Blogg #34 Partý og heimferð
1.9.2013 | 16:51
Við höfðum samið við Saucedo feðgana sem voru meðal þeirra sem við vinguðumst mest við að nota sturturnar þeirra, því við höfðum tæmt herbergin okkar um morgunninn. Hinsvegar bólaði ekki á þeim og við tylltum okkur ásamt landsliði Bahamas á barinn og fengum okkur sérdeilis holla og óþynnkuvaldandi drykki. Við röbbuðum lengi vel og þar sem við vorum herbergislaus og sturtulaus þá buðu eyjaskeggjarnir okkur að skola af okkur. Við þáðum það og mikið óskaplega var það gott.
Eftir mótin kastaði maður mæðinni og hugsaði að nú væri helstu viðburðum lokið og hversdagsvirðuleikinn tæki við.
Svo var aldeilis ekki! Time to go crazy!
Gerry Navarro, skipuleggjandi mótsins, hefur ævinlega lokaviðburð Jr. International Open ár hvert alveg stórkostlegt partí með mat, opnum bar, drykkjum, kökum, skemmtiatriðum og allskyns gamni. Þetta ár var partíið í stórum sal niðri við snekkjuhöfn og þar voru kræsingarnar alveg ólýsanlega flottar.
Opinn bar með áfengum og óáfengum drykkjum af öllu tagi bókstaflega var mannaður hressum gaurum sem gátu blandað hvað sem hugurinn girntist án þess að sjá handa sinna skil. Við sátum auðvitað á okkur þ.s. framundan var löng keyrsla en við borðuðum hressilega. Sumir voru ákafari en aðrir:
Stelpurnar frá Bahamas eyjum byrjuðu á að bjóða Þórarni Þey upp í dans og hann ætlaði nú ekki að láta sig sjást dansa við gullfallega stelpu frá suðurhafseyju undir tónlist Justin Bieber! En svo lærði hann smátt og smátt að hundsa tónlistina og brátt var hann í algerum berserksgangi og sömleiðis íslenska gengið eins og það lagði sig. Þau slettu ærlega úr klaufunum en byrjuðu auðvitað á "Evil Pose":
Þetta eru nú meiri vitleysingarnir!
Flottur hópur, frábært partí.
Þarna voru allir þjálfararnir, aðstandendur, íþróttaungmennin og aðstoðarlið og nóttin var löng. Undir lok var ýmislegt gert, meðal annars sendir upp kínverskir pappírsloftbelgir og það var skemmtilegur endir á alveg svakalegu partíkvöldi.
Ferðin til Atlanta
Stefnan var að keyra á vöktum til Atlanta og ég tók fyrsta sprettinn. Eftir tveggja tíma keyrslu hafði hinum bílstjórunum ekki tekist að sofna og ég var nokkuð brattur til að byrja með en skyndilega sagði allt stopp. Þessar fimm vikur höfðu tekið toll af manni og hinir bílstjórarnir voru alveg búnir á því sömuleiðis. Við stóðum í þeirri trú að vera komin á ódýrt svæði og tókum næstu beygju út af hraðbrautinni Florida Turnpike. Engar merkingar voru og hvergi sjáanleg hús þannig að við vonuðum að við værum nú komin út fyrir dýru svæðin.
Eftir að hafa keyrt í gegnum alveg stórfurðulegt verslanahverfi vorum við orðin nokkuð viss um að hafa skjátlast og þegar við komum á mótelið varð það ljóst Við vorum á Palm Beach! Ekki ódýrt heldur dýrt sem sagt og í meira lagi. Þrátt fyrir að vera hálf dauður úr þreytu megnaði ég að þræta aðeins við næturvörðinn sem lækkaði hótelverðið niður í $99 fyrir nóttina frekar en að missa okkur út úr húsinu á næsta hótel. Ég hefði reyndar ekki meðgnað að keyra lengra en HANN vissi það ekki!
Þetta verð telst gríðarlega vel sloppið á gæðamóteli á Palm Beach og herbergið var það flottasta sem við gistum í alla ferðina, lítil sundlaug var útivið sem ég dýfði mér í þegar ég vaknaði, morgunmatur innifalinn og þar frameftir götunum.
Allt eins og best var á kosið. Eða kossið, það var svo gott að leggjast á koddann, ég ætla ekki að fara nánar út í það. Lá við að ég tæki hann með mér heim.
Til Atlanta
Við vorum svo þreytt að við ætluðum aldrei að hafa okkur af stað. Hópurinn var afslappaður, góð stemning og við stoppuðum nokkrum sinnum eftir smáræði hér og þar. Svo fundum við okkur out of the way B-B-Q stað þar sem við fengum síðustu ekta bandarísku máltíðina okkar og það tók tímana tvo (bókstaflega) að fá matinn og klára hann. Við ætluðum auðvitað að vera tímanlega heima hjá Pétri og gera hitt og þetta en það bara náðist ekki. Við vorum mætt klukkan um hálf þrjú um nóttina og einungis fimm tímar þar til við þurftum að vakna og keyra út á völl.
Er ekki annars kominn tími til að birta myndir af bíl númer tvö sem hlaut ekki eins afgerandi gælunafn og bíllinn þeirra Péturs og Þóru sem ferjuðu okkur fyrri hlutann? Hér er Hvíti Drekinn/Risaeðlan:
Pétur náði rétt svo að kveðja okkur og í stuttu máli gekk allt eins og sögu á leiðinni heim. Eins og venjulega náði undirritaður reyndar ekki að leggja sig en það var bara fínt, því ég hefði þá etv. misst af júdóhópnum brillera á leiðinni. Það var svo mikið spaug og sprell í gangi hjá þeim öllum saman, eins og stórum systkinahópi, t.d. á flugvellinum í Boston að maður komst við.
Ávinningurinn af þeim júdósigrum sem hópurinn vann til eða annað sem hann upplifði í ferðinni komst í raun ekki í hálfkvisti við að koma til Íslands ríkari að vinum og virðingu, og umhyggju og umburðarlyndi gagnvart náunganum en áður en lagt var af stað. Það er eilíft veganesti. Þau höfðu hugrekki til að takast á við svo langa samveru og koma sterk út úr henni sem samstæður hópur. Samhjálp, samábyrgð og stuðningur hópsins við hvert annað var aðdáunarverður og eftir því var tekið.
En hver var samt júdóávinningurinn? Jú:
Gull: 8
Silfur: 8
Brons: 11 ...eða 12 - Við hreinlega misstum töluna :)
Ég færi hiklaust með þau öll aftur í svona ferð. Snilldarfólk.
Heimkoma
Fagnaðarfundir urðu á flugvellinum auðvitað og maður fann að foreldrahópnum var þakklæti í hug, en það var okkur Maríu einnig. Það er mikill heiður að vera sýnt það traust að sjá um börn annarra, þótt stálpuð sú orðin, í svo langan tíma. Það var manni ofarlega í huga og verður ætíð. Ég veit ekki hvort maður sjálfur væri nægilega sterkur til að sjá á eftir eigin drengjum í svo langa ferð með nokkrum manni. Ég vil þakka þeim kærlega fyrir samvinnuna og að koma þessu áfram og ég treysti því að allir séu ríkari fyrir vikið.
Foreldrarnir komu okkur Maríu svo hressilega á óvart með því að gefa okkur lúxusgistingu og fæði að Glym í Hvalfirði ásamt heimboði fyrir Ásþór og Þórarinn á meðan svo við hjónin náum góðri slökun og hvíld og að vera smá útaf fyrir okkur. Falleg hugsun þar og við þökkum þeim kærlega fyrir óvæntan glaðning.
Takk fyrir lesturinn kæru lesendur, Ferðin var öll tekin upp og stefnan er að gera um hana heimildamynd eins fljótt og auðið er.
Að lokum - Takk WOW Air fyrir að vera bakhjarl hópsins!
Með bestu kveðju, Rúnar Þór Þórarinsson
PS. Er það ekki bara USA 2015?
Athugasemdir
Rúnar! Ótrúlega flott ferðasaga og vel skrifuð!!!!!!!!! Hvílík unun að lesa :) Ég er ólýsanlega stolt af ykkur, þvílíkar gæðamanneskjur sem þið eruð María og Rúnar :) ekki skrítið þótt ungmennin sem voru með í ferðinni hafi vaxið í víðtækum skilningi við þessa lífsreynslu. Ég óska ykkur öllum til hamingju með að hafa verið hluti af hópnum og náð svo frábærum árangri í íþróttinni. Þið munuð búa að þessari reynslu alla ævi , að maður tali nú ekki um vináttutengslin :) Hlakka til að sjá myndbandið :) bestu kveðjur og hamingjuóskir kv mamma/amma
Guðborg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 4.9.2013 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.