Blogg #33 Golden Score Tournament Florida
1.9.2013 | 16:24
Jr. Open Intarnational, Golden Score Allir kepptu!
Golden Score mótið fór fram strax að loknu Jr. Open International og til að fá að taka þátt þurfti maður að hafa keppt á aðal viðburðinum. Það gekk afar hratt fyrir sig og var undirritaður bókstaflega á hlaupum til að reyna að ná sem flestum glímum. Við höfðum komið upp aðalbækistöðvum á besta stað ofarlega í pöllunum og það var flottasti staður sem við höfðum verið á á nokkru mótanna.
Úlfur Þór á Golden Score mótinu
Úlfur og Ásþór eru auðvitað jafngamlir en þeirra flokki (Golden Score þungavigt) hafði verið skipt í léttari og þyngri sökum mikillar þáttöku og þyngdardreifingar. Það hefði því getað endað með því að þeir glímdu hvor við annan því Úlfur var í þyngri og Ásþór í léttari flokki, en um 25 kílóum munaði á léttasta og þyngsta í þeim aldursflokki.
Nú var komið að Úlfi að ná sér ekki á strik en fram að þessu hafði hans aðalandstæðingur eiginlega bara verið Geronimo Saucedo og svo Ásþór Loki á fyrsta mótinu. Hann vann eina glímu örugglega en tapaði svo gegn Geronimo og svo einum öðrum náunga og lenti því ekki verðlaunasæti í sínum flokki og komast þar með ekki áfram í overall útsláttarglímurnar. Þetta varð eina mótið af þeim sex sem hann keppti á sem hann náði ekki á pall og það er mjög góður árangur!
Ásþór Loki á Golden Score mótinu
Ásþór átti líkt og Úlfur möguleika á því fyrstur allra að ná í verðlaun á öllum mótunum í ferðinni, en til þess þurfti hann að lenda í efstu tveimur sætunum í sínum flokki til að komast áfram í ovarall útsláttinn og svo vinna a.m.k. eina glímu þar.
Ásþór lenti í þeirri óskemmtilegu stöðu að tapa fyrstu glímunni. Hann var yfir en augnablikskæruleysi í glímunni um tökin kostaði hann sigurinn þar. Hann sýndi aftur mikinn karakter og vann hinar og lenti þar með í öðru sæti í sínum flokki og hafði silfur upp úr krafsinu og komst þar með í Overall útsláttinn. Þar var síðasti möguleikinn á gullverðlaunum en þar yrði við ramman reip að draga því andstæðingarnir voru miklum mun þyngri og mjög keppnirsreyndir.
Langflestir útsláttarflokkarnir fóru einfaldlega þannig að þyngri keppendurnir unnu. Það helgast af því að allir á þessum mótum eru á einn eða annan hátt reyndir eða óvenjulega öflugir í sínum aldurshóp eða með eitthvað mjög sterkt í sínum glímustíl, þá ýmist vörn, árás eða gólfglímu. Ásþóri Loka tókst að hafa fyrsta andstæðing sinn úr þunga flokknum undir. Sá var með eitt áberandi kast og hafði raunverulega engin önnur brögð og Ásþór náði að loka svo á hann að áður en langt var um liðið fékk sá dæmt á sig víti fyrir falssókn og þótt fyrr hefði verið en hann kastaði sér í gólfið án þess að ógna um leið og hann snerti á anstæðingnum. Ásþór þurfti auðvitað að sækja sannfærandi á meðan og gerði það og hafði næstum haft erindi sem erfiði fyrir vítið. Undirritaður var staddur hinumegin á keppnissvæðinu þannig að það var Sævar sem hjálpaði Ásþóri Loka að sigra þessa glímu, enda með vörnina við þessu kasti á hreinu.
Þá var eftir síðasta glíman við Geronimo Saucedo. Eins og fyrri daginn var Ásþór yfir á sóknum, dómarinn ætlaði að dæma sóknarvíti (sóknarleysi) á Geronimo en aðstoðardómararnir komu í veg fyrir þann dóm. Það fór aftur þannig að Ásþór fór út í árás sem hann hafði ekki mikið æft, tók of langan tíma að koma sér út úr henni og Geronimo náði honum niður á glæsilegu mótbragði. Önnur silfurverðlaunin voru í höfn þennan daginn og sem fyrr, aðeins hársbreidd frá gulli í þeim báðum.
Ásþór vantaði kannski þolinmæði frekar en eitthvað annað til að klára mótið þessa síðustu helgi með þrenn gullverðlaun í stað þriggja silfurverðlauna. Það vita allir hve sárt það er að taka við silfri, en líka hvað það læknast fljótt þegar maður lítur yfir mótið í heildina. Sæt sigurhelgi var að baki og Ásþór tryggði sér verðlaunasæti á öllum mótunum!
Þórarinn Þeyr á Golden Score mótinu
Eftir mjög erfiðan fyrri dag var Þórarinn staðráðinn í að gera sitt besta. Hann lenti í léttasta milliþyngdarriðlinum ásamt aðeins einum öðrum dreng, en þyngri milliþyngdarriðillinn var með þrjá keppendur.
Andstæðingurinn var japanskur innflytjandi, Suzuki, sem stundað hefur júdó í þrjú ár. Hann var eins og flest börn á þessu móti í 2003-flokknum, fæddur á fyrstu þremur mánuðum ársins og hafði því nokkurt líkamlegt forskot á Þórarinn sem heldur upp á afmælið 24. nóvember. Tæpt ár er mikið á þessum aldri.
Þórarinn vissi að hann átti silfur öruggt og færi því ekki tómhentur. Þegar svo stendur á er mikilvægt að brýna fyrir krökkunum að þótt þau fái verðlaunapening, þá þýðir lægsti peningurinn ekkert annað en maður tapaði sínum glímum. Gullið er alltaf gull. Hann einbeitti sér því að því að ætla að vinna, hugleiddi vel með aðstoð pabba síns og hugsaði um sín köst. Þegar þeir voru svo kallaðir inn á var hann staðráðinn í að fá gullið í flokknum og komast áfram gott sæti í útsláttinn við þyngri krakkana.
Glíman fór rólega af stað hjá honum. Hann flýtti sér ekki og sótti í sig veðrið eftir því sem á leið. Golden Score þýddi auðvitað að hið minnsta skor þýddi vinning og því mikilvægt að láta ekki slá sig út af laginu. Eftir nokkra spennandi varnartilburði á báða bóga var Þórarinn kominn með yfirhöndina í sóknum að okkur fannst og var að loka vel á sóknir japanska stráksins. Þá sá ég að vörn hans var opnari í miðjunni og Þórarinn hafði einmitt æft ofboðslega mikið tæknilega flókið kast sem heitir Uchi Mata, sem er glæsilegt klofbragð þar sem maður kastar andstæðingnum yfir sig. Þórarinn hafði ætlað að láta á það reyna og skaust inn alveg ofboðslega flott og skoraði með glæsilegu kasti.
Seinni glíman var stutt, en Þórarinn lýsti því yfir að hann ætlaði bara að kasta honum strax á Uchi Mata og gerði það. Gull í höfn og góð ástæða til að fagna!
Glíman í sameinaða flokknum með þyngri keppendunum var mjög stutt, Þórarinn steig óvart í kross í upphafi glímunnar í baráttunni um tökin og það var ekki að sökum að spyrja, honum var samstundis refsað. En sökum þess að hann vann léttari flokkinn og sá sem hann keppti við þar tapaði sinni glímu, þá lenti Þórarinn í þriðja sæti af fjórum og hlaut bronsið.
Afrakstur dagsins hjá Þórarni voru því gull og brons.
Grímur á Golden Score
Dagurinn hófs vel hjá Grími en hann hafði unnið tvær glímur en tapað einni. Því miður missti ég af þeim því ég þurfti að ganga frá greiðslum og öðru á hótelinu og það tók svo langan tíma að mótið var byrjað. Sævar hafði séð um að vera í stólnum og leiðbeina og staðið sig með prýði.
Með nokkrum vinningum og einu tapi og einni glímu til góða var komin upp mjög kunnugleg staða, því Grímur hafði í ferðinni oft átt möguleika á verðlaunum en orðið af þeim í síðustu glímunni. Ég skoðaði hvernig staðan var fyrir þessa seinustu glímu og sökum þess hvernig stigin höfðu fallið þá var ljóst að ef hann mundi tapa þessari úrslitaglímu fengi hann ekkert en ef hann ynni hana fengi hann silfur.
Því var tekinn peppfundur í skyndi, ég las honum pistilinn og minnti á allt sem hann hafði lært og allt sem hann hafði bætt sig á hverju móti. Hvernig hann hafi tekið einn galla í einu út og bætt við sig hægt og bítandi. Nú væri síðasta glíman á síðasta mótinu runnin upp, hann áfram yngstur í sínum flokki 15-17 ára keppenda og einn úr íslenska hópnum með engin verðlaun. Nú riði á að sjá sjálfan sig fyrir sér með silfur um hálsinn þegar við kæmum heim í stað einskis.
Hann var orðinn alveg blóðgíraður þegar kom að glímunni og staðráðinn sem aldrei fyrr í að vinna. En þegar þeir gengu inn gólfið keppendurnir sáum við að þar var líklega elsti og klárlega fullorðinslegasti náunginn í þyngdarflokknum, svartbeltungur (Grímur er með blátt), þrekvaxinn skeggapi, hærri og vöðvamassaður náungi, tvöfalt gildari en Grímur sem er þó öflugur miðað við aldur.
Við görguðum á hann hvatningarorð og það var gaman að sjá að þessi fagurfræðilegu vöðvafjallsatriði höfðu bókstaflega engin áhrif á Grím. Hann ætlaði að ganga frá honum og það seinasta sem ég kallaði á hann var Gerðu engin mistök og þá hefurðu hann. Hann er skíthræddur! Og það var engin lygi, maðurinn var hikandi, etv. vegna þess að Grímur tók svo hraustlega á honum strax, reif hann til og tuskaði svartbeltann til eins og æfingabrúðu. Eftir tvær sóknir, var ég orðinn nokkuð bjartsýnn, svartbeltinn átti engar sóknir og mér datt í hug að hann ætlaði að taka Grím á varnarbragði en það hafði oft gerst áður. Eitthvað gargaði maður til hans um það, veit ekki hvort það skilaði sér en í næstu árás Gríms tók andstæðingur hans á honum og ætlaði að rífa hann niður. Grímur sá við því, komst út, og tók krók á móti mótbragði og þar stöðvaðist glíman í augnablik og ekki mátti á milli sjá. Svo rumdi Grímur einhvern fjárann og reif manninn aftur á bak á alveg hreint glæsilegu ipponkasti. Silfur! Ef satt skal segja var þetta einn af hápunktum ferðarinnar fyrir mig persónulega og örugglega fyrir Grím líka. Nú voru allir orðnir loðnir um lófana fyrir heimferðina og það var árangur sem við höfðum rétt látið okkur þora að dreyma um.
Því miður höfðum við ekki rænu á að taka mynd af þessu tilefni en eigum eina frá kvöldinu sem segir sitt:
Daníela Rut á Golden Score mótinu
Því miður var tímasetningum glímanna hagað þannig að undirritaður missti af öllum Golden Score glímunum hennar Daníelu. Hún hafði auðvitað háð mikla hildi fyrr um daginn og var þreytt og meidd á ökkla. Engu að síður þá telst okkur fararstjórunum nú (svona löngu síðar) sem svo að hún hafi unnið eina glímu og tapað tveimur á þessu síðasta móti og náði ekki á pall.
En hverjum er ekki sama? Hún var svo búin að vinna svo kyrfilega inn fyrir laununum sínum í þessari ferð að hún átti skilið að lúlla sér aðeins á júdódínurnar og telja í þeim sprungurnar í síðustu glímunum. Finnst ykkur ekki? Mér finnst það.
Sævar á Golden Score mótinu
Sævar var algjör yfirburðamaður á Golden Score mótinu. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Dómurunum tókst samt að hafa af honum gullverðlaunin og þá ca. $200 sem sigrinum fylgdu með alveg ótrúlega slakri dómgæslu. Hann vann fyrstu glímurnar af öryggi og var í efstu fjórum, en þá tók þjóðræknin við sér hjá dómurunum eða einhver annar andstyggilegur karakterveikleiki. Fyrri fjórðungsúrslitaglíman endaði þannig að andstæðingur Sævar hafði dýft sér í gólfið og Sævar hæglega stöðvað þá kasttilraun. Um fimm sekúndur liðu í gólfinu og Sævar var ofaná að undirbúa viðsnúning. Þegar hann lét til skarar skríða kallaði dómarinn Ippon og gaf hinum sigurinn fyrir að hafa klárað kastið sem Sævar var löngu búinn að drepa og allir búnir að gleyma. Ég var annarsstaðar að coacha og hefði sleppt mér og heimtað aðaldómarann á svæðið, en sá þetta ekki gerast. Enn var ég minntur á hve gott það hefði verið að hafa einn þjálfara í viðbót á staðnum sem er klár á þessum reglum.
Í síðustu glímu Sævars var ég á svæðinu og sú glíma var alveg fáránleg frá upphafi til enda. Andstæðingur hann fékk leyfi til að brjóta reglurnar gróflega ítrekað með því að kasta sér niður í algerlega vonlaus köst og fara beint í varnarstöðu í gólfi. Það er bannað og verðskuldar beint víti sem hefði þýtt sigur. Sævar gerði bendingar en ég sá að dómararnir ætluðu sér að hundsa þetta þannig að ég áminnti hann að sækja ef dómararnir væru svo heimskir að refsa manni fyrir sóknarleysi sem gert var útilokað að sækja með því að glíma ekki standandi glímuna gegn honum. Það varð úr, SÆVAR fékk vítið og ég brjálaðist alveg og kallaði til aðaldómara en þeir voru tveir talsins á mótinu. Nema hvað... hvorugur þeirra fannst, mótmæli mín voru sussuð og ég varaður við að mér gæti verið vísað úr salnum fyrir óhófleg mótmæli og þar fram eftir götunum. Ekta amerísk hlýðnikröfugerð í gangi þar og þeir héldu svo áfram með mótið undir fúkyrðum.
Hálftíma síðar komu svo báðir aðaldómararnir í salinn og hvar voru þeir? Í MAT báðir í einu, hinumegin í húsinu án þess að segja neinum hvert. Hann baðst afsökunar á slakri dómgæslu, sagðist vita að það væru vandamál í gangi og sér þætti leitt að hafa ekki verið á staðnum. En ekkert væri hægt að gera að svo stöddu, mótið væri svo gott sem búið.
Sævar var rólegur yfir þessu samt, enda kominn með svo mörg verðlaun að hann gat varla borið þau til Íslands. Ég held ég hafi verið mun reiðari en hann yfir þessu!
Þessi mót voru líklega þau síðustu sem Sævar keppir í junior flokki og má segja að hann hafi lokið þeim með stæl Tvenn gullverðlaun og önnur þeirra á International Junior Open , sem er erfiðasta Jr. mótið í Bandaríkjunum.
Nú dregur nærri endalokum ferðarinnar og þessara blogga og aðeins ein færsla eftir um partíið, ferðina til Atlanta og þaðan til Íslands.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.