli og þar fram eftir götunum. Ekta amerísk hlýðnikröfugerð í gangi þar og þeir héldu svo áfram með mótið undir fúkyrðum.

Hálftíma síðar komu svo báðir aðaldómararnir í salinn og hvar voru þeir? Í MAT báðir í einu, hinumegin í húsinu án þess að segja neinum hvert. Hann baðst afsökunar á slakri dómgæslu, sagðist vita að það væru vandamál í gangi og sér þætti leitt að hafa ekki verið á staðnum. En ekkert væri hægt að gera að svo stöddu, mótið væri svo gott sem búið.

Sævar var rólegur yfir þessu samt, enda kominn með svo mörg verðlaun að hann gat varla borið þau til Íslands. Ég held ég hafi verið mun reiðari en hann yfir þessu!

Þessi mót voru líklega þau síðustu sem Sævar keppir í junior flokki og má segja að hann hafi lokið þeim með stæl – Tvenn gullverðlaun og önnur þeirra á International Junior Open , sem er erfiðasta Jr. mótið í Bandaríkjunum.

SævarMedGull 

Nú dregur nærri endalokum ferðarinnar og þessara blogga og aðeins ein færsla eftir um partíið, ferðina til Atlanta og þaðan til Íslands.


Blogg #32 US International Open og Golden Score

Jr. Judo International Open

Mótin þessa síðustu helgi voru þannig að fyrsta daginn kepptu allir nema elsti flokkurinn, 18-20 ára, um þennan síðasta Jr. Bandaríkjameistaratitil sem í boði var. Það var Laugardagurinn 28. júlí og það var dagur Þórarins, Ásþórs, Úlfs og Gríms.

Næsta dag fór svo fram um morgunninn keppnin í IJF flokki fyrir hádegi og þar mundu vinnast síðustu meistaratitlarnir með hinu hefðbundna sniði.

Strax eftir IJF flokkana hófst svo hið spennandi „Golden Score“ mót, en á því móti tapaðist glíma um leið og minnsta skori var náð eða ef víti var veitt. Þar var keppt í þremur stórum þyngdarflokkum í hverjum aldursflokki og þar sem dreifingin var mikil, eins og í flokki Þórarins, var bætt við flokki sem hægt var að vinna áður en farið var í stóra riðilinn þar sem leikurinn var ójafnari og hinir þyngri og stærri báru næstum ævinlega sigur úr býtum en Ásþór Loki náði þó að hrista upp í því í sínum flokki.

Dagur 1 – Laugardagur – Grímur, Úlfur, Þórarinn og Ásþór

Það var gríðarlega erfitt að sinna þjálfarastörfunum á þessu móti af þeim sökum að mótið var afar stórt, vellirnir stórir og svo gekk mótið svo hratt. Sem betur fer höfðum við haft gæfu til að skrá Sævar inn sem þjálfara en svarta beltið hans gerði okkur kleift að gera það þótt hann væri sjálfur að keppa, en María var á myndatökuvaktinni lengst af á þessu móti. Við erum jú að gera heimildamynd um ferðina og það kostaði mikla útsjónarsem og hlaup að taka vel myndir af þessu öllu.

Niðurröðunin var þannig að Þórarinn og Grímur voru öðru megin í húsinu og Ásþór og Úlfur hinu megin. Því skiptum við liði, ég var öðru megin og Sævar tók vinnuna hinu megin þegar glímur stönguðust á.

Grímur

Grímur hefur verið að styrkjast og læra af hverju mótinu á fætur öðru. Grímur mætti ákveðinn til leiks en hafði ekki erindi sem erfiði og tapaði sínum glímum því miður. Það var afar svekkjandi, bæði fyrir hann og okkur sem þjálfara og liðsheild, því hann átti svo sannarlega skilið betri úrslit. En Grímur er alveg makalaust fljótur að ná sér eftir áföll og fór fljótlega að espa sig upp fyrir daginn eftir.

SvalirAsiGimoaUlfur 

Í því hugarástandi er stundum hjálplegt að hafa allt og alla á móti sér. Líkt og fyrri daginn var hann yngstur en nú var skiptingin þannig að enginn annar 15 ára keppandi var í flokki 15-17 ára. Ungir menn vaxa og styrkjast gríðarlega á þessum árum og flestum finnst ekki svara kostnaði að senda 15 ára á þessi mót. Vonandi breytir alþjóða júdósambandið þessum reglum og heldur áfram með 2 ára aldursbil. Þetta er ósanngjarnt og menn geta bognað við þetta en svo virtist sem Grímur snéri þessu við og léti þetta herða sig. Hann SKYLDI rústa síðasta mótinu síðasta daginn.

Úlfur

Enn atti Úlfur kappi við Geronimo Saucedo en þeir voru nánast jafn þungir. Fyrir utan þá voru tveir aðrir í flokknum og vann Úlfur aðra glímuna en tapaði hinni fremur óvænt gegn ungum manni sem átti eftir að sjást meira af um helgina. Sá var aðeins með eitt kast í sínu vopnabúri, svokallað „drop-seoinage“ en það er axlarkast sem felst í því að vinda sér við, fara eldsnöggt niður á hnén og kasta andstæðingnum yfir herðarnar. Auðvelt er að gera það þannig að víti eigi að koma fyrir s.k. „Fals-árás“ en það víti er gefið þeim sem varpar sér niður án þess að vera að framkvæma raunverulegt kast, heldur með þeim tilgangi einum að komast í gólfglímu. Strákurinn arna slapp við þessar vítur gegn Úlfi og náði að skora á hann. Úlfur komst loksins inn í sitt uppáhaldsbragð, Uchi-Mata, en hitti ekki og kláraði kastið með því að gera eina af þeim hreyfingum sem algerlega eru bannaðar og steypti sér fram yfir sig á höfuðið. Það er bannað vegna hættu á hálsmeiðslum og var Úlfur dæmdur úr leik við það.

Ulfur_Brons 

Úlfur átti þá enn einu sinni við Geronimo og hafði nú óvænt tapað glímu við mann sem okkur hinum þótti lakari en Úlfur. Nú er Úlfur örlítið hærri og armlengri, en Geronimo þéttari á velli og með mun meiri alþjóðlega keppnisreynslu. Úlfur átti ágæta glímu gegn Geronimo en Mexíkaninn hafði enn einu sinni betur, kastaði Úlfi á glæsilegu ippon og ekki við neinn að rífast yfir því. Brons samt og gaman að því!

Þórarinn Þeyr

Þórarinn var ágætlega upplagður þennan mótsdag en náði ekki að komast á pall. Glímurnar hans voru þó góðar og sú fyrsta tapaðist naumlega. Það var raunar besta glíman hans frá upphafi júdóiðkunarinnar og við glöddumst yfir því. Hinsvegar fór önnur glíman illa, hann gætti sín ekki og steig í kross og það færði andstæðingur hans sér strax í nyt og kastaði honum á fyrstu augnablikum glímunnar. Þórarinn var auðvitað afskaplega leiður yfir því og grét mikið en eins og fyrri daginn var Grímur mættur á svæðið innan skamms og huggaði strákinn.

Thorarinn_Hressist

Grímur er alveg einstakur maður hvað þetta varðar, en alveg án áreynslu náði hann að draga fram jákvæða punkta við stöðuna og hressa litla kappann við. Saman járnuðu þeir sig svo fyrir Golden Score mótið daginn, en báðir höfðu tapað öllu þennan fyrsta dag.

Ásþór Loki

Þessi dagur var dagur andstæðna fyrir Ásþór. Hann hefur verið að þróa hugleiðsluaðferð sem hentar sér til að einbeita sér fyrir glímur og losna við taugatitring og fyrir fyrstu glímuna náði hann djúpri hugleiðslu. Fyrsta andstæðinginn vann hann mjög örugglega á Ippon eftir stutta glímu. Hann horfði svo á glímu þess sem hann þurfti að vinna til að komast í úrslitin og hafði af honum litlar áhyggjur en hann var með hreint út sagt lélegan glímustíl miðað við aðra sem hann hafði átt við.

Hann var því nokkuð sigurviss fyrir næstu glímu og sleppti því að hugleiða fyrir hana. Það kom á daginn að sá anstæðingur var ekki góður glímumaður en hafði greinilega stundað mikið Jujutsu og gerði lítið annað en falskar árásir og að halda sig fjarri Ásþóri. Hann hlaut líka náð fyrir augum dómaranna því þeir gáfu honum engin víti í heilar 2 mínútur. Því var Ásþór langt yfir í sóknum og yfir andstæðingnum vomaði sóknarleysisvíti en þá var Ásþór orðinn óþolinmóður og svekktur yfir því að vera ekki búinn að klára þennan fremur lélega andstæðing og ákvað að taka kast sem hann tekur vanalega aldrei en það mistókst og hann fleygði sjálfum sér á bakið. Við greindum þetta eftirá á vídeóupptökunni og andstæðingurinn gerði í raun ekkert nema að grípa um Ásþór á leiðinni niður, tók í rauninni ekki bragð sem gæfi stig, en Ásþór felldi sig svo kyrfilega sjálfur að enginn spáði í því.

Hann var mjög vonsvikinn því þetta þýddi að hann gæti ekki unnið gull, en hann sýndi mikinn karakter og herti upp hugann fyrir síðustu glímuna sem var um bronsið, kom sér í djúpa hugleiðslu fyrir hana og jarðaði andstæðing sinn með glæsilegu kasti eftir örfáar sekúndur.

Til að nudda salti í sárin þá fór Ásþór og horfði á úrslitaglímuna milli þess sem hafði unnið hann og annars júdómanns sem var með einhæfan glímustíl. Úr varð ein leiðinlegasta glíma sem sást á mótinu, báðir voru í vörn allan tíman, eintómar falssóknir allan tíman og vannst glíman á fjórum sóknarvítum og sá sem hafði unnið Ásþór hreppti silfur. Þetta var heilmikil lexía.

Asthor_Brons 

Fyrsta deginum var þar með lokið og þrátt fyrir góða viðleitni allra og ágæta möguleika fengust engin gullverðlaun þann daginn, en tvenn bronsverðlaun.

Dagur 2 Sunnudagur – Daníela og Sævar

Þessi dagur hófst á IJF flokkum Daníelu og Sævars. Svo ótrúlega vildi til að þau glímdu á nákvæmlega sama augnabliki næstum allar sínar glímur og Sævar bað mig að þjálfa Daníelu frekar og hann mundi reyna að lauma Úlfi í þjálfarastólinn. Úlfur var svo vel klæddur og mannalegur að við komumst upp með það en ég náði að vera viðstaddur eina af glímum Sævars.

Daníela

Daníela vigtaði inn nákvæmlega eins og planið hafði verið í -78kg flokki en það kostaði að vakna snemma og svitna morgunninn sem kráningin átti sér stað. Flokkurinn hennar var mjög sanngjarn og flottur fyrir vikið og alveg á hreinu að glímurnar yrðu spennandi og skemmtilegar.

Daníela glímdi við þrjá andstæðinga frá Suður-Afríku og Bandaríkjunum. Hún hóf leikinn gegn mjög hávaxinni konu frá S-Afríku sem Daníela náði ekki einusinni upp að öxlum. Það varð gríðarlega spennandi glíma, en þótt hún hafi verið hærri þýddi það ekki að það væri endilega slæmt fyrir Daníelu því hún kæmist betur í djúpu köstin sín. Verra var með armlengdina því það reyndist afar erfitt að komast nægilega innarlega á hana.

Glíman var í járnum allan tímann og þeirri S-Afrísku tókst því miður að halda Daníelu nægilega langt frá sér til að hún fengi dæmt á sig víti. Daníela sótti hart en hafði ekki erindi sem erfiði og tapaði á sóknarvítinu.

Næsta glíma virtist ætla að ganga betur en hún fór á sama veg, dróst á langinn og tapaðist á minnsta mögulega mun. Daníela mátti þó vel við una því þessir andstæðingar voru með þeim hörðustu sem hún hefur lent gegn, sérstaklega sú fyrsta sem manni virtist mundu eiga flokkin eftir þetta, en hún tapaði engu að síður úrslitaglímunni á því að vera rekin úr keppni fyrir leggjatak.

Daniela_brons 

Daníela varð því að láta sér nægja að glíma um bronsið og þar mætti hún enn einu sinni Michelle Myers sem hún hafði glímt gegn þrisvar sinnum í Dallas 4 vikum áður. Þá sást hve mikið Daníelu hafði farið fram í millitíðinni en Myers sem hafði unnið Daníelu í tveimur af þremur glímum þeirra í júní sá aldrei til sólar í þessum bardaga. Tvær glímurnar hennar fóru sem sé út á fullum tíma og töpuðust á minnsta mögulega mun og ein unnin þýddi bronsverðlaun. Daníela vildi áreiðanlega hafa annan lit á medalíunni eins og búast má við, en má vera mjög sátt við sinn hlut.

Sævar

Mjög var tekið eftir Sævari á þessu móti. Hann hafði ákveðið að vera í þungavigtinni og vó aðeins 109 kíló en andstæðingar hans voru ca. 115, 130 og 140 kg.

Glímurnar hans voru allar svipað langar og fóru allar á sama veg. Sævar, sem er nú orðinn mjög reyndur, stillti andstæðingum sínum upp, hitaði sig upp með nokkrum snöggum árásum áður en hann kom inn með kálið. Fyrstu glímuna vann hann á fullnaðarsigri – ippon – aðra glímuna á tveimur wazari sem telst ippon og þá síðustu sömuleiðis ef ég man rétt nú 12 dögum síðar. Því miður fyrir mig þá þurfti ég að horfa á þessa snilld yfir salinn allan frá vellinum sem Daníela glímdi á því eins og áður sagði þá fóru þær fram á sama tíma.

Eins og sjá má af myndinni voru keppinautar Sævars ríflega höfði og herðum hærri en hann, en Sævar stendur á mjög háum palli - Þeim sama og Daníela, Sævar og Úlfur standa á á myndunum hér að ofan. 

Sævar_Gull 

Fólk fór mjög fögrum orðum um glímustíl Sævars og kurteisi við andstæðingana, innan sem utan vallar, en þeir komu allir til hans sjálfir eftirá og spjölluðu við keppinaut sinn. Það eru góð meðmæli!

Fyrsta gullið þessa síðustu helgi var í höfn og við vorum afar ánægð yfir því. Nú var aðeins Golden Score mótið eftir...


Blogg #31 Krúsað á Drekanum og siglt á lúxussnekkjunni

Verslunarferð

Fimmtudagurinn 25. júlí rann upp og þá kom í ljós að allir áttu eftir að versla. Við hvíldumst auðvitað vel fyrst eftir æfingabúðirnar og tókum svo Drekann – 16 manna ofurbílinn sem við neyddumst til að leigja - í bæinn. Best Buy og Ross urðu fyrir valinu helst, auk þess sem við fylltum aðeins á matarbirgðirnar í Publix. Einnig varð Game Stop fyrir víkingunum.

Halelújabúggabúgga 

Maður er að spá í hvaða rugli annaðhvort Íslendingar eru með innkaup og vöru og verslun eða hverskonar rugli Bandríkjamenn séu í. Varan út úr búð er mun lægri en heildsöluverðið hér heima eða það ímyndar maður sér. Hljóta verslanir þar ekki að fara á hausinn því verðið er svo hlægilegt? Nei, sömu verslanir eru þarna úti og voru þar fyrir 3 árum á meðan 50% gömlu verslananna á Íslandi eru farnir á hausinn og nýju verslanirnar og þær sem tórðu selja vöru sem er 200-400% dýrari en hér á Flórída og það á dýru svæði. Tökum sem dæmi að Daníela keypti 7 merkjavöruskópör handa sér og mömmu sinni á Flórída á 30.000 ISK samtals. Eftir hrun. Á okursólarströnd í Flórída. Ertu að grínast? Efnahagslögmálin eru greinilega í höndum Heisenbergs sem hvorki vissi hvað hann var að gera né hversvegna. Við gerðum það eina í stöðunni og puðruðum pening í afríska liðskjóla og höfðum bara gaman að öllu saman.

Hopla! 

Annars keyptum við fjölskyldan 4 gallabuxur, 6 skópör, 2 kjóla, 10 nærfatasett, 30 úrvalssokka, 5 myndaskyrtur, 2 hatta, 1 mittislinda og fjóra þjóðlega afríska kjóla fyrir 50.000 ISK slétt. Ekki gramm af rugli í gangi þar.

Skráningin á mótið

Afríska kjólasettið varð raunar einkennisklæðnaður íslenska hópsins og við mættum í því á mótið og á ströndina um kvöldið, fórum út að borða í því o.fl. og það var tekið eftir því.  Fyrsta heimsóknin á mótsstaðinn var farin í múnderingunni svona til þess að senda út "vibes". Það gekk ágætlega. Ásþór komst að því að hann varð að spámanni og allir fengu hlutverk í samræmi við klæðnaðinn.

Einkennisklæðnaður íslensku alíbabanna 

Í lokahófinu fjórum dögum síðar held ég að í það minnsta sjö manns hafi nefnt það sem merki þess að við kunnum að skemmta okkur, séum samheldin og ófeimin. Það var ljómandi. Verst að það er varla hægt að nota þetta hér á landi fyrir kulda en sjáum til. Kannski að gróðurhúsaáhrifin reddi fatalínunni hjá okkur?

Hópurinn í múnderingunni við mótsstaðinn 

Við eyddum föstudeginum 26. júlí í mótsskráninguna, fengum okkur að borða og versluðum eitthvað áður en við fórum aftur á ströndina. Bróðupartur dagsins fór reyndar í að hanga á mótsstaðnum og bíða eftir að fá bakmerkin saumuð á gallana okkar, en nokkrir aðilar höfðu tekið að sér að bíða fyrir framan okkar í röðinni með um 40 galla fyrir einhverja aðra.

Beðið eftir bútasaum 

Okkur leiddist ekki og Íslendingarnir reyndist eitt tveggja liða bíða þarna í einkennisfatnaði, Bahamasbúar voru í flottum íþróttagöllum merktum heimalandi sínu, við í afrísku kjólunum merktum ýmsum gúrúlegum táknum og guðamyndum. Sumir voru meira pimp en aðrir og vantaði bara olíulindina undir Sævar til að gera hann að arabískum milljarðamæringi.

Furstinn og spámaðurinn 

Þjálfarafundurinn

Um kvöldið var svo komið að því að mæta á flokkadráttinn og riðlaskiptinguna en venjan er að allir þjálfarar fari á slíka samkomu á mótshótelinu og gæti þess að allir lendi í réttum flokki og bera álitamál upp til lausnar áður en dregið er í riðla.

Fundarstaðurinn 

Nú bar svo við að hótelið var með svo litla sali að engir hentuðu. Því var boðað til fundarins á snekkju við Bahia höfnina skammt frá og hafði The Floridian Queen verið leigð til þess arna. Og þvílíkur lúxusfundur. Þeir kunna þetta ameríkanarnir þegar þeir vilja það. Þrjú dekk, tvö hlaðin veitingum, villibráðarkrydduð nautalund og meðlæti á 2. hæð, rækja, skelfiskur og annað sjávaralið ljúfmeti og með því á 3. hæð og TVEIR opnir barir með öllum vímuvöldum sem er löglegt að neyta í Bandaríkjunum plús svo auðvitað óáfengir drykkir sem voru okkar val.

WOW skyrtunum flaggað á fundinum 

Það er af sem áður var að Íslendingar urðu landi sínu alltaf til skammar í öllum svona teitum með drykkjulátum. Eina fólkið sem verður landi sínu til skammar nútildags eru í fjármálageiranum og stöku farþegar á alþjóðlegm flugleiðum.

Kvöldsigling eftir flokkaskiptinguna 

Skiptingin í riðlana var mjög flott nema hvað enn sem áður þurfti ég að aðskilja Úlf og Ásþór sem voru í þessum fáránlega +64kg flokki 13-14 ára, líkt og á þeim mótum sem haldin höfðu verið. Ég var tilbúinn með öll rökin og fór í þetta og komst að því að svo vel vildi til að sá sem var að raða í flokkana var einmitt fyrrverandi forseti júdósambandsins sem hafði komið þeim reglum inn að breyta mætti þyngdarflokkunum ef þyngdardreifingin var ójöfn. Reyndar þurfti hann að berjast fyrir því á sínum tíma með kjafti og klóm sem þýddi að ég þurfti hvorugt.

María og Sævar með Eduardo Saucedo á snekkjunni 

Málið var því auðsótt og Ási og Úlfur voru í sínum flokknum hvor OG ég fékk einn flokk settan inn þar fyrir ofan því Úlfur var 16 kílóum léttari en sá þyngsti í flokknum. Báðir strákarnir voru því næstþyngstir í sínum riðli og aldursflokki og var það vel. Það var raunar Sævar sem kom auga á það að ef Evrópskri þyngdarskiptingu yrði fylgt mundi þetta lenda svona, en ég hafði orðið Sævari úti um þjálfarapassa sem betur fer. Þau rök féllu í góðan jarðveg enda held ég að alla þjálfara og flesta mótshaldara sem ég hafi hitt í Bandaríkjunum langi til að fylgja henni.

Eldingar og útsýnið af snekkjunni 

 

Siglt var um sundin í Fort Lauderdale fram undir miðnætti, margir drukku ótæpilega en við héldum okkur á mottunni enda stórir dagar framundan hjá okkar fólki. Þarna voru saman komnir allir þjálfararnir, mótshaldararnir og þeir sem við komu æfingabúðunum að auki og við hefðum svo auðveldlega getað verið á siglingu þarna framundir morgun og engum leiðst.

Miðdekkið á Floridian Queen 

Fjölmargir mundu eftir Bjarna Friðrikssyni frá L.A. 1984, m.a. einn æðstu stjórnenda USA Judo hafði verið þar. Glíma hans og Leo White var þeim í fersku minni enda voru miklar vonir bundnar við Leo eftir að hann lagði Van der Valle, ríkjandi heims- og ólympíumeistara í glímunni á undan.

Becerra hjónin og íslensku þjálfararnir 

Þetta var allavega glimrandi kvöld og ég veit ekki hvaða mótshaldarar Junior júdómóta geta toppað þetta! Við fórum svo heim og lögðum okkur fyrir mótsdagana tvo sem framundan voru.


Blogg #30 Æfingabúðir í Flórída

Þröngt mega sáttir glíma

Mikil spenna var fyrir æfingabúðirnar. Þórarinn var fyrstur á dagskrá með yngri krökkunum á milli 09-11 á mánudagsmorgunninn og aftur frá 14-16. Hin eldri áttu tímann frá 11-13 og 16-18.

Þjálfararnir í æfingabúðunum fyrir utan Sasaki 

Gríðarlega færir þjálfarar höfðu verið ráðnir til starfa, margfaldir ólympíumedalíuhafar þ.á.m. kona með 7. dan frá Kúbu en hún hefur þrívegis komist á pall á ólympíuleikum og svo landsliðsmaður frá japanska landsliðinu sem sá um mikinn hluta æfinganna, en hann heitir Sasaki, og er í 60kg. Þau, og aðrir þjálfarar stóðu sig einstaklega vel og var mikil opinberun að fylgjast með þeim, sérstaklega Sasaki sem hafði þvílíka stjórn á líkamanum og hreyfingum öllum að það brutust út fagnaðarlæti eftir flest sem hann sýndi en þeir sem stunda júdó vita að það er ekki algengt á venjulegum æfingum. 

Sasaki -60kg úr landsliði Japans kennir 

Okkur kom strax á óvart í hversu litlum húsakynnum júdóæfingabúðirnar áttu að fara fram í. Allt of lítið „Ballroom“ hafði verið tekið á leigu og var teppi á gólfinu sem olli því að ómögulegt var að festa dýnurnar niður og þær runnu til. Þar að auki var herbergið ekki alveg ferkantað þannig að ómögulegt var að stífa dýnurnar milli veggja.

 Síðasta árið í þessum þrengslum

 

Ég hafði töluverðar áhyggjur af þessu og mótshaldararnir líka og ákveðið var strax á fyrsta degi að þessar æfingabúðir yrðu haldnar á mótsstaðnum á næsta ári en of seint var að breyta nokkru þarna er allt var komið í gang. Sem betur fer meiddist enginn sökum þessara þrengsla enda brugðu þjálfararnir fyrir sig betri fætinum og aðlöguðu æfingarnar að hinum mikla fjölda og litla svæði.

Lágvaxinn þjálfari passar við þröngan æfingasal 

Yngri hópurinn í æfingabúðum

Þórarinn Þeyr þurfti að leita dálítið í hópnum til að finna krakka sem hentaði að æfa með. Hann hefur sig ekki mikið í frammi og er dálítið feiminn þannig að fyrsta æfingin fór í að taka þá sem höfðu enga andstæðinga en það voru jafnan þeir sem nenntu ekki að æfa eða/og mun þyngri börn sem hann hafði ekkert með að æfa á móti.

Í yngri hópnum voru krakkar af ýmsum stærðum 

Við stöppuðum í hann stálinu og áður en langt um leið var hann farinn að ganga í þá sem vildu og ætluðu að verða betri. Kom svo reyndar upp úr dúrnum að það voru strákar sem enduðu svo á að vinna sinn flokk ýmist á meistaramótinu helgina á eftir eða Golden Score mótinu. Hann fékk mikla þjálfun þarna og ekki veitti af, því ekki er um auðugan garð að gresja fyrir júdókrakka yfir sumartímann hér heima á Íslandi nema þá helst á Akureyri þar sem Þórarinn og Ásþór kíktu í heimsókn áður en þetta ævintýri hófst.

Þessir fengu samtals fjórar medalíur tveim dögum síðar 

Hann mætti alltaf alla vikuna, og var farinn að fara á undan okkur til að mæta ekki of seint. Svona er að vera orðinn hvorki meira né minna en 9 ára! Ekki skemmdi fyrir að hann hafði fundið sér akkúrat passlega félaga og gekk milli þeirra í æfingunum og æfði helst ekki með neinum öðrum í seinni hluta æfingabúðanna. Það skilaði sér helgina eftir!

Eldri hópurinn í æfingabúðunum

Mætingin var upp og ofan í upphitunina hjá eldri hópnum, en eins og sjá má var AFAR þröngt á þingi. Þjálfararnir voru samt mjög góðir í að velja réttar upphitunaræfingar og fóru eftir plássinu sem var til staðar. Það voru þó allir með á flestum æfingunum nema hvað Daníela hvíldi á þriðjudaginn til að ná sér betur í ökklanum og síðasta daginn sneiddi hún hjá þeim æfingum sem reyndu á hann. Fyrir mestu auðvitað að vera í formi á mótinu!

Þröng á þingi 

Ásþór Loki hitti fyrir gamlan félaga frá því fyrir þremur árum, Nicholas Joseph. Sá er árinu eldri en Ásþór og þeir því ekki að keppa saman í flokki að þessu sinni. Þeim varð vel til vina áður og það entist enn. Yðar einlægur og faðir Nicks endurnýjuðu kynnin og hvöttum strákana til að æfa saman enda báðir í fremstu röð í sínum aldursflokki.

Ásþór Loki og Nicolas Joseph duglegir saman 

Úlfur og Grímur gerðu sér far um að æfa á móti nýju fólki og í eina skiptið sem þeir tóku á hvor öðrum kom undirritaður aðvífandi og rak þá í sundur. Þetta er húkkaraball júdómanna, svokallað júkkaraball, en sá vinnur sem svitnar mest og stendur lengst. Þeir náðu samt að kasta hvor öðrum aðeins fyrst eins og sést hér.

IMG_1649 

Sævar var nokkuð þyngri en næsti maður fyrir neðan hann en æfði eins og maður. Hann var kominn með fjölda aðdáenda ef svo má að orði komast, en fólk var afar hrifið af glímustílnum hans og uppáhaldsbrögðum hans og kom oft að orði við mig til að spyrja út í þennan geðþekka unga mann.

 Róbert fæst við Suður-Afrískan þjálfara

Daníela púlaði eins og ökklinn leyfði. Hún hafði snúið ökklann einni eða tveimur vikum áður en ferðin hófst og komist hjá meiriháttar skaða en þetta var að plaga hana. Engu að síður tók hún á og kom vel út úr æfingabúðunum. Sjón er eiginlega sögu ríkari og því miður er vandkvæðum háð að gera svona efni skil í kyrrmyndum og texta en vona að þið fáið smá nasa(svita)þef af þessu.

Sasaki er frábær þjálfari 

 

Af sögumanni er það að segja að hann (ég) keyrði alla 12 tímana í stóra, nýja bílnum sem hlaut nafnið „Drekinn“ í höfuðið á nýjasta lagi þeirra Ásþórs og Þórarins en þeir eru í rokksveitinni Meistarar Dauðans. Það var fórnarkostnaður því þá fékk María Huld og krakkarnir tíma til að hvíla sig almennilega og vera fersk í æfingabúðirnar þá strax um morgunninn. María sá um að enginn yrði of seinn, allir fengju að borða og þar fram eftir götunum og það gekk allt eftir.

Pizzastaðurinn Dough Boys - Æðislegur 

Allir ferskir... nema ég!

Yðar einlægur reyndi að mæta í æfingabúðirnar en líkaminn sagði stopp um hádegisbilið, enda þá búinn að vera í gangi frá því um átta um morgunninn þar áður og þar á undan var stuttur svefn á eftir júdóæfingu, skemmtiferð, verslunarferð, grilli og farangurspökkun. En ég á ekki að vera að væla, þetta var ljúft sjálfskaparvíti því við vorum – Enn einusinni andstætt öllum líkindum og stjörnumerkjum – mætt á réttum tíma, á réttum stað, tilbúin í slaginn. Nema ég sem svaf fram á miðjan dag, svo aftur fram á miðjan næsta dag með stuttum vökuhléum og var þá kominn í form.

Ásþór fylgist með meistaranum gera Uchi Mata 

Einhvernveginn var maður nægilega gáfaður að leggja sig EKKI á ströndinni í „andartak“ því ég hefði sennilega drepist úr sólbruna. Segið svo að maður sé ekki gáfaður! Ég gladdist yfir því að þeir sem höfðu áhuga á ströndinni (sem voru allir hinir) fengu góðan tíma þar og sjórinn var yndislegur.

Daníela að fíla sig á ströndinni 

Rétt er að rifja það upp að „innanbæjar“ í snúningum tók ég einn að mér að keyra Drekann, enda var hann þvílíkt fjárans flykki að ekki var hægur leikur að koma honum fyrir allsstaðar.

Hótelið rakar saman peningum

Ekki var allt eins og best var á kosið á  hótelinu. Þeir rukkuðu $10 á sólarhring pr. herbergi fyrir internet, $20 (sem ég prúttaði niður í $10) fyrir bílastæði og okruðu viðbjóðslega á morgunverðinum, enda borðuðum við aðeins einu sinni þar. Svo mætti áfram telja, en úr varð að við ákváðum að nota almenningsnetið á veitingahúsunum inni í bænum. Ég strengdi þess hinsvegar heit að gista ALDREI aftur á hóteli í Bandaríkjunum í svona ferð þar sem morgunverður og internet og bílastæði eru ekki innifalin eða mjög ódýr. Þetta var algjört rán. Fyrir utan að flesta morgnana nærðist hópurinn á MacDonalds því bílaleigubíllinn hafði sett budgetið okkar í stórhættu.

 Eldri krakkarnir og Sasaki kveðjast

En þetta bjargaðist allt saman! Meira um það næst.


Blogg #29 Live Stream frá Flórída!

Afsakið tímaflakkið en við eigum eftir að blogga um æfingabúðir síðustu fjögurra daga hér í Flórída en það þarf að bíða. Komið er að lokamótinu - Jr. Open International hefst á morgun, laugardaginn 27. júlí.

Þá keppa þeir Grímur Ívarsson, Úlfur Þór Böðvarsson og bræðurnir Ásþór Loki Rúnarsson og Þórarinn Þeyr Rúnarsson. Daníela og Sævar keppa svo á sunnudag en eftir það keppa ALLIR krakkarnir í svokölluðu Golden Score móti

Bein útsending verður ALLAN DAGINN frá keppnissvæði 1 og svæði 2. ALLAR úrslitaglímurnar verða svo í beinni útsendingu, en þeim verður grúppað saman í eina sýningu. Þetta er mikil sýning, komið hefur verið upp glæsilegu keppnissvæði og úrslitaglímunum verður gert mjög hátt undir höfði en allar aðrar glímur eru stöðvaðar á meðan.

Keppnin hefst klukkan 09.00 hér í Flórída en það ætti að vera um kl. 13.00 heima á Íslandi. Opening Ceremonies eru kl. 19.00 að íslenskum tíma (15.00 í Flórída) og strax að þeim loknum verða allar úrslitaglímurnar.

Sami hátturinn verður hafður á daginn eftir fyrir IJF, meira um það á morgun.

Kveð með mynd af ströndinni í gær. 

Góð saman á ströndinni 

PS. Golden Score mótið er peningaverðlaunamót með sérstökum reglum, en þar tapar sá um leið sem fær annaðhvort víti á sig eða skor gegn sér, sama hversu lítið það er. Það verður áhugavert. 

PSS. Þjálfarafundurinn var um borð í snekkju, farið var í siglingu og veittar lúxusveitingar og drykkir í boði hússins. Kliiikkað. 


Blogg #28 Lokapartí og ferðin til Flórída

Baddi fyrrverandi samstarfsfélagi undirritaðs hjá CCP og Sara kona hans buðu í alveg stórkostlega magnað teiti eftir síðustu júdóæfinguna í Atlanta á laugardagseftirmiðdegi. Þau voru höfðingleg í meira lagi, vægast sagt, og buðu þangað öllu júdóliðinu og buðu okkur Maríu að bjóða þangað því fólki sem okkur stóð næst er við bjuggum í Atlanta.

Baddi sposkur á svip! 

Það var góðmennur listi sem samanstóð af Bill og John Bridges, snilldarbræðrum í leikjabransanum, nokkrum CCPerum af hálfgerðu handahófi og júdófólki sem við höfðum verið með í vikunni sem leið. 

Gengið að fíla grillið og sólina

Við röðuðum í okkur hamborgurum, pylsum og drykkjum af allskyns tagi - Hollir auðvitað og góðir – Fljótandi gerbrauð var þarna handa þeim sem ekki voru í íþróttum og undir lokin eftir að fólk hafði deilt um hernaðarstefnu Bandaríkjamanna og þá kumpána Bradley Manning og Snowden sem annarsvegar voru kallaðir landráðamenn og hinsvegar hetjur, þá sættust allir á að Bandaríkjamenn höfðu glatað einhverju er þeir urðu uppvísir að pyntingum og skildum hitt eftir til umhugsunar.

Leo að sannfæra Daníelu um eitthvað mikilvægt

Er myrkvaði rann helmingur moskítóflugna Georgíufylkis á gúrmélyktina af vítamínhlöðnum víkingum og sugu úr okkur hvern einasta blóðdropa. Manni væri s.s. sama ef það hefði allt farið um sömu stunguna en þær voru eins og saumakona á koníaksfylleríi og leggirnir á undirrituðum voru eins og gatasigti og kláðinn eftir því. Þessi skaðræðisskepna er þvílíkur óþarfi að hún er langbesta sönnun þess að guð er ekki til og þá sér í lagi ekki í suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem einna heitast er trúað á hann. Mögulega býr hann á norðurpólnum við hliðina á jólasveininum og Rúdolf þar sem ekki er ein einasta moskítófluga í þúsundkílómetra radíus.

Jackie og Leo yngri í góðu stuði

Kvöldinu var slúttað með því að sótt var forláta hálfsjálfvirk vélbyssa í safn Badda, en þau hjónin eru byssusafnarar. Baddi hafði smíðan hana úr hlutum keyptum af Ebay og hún er í fullkomnu lagi þrátt fyrir að vera merkt „Hello Kitty“ og að á miðinu megi lesa stutt og fyndið þriggja stafa orð. Daníela var frekar hrifin af þessu tæki og eins og sjá má þá er eitthvað rétt og heilagt konu, skurðgröfu og vélbyssu.

Daníela miðar á næstu moskítóflugu

Argh!

Hello Kitty!

María Huld hefur held ég aldrei skotið af riffli en tók sig samt vel út með þetta vopn!

Bara að læðast aðeins lengra...

Sunnudagur – Keyrt til Flórída

Morgunninn eftir þurftum við að sækja nýtt tryllitæki sem mundi færa okkur til Flórída. Fyrir valinu varð 15 sæta Chevrolet minibus en tólfsætatryllitækin voru uppseld. Við höfðum einhverra hluta vegna haldið að aksturinn tæki 9 tíma án hléa en það reyndist vera 12 tíma ferð plús stopp og runnu á okkur tvær eða þrjár grímur er við sáum það í gervihnattaleiðbeiningargræjunni frá TomTom.

Skemmst er frá því að segja að þar sem muuuuun rúmbetra var um hópinn í þessum rándýra bíl, þá þurftum við ekki nema þrjú stopp alla leiðina niður eftir og í stað þess að þurfa að skipta um bílstjóra eins og áður þá var ykkar einlægur í stuði í besta sætinu í bílnum og sat 14 tíma vaktina með prýði og keyrði alla leið.

Aaah, Flórída

Við komum okkur beint á hótelið er við mættum klukkan hálf fimm um morgunninn, gæddum okkur á yndislegum MacDonalds morgunverði í formi hamborgara, frelsiskartaflna og kókakóla. Sólin reis á kolvetnaþrútið júdófólkið í þann mund er lagst var til hvílu. Sem betur fer höfðu allir nema bílstjórinn (sem betur fer) sofnað vel og kyrfilega mikinn hluta leiðarinnar þannig að allir vöknuðu tímanlega í júdónámskeiðið sem hófst klukkan 9 um morguninn.

Flóóórídaaaa 

Niðurtalningin fyrir síðasta og langerfiðasta mótið var hafin. Nú tækju við þrír erfiðir æfingabúðadagar, einn dagur í hvíld, einn í vigtun og „kött“ ef á þyrfti að halda og svo keppt á tveimur mótum á tveimur dögum.

Fyrst verður Jr. Judo International Open - tuttugu þjóða stórmót júdófólks 20 ára og yngri. Það er júdólega séð hápunktur ferðarinnar og þótt nægu sé yfir að gleðjast enn sem komið er, munum við fagna ærlega náist árangur þar, en svo gott sem allar þjóðir Suður-Ameríku senda keppendur þangað sem og þjóðir frá Evrópu og Asíu.

Nokkrir úr júdóliðinu með hluta þjálfaranna 

Að því loknu er komið að „Golden Score“ peningaverðlaunamóti og þáttakendur þar eru hinir sömu. Þar er skipt í riðla og keppt er í Round Robin kerfi (allir keppa við alla í sínum riðli). Glímunum tapar fólk við fyrsta víti eða minnsta skor gegn sér (í stað „ippon“ eða fullnaðarsigurs) og engin tímamörk eru! Einungis tveir komast áfram úr hverjum riðli og eftir það tekur við útsláttur uns einn sigurvegari stendur uppi með megnið af verðlaunafénu.

Meðal sigurvegara síðasta árs á báðum mótum var Geronimo Saucedo sem Ásþór og Úlfur töpuðu báðir fyrir í Dallas á dögunum og mun naumlegar í fyrra skiptið en hið síðara, en þeir voru báðir yfir þegar glíman var hálfnuð og þeir misstigu sig. Nú er að sjá hvort þeir ná fram hefndum og hvort einhverjir erlendir skúrkar koma til sögunnar og ná að læsa náköldum krumlunum í verðlaunin sem hinir hugumdjörfu íslensku víkingar eru með augastað á!

Spiliði nú þjóðsönginn í iTunes og fellið tár, tvö frekar en eitt, takk! Við sólbrennum á meðan. 

Ein sólarmynd enn 


Blogg #27 Vatnaveröld og seinasta æfingin í Waka Mu Sha

Í þessu síðasta bloggi frá Atlantastórvikunni ætla ég að blanda saman tveimur dögum miðvikudegi og  laugardegi. Hversvegna? Vegna þess að það voru kúl dagar.

Miðvikudagur

Deginum var eytt í magnaða ferð í Georgia Aquarium. Þar gefur að líta magnaðar verur úr sjávardjúpum, kóralparadísum, hitabeltisársvæðum og öðrum þeim sprænum og skítapollum sem príða veröld okkar. Í þessu safni eru herlegheitunum uppstillt þannig að úr verður stórkostleg sýning fyrir augu og eyru og þar er alveg lágmark að verja 3 klukkustundum.

Myndir segja meira en þúsund orð. Látum þær tala svona til tilbreytingar.

Í kóraldjúpi

Kóralrif baðað í sólarljósi. 

Fjölskyldan í kóralrifi

Fjölskyldan í kóralrifi

Krókódíll og þrjú saklaus börn 

Krókódíll og þrjú saklaus börn. 

Furðuheimar

Furðuskepnur í undirdjúpum. 

Aðeins stærra fiskabúr en heima

Stóra fiskabúrið.

Höfrungasýningin að byrja

Mögnuð höfrungasýning. Þetta var um hálftíma sýning og var alveg hreint rosalega mögnuð. Þar mátti hvorki taka myndir né vídeó og að sjálfsögðu fórum við eftir því eins og Íslendinga er siður.

Laugardagur

Hörð morgunæfing hjá Leo White.

Daníela og Rhonda

Daníela æfði talsvert á móti þessari massífu konu – Rhonda. Hún var grjóthörð. 

Ásþór tók snúning með öllum sem kenndu honum og æfðu með honum fyrir þremur árum. Nú voru stærðarhlutföllin aðeins önnur og hér skellir hann Chris eftir að hafa gert karlinn úrvinda úr þreytu. Chris er efnaverkfræðingur og þróar efnaferla til að framleiða flókin efnasambönd í miklu magni. Hann bruggar bjór í frítímanum og það meir að segja ansi góðan bjór eins og ég komst að um  laugardagskvöldið. 

Ási og Chris

Leo fylgdist alltaf vel með öllum á gólfinu og var sleitulaust að leiðrétta og bæta tæknina hjá öllum. Sem betur fer var ég nokkuð iðinn við að taka myndir þennan morgun þannig að Leo hafði ekki næstum jafn mikið að gera og venjulega!

Grannt er fylgst með

Einn af jöxlunum var George Stein, moldríkur lögfræðingur sem sérhæfir sig í sauðdrukknum ökumönnum. Betur má ef duga skal, það sem af er árinu 2013 hafa orðið 587 dauðaslys í Georgíu og því miður urðum við vitni að einu slíku á leiðinni á miðvikudagsæfinguna, en það var svakaleg ákeyrsla rétt hjá Signal Court á Highway 78. Áfram George Stein, tapa nú málum og setja menn in the Stein!

Ási og George Stein

Svo var ekki hægt að yfirgefa Atlanta án þess að taka smá snúning með meistaranum sjálfum og rifja upp einhver trix. Það var ekki leiðinlegt.

Leo og Ásþór taka snúning

Ásþór varð mjög hissa þegar Leo bauð honum í glímu, enda er karlinn venjulega á hliðarlínunni sökum meiðsla síðan úr hernum en bólusetning gegn miltisbrandi fyrir Íraksstríðið fór úrskeiðis og gengur á handleggs- og fingurvöðva. Saddam Hussein átti svo ekki eina einustu anthraxbombu eftir allt saman, helvítið á honum! Hvað um það, tuttugu árum eftir sprautuna var ánægjan allsráðandi en Leo hefur alltaf þótt mjög vænt um Ásþór eins og sjá má á myndunum.

Gaman, gaman!

 

 


Blogg # 26 Yfirlit 2 frá Atlanta

Komið var að síðustu helginni og eins og tíðkast á Íslandi hefst hún á föstudegi og lýkur á mánudegi.

Föstudagurinn

Föstudagurinn var þéttpakkaður af úrvalsviðburðum sem vinkona okkar Barbara Dominey hafði skipulagt. Í réttri röð voru þeir a) heimsókn í „The King Center“ sem er minningarsetur um Martin Luther King Jr. b) Jimmy Carter Library sem er safn um samnefndan forseta Bandaríkjanna sem kjörinn var 1976-80, c) matur og d) heim í Signal Court í spunaspil og svo í bólið.

Föstudagur - The King Center

The King Center

M.L.King er án efa er einn allra merkilegasti ameríkani sem uppi hefur verið. Á stuttri ævi tókst honum að mynda mannréttindahreyfinguna í Bandaríkjunum með góðra manna hjálp og leiða hana til lykta þannig að ekki varð aftur snúið með að leiðrétta kynþáttamisréttið vestanhafs. Þeirri baráttu er reyndar ekki lokið í hugum fólks og menningu en lagalega er henni lokið. 

Ghandi og co.

Safnið er afskaplega vel sett upp, en stytta af Ghandi stendur fyrir utan og á henni er ágrip af boðskap hans, en Ghandi hafði mikil áhrif á M.L.King Jr. sem fór til Indlands að fræðast um baráttu hans á námsárum sínum. Í safninu sjálfu er maður leiddur í gegnum kynþáttaaðskilnaðinn sem King fæddist inn í og menninguna í Atlanta sem var vægast sagt eldfim.

Ásþór við Auburn Street

King fæddist og bjó á götu sem kallaðist í daglegu tali „Sweet Auburn“, en þar höfðu negrar komið sér fyrir í eigin samfélagi í algerum aðskilnaði frá hinum hvítu og var hvorum um sig refsað ef farið var yfir mörkin. Þegar höfðu menn verið hengdir og brenndir sökum þess að velgengni hafði grafið um sig eins og krabbameinskýli í helsjúkum aðskilnaðarlíkamanum til að reyna að halda því í skefjum.

Ræða King þrumar yfir Ebenezer Babtist

Námsárum hans voru svo gerð skil, en hann var alveg fáránlega kristinn. Við heimsóttum Babtistakirkjuna þar sem hann predikaði og þar þrumar í sífellu prédikun hans úr hátölurum og lýðurinn tekur undir eins og trúuðum er lagið með reglulegum „Yeess!“ og „Halelujah!“ og ef maður lokar augunum þá er ekki svo langt í M.L.King Jr. sjálfan.

Hópurinn á röltinu eftir Auburn

Magnað að hafa í huga hve mikilvægt það var fyrir þennan hreinlífa og ofurkristna prestsson þegar hann fór til Indlands og lærði af löglærðum hindúa í lendaklæðum en Ghandi átti sem nemur einni geit, moldarkofa og hlýjaði sér á næturnar með kornungum stúlkum og frelsaði í frítíma sínum Indland undan oki bretanna, en hans er helst minnst fyrir það auðvitað, ekki allt hitt.

M.L.King hlýjaði sér bara með konunni sinni og það er eiginlega ekki við hæfi að vera með frekari hótfyndni hér í kringum alla kynþáttavitleysuna og trúarofstækið því maðurinn gnæfir höfuð og herðar yfir aðra Bandaríkjamenn. Samt var hann bara tæpur einn og hálfur metri á hæð.

Föstudagur – Óvænt aukastopp á Thelmas Rib Shack

Áður en við fórum á Jimmy Carter safnið kom gengið við á rifjastað sem er þess virði að minnast á. Thelmas Rib Shack leit alls ekki vel út utanfrá, en þvílíkur rifjarekki sem við fengum þar! Þeir kunna þetta svertingjarnir á Sweet Auburn, enda margt og mikið búið að grilla á þessum slóðum. Húsið var gjörsamlega að falli komið utanfrá séð og það er gjörsamlega útilokað að það eigi sér vefsíðu einhversstaðar. Ein hæð, múrsteinshlaðið, rauðmálað, lúið þak, áratuga gamalt einkennismerki og slagorð á spjaldi tyllt ofan við sama slagorð málað utan á húsið, næstu hús rústir einar. Við rétt svo þorðum inn, Barbara krossaði fingurna því mælt hafði verið með þessu við hana en hún ekki prófað sjálf. Við fórum inn og svo búmm! Galdur. Við borðuðum of mikið.

Thelmas Rib Shack

Föstudagur - Jimmy Carter safnið

En þá til safnsins. Jimmy Carter, eða „Kip“ Carter var bolað úr embætti 1980 á fremur andstyggilegan hátt er Repúblikanar komu í veg fyrir að eigin borgurum væri sleppt úr gíslingu í Íran fyrr en eftir að þeirra maður hafði náð kjöri. Halelúja. Pétur bróðir Rúnars (yðar einlægur) hafði planað að fara þennan rúnt fyrir 7 árum er hann flutti til Atlanta. Ég er viss um að hann vara bara að bíða eftir bróður sínum og ekki að trassa þessa heimsókn. Heldur ekki Barbara sem hefur búið þarna í 20 ár eða eitthvað svoleiðis :)

Pétur og Barbara í JC Library

Carter er einn af merkilegri leiðtogum ríkisins fyrir friðar sakir, en eftir forsetatíð sína hefur hann unnið sleitulaust að friðarumleitunum. Hann er rammkristinn auðvitað eins og King þannig að fyrirgefningin er eins og rauður þráður í gegnum feril hans, allt frá því að hann tók á móti Shahinum af Íran sem hafði murkað lífið úr milljón Írönum í valdatíð sinni undir vernd Bandaríkjamanna. Það er svona opinberlega allavegana, eini virkilega ljóti bletturinn á forsetatíð hans, því maðurinn er eins og engill í alla aðra staði. Ok, kannski ekki baráttunni gegn tóbaksreykingum, en fyrir utan það þá var hann Gabríel.

Horft á sýningu í Jimmy Carter Library

Maður segir „var“ eins og maðurinn sé látinn. Það er svolítið skrýtið að vera í svona safni um mann sem er enn í fullu fjöri að reyta af sér snilldina um heim allan í þágu friðar og réttlætis. Uppáhaldsforsetinn minn síðan Roosevelt var og hét, sósíalistinn sá arna.

Oval Office - framtíðarvinnustaður

Að þessu loknu fórum við með Barböru og hittum manninn hennar Jack og dóttur Meg, út að borða ís með ávöxtum. Það var hreinlega óbærilegur hiti í Lilburn Atlanta akkúrat þá og ég held að allir hafi fengið sér tvo risaskammta. Það var yndislegt.

Sundprett með Jimmy? Einhver?

Föstudagur - Ævintýri í Signal Court

Kvöldinu lauk heima hjá Pétri með ævintýri fram til miðnættis og þar fóru mál í nokkurn hnút. Þar komumst við að því að launsátur sem hafði tekist að afstýra áður hafði verið að undirlagi frænda fórnarlambsins og ætlun hans var að leggja undir sig konungdæmið. Okkur tókst að finna nokkrar vísbendingar en á meðan einni þeirra var fylgt eftir lentum við í ógöngum og urðum fjölda fólks að aldurtila fyrir vikið. En það voru handbendi óþokka sem áttu það skilið þannig að samviskan svaf vært þótt við hefðum viljað standa öðruvísi að þessu. Mist hefði örugglega gert þetta öðruvísi.

Enter Sandman... 


Blogg #25 Yfirlit 1 frá Atlanta

Júdóhópurinn hefur verið að reyna að venjast hitanum frá því að við vorum í Atlanta. Innanhúss verður stundum mollulegt því loftræstikerfið bregst ekki alltaf við í samræmi við veðrið. Daníela tæklaði hann beint samkvæmt læknisráði og settist út á verönd með Facebook-gizmóið sitt og stórt glas af köldum drykk og var þar í rúma klukkustund. Viti menn, það virkaði og ekki var kvartað meira undan hitanum eftir það.

Litla tröllið

Við vorum á júdóæfingum út vikuna auðvitað. Daníelu hafði kviðið dálítið fyrir að hitta hér vöðvabúnt mikið sem heitir Elaina en FB myndaskipti sýndu hana náttúrulega eins og hún kemur fyrir. Hinsvegar kom í ljós þegar þær hittust loksins að það er ástæða fyrir því að Elaina er langt undir -48kg en hún er svo pínulítil að þótt hún væri nautsterk fannst Daníelu hún helst þurfa að passa sig að brjóta hana ekki.

Tröllið og pabbinn 

Rétt er að nefna að æfingarnar í Atlanta, sérstaklega sú fyrsta, var MJÖG erfið fyrir okkur Íslendingana. Salurinn er óloftræstur nema hvað risavaxin vifta úti við dyr blæs lofti beint að utan inn um aðaldyrnar og ef það er fjörtíu stiga hiti úti, þá er fjörtíu stiga hiti inni. Upphitunin var eins og tveggja tíma æfing. Undirritaður meikaði varla 25 armbeygjur og það rifjaðist upp hvernig það sama hafði gerst þegar ég flutti hingað 5 árum áður. En það lagaðist eftir því sem leið á vikuna og Úlfur hafði að orði að þegar þau kæmu til Íslands mundu þau líklega aldrei verða þreytt framar og líklega ekki svitna heldur. Grímur hafði aldrei svitnað áður á æfingu, en þegar fyrsta æfingin var hálfnuð var hann gegnsósa. Fyrsta vísbendingin um að hann væri með svitakirtla eins og aðrir var komin í hús.

Bandarísk menning

Liðið datt í hið hefðbundna sjónvarpsgláp á kvöldin fyrstu 5 eða 6 dagana í Atlanta að okkur sem höfðum búið þar áður undanskildum. Kaninn er svo rækilega búinn að stúdera músarminnið í mannskepnunni að þeir vita nákvæmlega hversu langt þarf að vera á milli auglýsinga inni í bíómynd án þess að fólk missi áhugann á að horfa á sjónvarpið, gleymi myndinni eða skipti um rás og fyrir vikið verður meðalþáttur af staupasteini að tveggja tíma maraþoni og Lord of the Rings: Return of the King tekur tvo sólarhringa með pissupásum. Fyrir vikið var ómögulegt að vekja nokkurn mann fyrir hádegi fyrstu vikuna nema ef búið var að plana eitthvað, þá náðist fólk á lappir um tíu- eða ellefuleytið. Ekki slæmt það. Venjulegir unglingar snúa deginum gjörsamlega við undir þessum kringumstæðum en ekki júdófólk! Það er með massamótstöðuafl. Og svo er það líka þreytt eftir æfingarnar.

Javier Sayago og æfingar í Waka Mu Sha

Eftir laugardagsæfinguna sem lýst var í síðasta bloggi komu mánudags- og miðvikudagsæfingarnar. Þar kom nýtt fólk á hverja æfingu og urðu fagnaðarfundir þegar Javier og Ásþór hittust, en hann var einn af þjálfurum hans 2009-10. Hann var duglegur að glíma við alla Íslendingana og leist mjög vel á.

Daníela og Javier

Javier er súperhress náungi og eftir miðvikudagsæfinguna vildi hann endilega koma með okkur út að borða. Þegar til kom var enginn svangur en alla langaði í ís að borða, enda engin furða eftir 2 tíma æfingu í 30 stiga hita. Javier reytti af sér brandarana og krakkarnir umkringdu hann gjörsamlega lengst af. Hann er einstaklingur sem maður getur ekki annað en glaðst yfir og með, enda brosir hann breitt af náttúrulegum orsökum samkvæmt hans útskýringu. Hann kemur frá Venesúela og þar klæða allar konurnar sig sagði hann, þannig að maður getur ekki annað en brosað daginn út og daginn inn.

Javier og krakkarnir hans

Hann langar mjög mikið að koma til Íslands og þegar hann heyrði hvað það kostaði versnaði ekki útlitið. Góðar líkur á að það gerist!

Josh White og Richard Tremell

Annar sem langar til Íslands er Josh White. Hann æfir bardagagreinar, þ.á.m. júdó, kickboxing, karate og grappling og keppir í MMA. Hann er með hæsta meðalskorið í USA – Best Overall – eins og það kallast, en hann lenti í 3. sæti í Senior US Championships í vor og er í 5. sæti yfir landið. Við fórum á æfingu til hans á þriðjudaginn og ætluðum á fimmtudaginn, en það sama kvöld óskuðu Leo og Jackie eftir því að við heimsóttum þau aftur og það varð ofan á.

Josh White og ákafir nemendur

Æfingaaðstaðan hjá Josh er í klúbbi Richard Tremell, en hann er þrefaldur heimsmeistari í Shidokan frá 2001-2003 ef ég man rétt. Sá náungi æfði einnig með okkur hjá Leo White og var með á æfingunni þegar við komum í heimsókn. Það fyrsta sem maður tók eftir í æfingasalnum hans var hve óskaplega lítill salurinn var. Örlítið júdóæfingasvæði, bardagahringur, svo tók við boxpúða og pokasvæði ásamt lyftingaaðstöðu og sturtu. Það kom þó ekki að sök því Josh hefur hannað alveg einstaklega hugvitsamlegar æfingar sem fullnýta það pláss og þá aðstöðu sem er til staðar og við fengum mikið út úr því. Ekki síst sáum við svart á hvítu hve vel má æfa í pínulitlum sal ef beitt er smá hugviti.

Þeir sem vilja kynna sér Josh nánar geta flett honum upp á Facebook og fundið þar „Black Ice“. Endilega gera „LIKE“ á hann þar.

Hópurinn eftir æfingu hjá Black Ice

Leo White, Evander Holyfield og Lebron James

Eftir æfingar stóð hópnum til boða að bregða sér inn í búrið þar sem Evander Holfield æfði á sínum tíma, en það er beint fyrir utan júdósal Waka Mu Sha, og sækja sér Powerade sem þar var í ægilegri stæðu. Þannig stóð á þeim að Lebron James, körfuknattleikssnillingur, gaf íþróttaiðkendum við þennan skóla 150 kassa af því eða svo að gjöf. Það var dálítið sérstakt að sækja sér Poweradeið hans Lebron James, NBA meistara, inn í æfingabúrið Evander Holyfield, heimsmeistara í boxi, eftir að hafa lokið við æfingu hjá Leo White, 19-földum Bandaríkjameistara í júdó. Í augnablik var eins og Bandaríkin væru á stærð við frímerki.

Black Ice og karlinn

Heimsókn í breytt hverfi

Á leiðinni heim eftir eina æfinguna kom júdóhópurinn við í götu sem heitir Stillwood Forest en þar bjuggu Ásþór, Þórarinn og foreldrar fyrir þremur árum. Við kunnum ekki við að ónáða þá sem bjuggu í húsinu og bönkuðum því upp hjá þeim nágranna sem við þekktum best, hana Ann Carter, sem kom óvænt með nýtíndar ferskjur handa okkur einn daginn, við buðum henni í mat á móti og hún kom aftur færandi hendi með sultu. Það fékk aðeins á okkur að heyra að hún hafði dáið árinu áður og eftir að rifja aðeins upp þá áttuðum við okkur á að allir sem við þekktum áður í götunni voru annaðhvort dánir eða fluttir á brott. Það var merkilegt á ekki lengri tíma.

Spunaspil í Signal Court

Í Atlanta tókum við þrjár tarnir í Aski Yggdrasils alls, tvær að kvöldi og eina að degi til. Þar fengu tæplega 20 ára gamlar persónur að reyna sig við persónur júdómannanna og það þótti okkur einna magnaðast að engin þeirra voru fædd þegar persónurnar tóku sín fyrstu skref í Goðheimum á fyrri hluta 10. áratugarins. Magnað. Gömlu jaxlarnir voru þeir Myrkon og Snorri en þeir eru sumum austfirðingum á fertugsaldri af góðu kunnir.

Matarboð hjá hr. og frú White

Komið var að seinna matarboðinu hjá þeim Leo og Jackie og við ákváðum að nota fyrripart dagsins í að versla í „mollinu“. Það var skrautlegt og sannaðist þar enn einu sinni að Íslendingar eru og verða óarfturkallanlega seinir því þeim finnst mínúta alltaf vera klukkustund og klukkustund alltaf vera dagur. Okkur tókst samt að vera „bara“ 20 mínútum of sein.

Leo yngri, Jackie og Leo og  

Hinsvegar sannaðist það líka að Íslendingar geta verið lang-lang-langskemmtilegasta fólk í heimi því við vorum hjá þeim hjónum og Leo yngri frá klukkan fimm um daginn og fram yfir miðnætti við mat og heilsudrykkju og allskyns spil, töfrabrögð, spjall og leiki. Það var alveg ofboðslega skemmtilegt og Þórarinn níu ára og aldursforsetinn rúmlega sextugur skemmtu sér hvor öðrum betur.

Hápunkturinn var líklega þegar við Daníela stjórnuðum sitthvorum Werewolves leiknum og varúlfarnir unnu annað spilið en elskendurnir unnu hitt spilið en það getur verið frekar erfitt. Þar drápu Leo yngri og Grímur alla þorpsbúana í fyrra spilinu og var Úlfur þeirra síðastur, en við María náðum að svíkja bæði Jackie og Leo í tryggðum í því seinna. Þetta er einstaklega skemmtilegt spil og ég mæli eindregið með því. Fæst í Nexus og Spilavinum ;)

Koma svo WOW Air, fljúga til USA!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband