Blogg #32 US International Open og Golden Score
1.9.2013 | 15:57
Jr. Judo International Open
Mótin þessa síðustu helgi voru þannig að fyrsta daginn kepptu allir nema elsti flokkurinn, 18-20 ára, um þennan síðasta Jr. Bandaríkjameistaratitil sem í boði var. Það var Laugardagurinn 28. júlí og það var dagur Þórarins, Ásþórs, Úlfs og Gríms.
Næsta dag fór svo fram um morgunninn keppnin í IJF flokki fyrir hádegi og þar mundu vinnast síðustu meistaratitlarnir með hinu hefðbundna sniði.
Strax eftir IJF flokkana hófst svo hið spennandi Golden Score mót, en á því móti tapaðist glíma um leið og minnsta skori var náð eða ef víti var veitt. Þar var keppt í þremur stórum þyngdarflokkum í hverjum aldursflokki og þar sem dreifingin var mikil, eins og í flokki Þórarins, var bætt við flokki sem hægt var að vinna áður en farið var í stóra riðilinn þar sem leikurinn var ójafnari og hinir þyngri og stærri báru næstum ævinlega sigur úr býtum en Ásþór Loki náði þó að hrista upp í því í sínum flokki.
Dagur 1 Laugardagur Grímur, Úlfur, Þórarinn og Ásþór
Það var gríðarlega erfitt að sinna þjálfarastörfunum á þessu móti af þeim sökum að mótið var afar stórt, vellirnir stórir og svo gekk mótið svo hratt. Sem betur fer höfðum við haft gæfu til að skrá Sævar inn sem þjálfara en svarta beltið hans gerði okkur kleift að gera það þótt hann væri sjálfur að keppa, en María var á myndatökuvaktinni lengst af á þessu móti. Við erum jú að gera heimildamynd um ferðina og það kostaði mikla útsjónarsem og hlaup að taka vel myndir af þessu öllu.
Niðurröðunin var þannig að Þórarinn og Grímur voru öðru megin í húsinu og Ásþór og Úlfur hinu megin. Því skiptum við liði, ég var öðru megin og Sævar tók vinnuna hinu megin þegar glímur stönguðust á.
Grímur
Grímur hefur verið að styrkjast og læra af hverju mótinu á fætur öðru. Grímur mætti ákveðinn til leiks en hafði ekki erindi sem erfiði og tapaði sínum glímum því miður. Það var afar svekkjandi, bæði fyrir hann og okkur sem þjálfara og liðsheild, því hann átti svo sannarlega skilið betri úrslit. En Grímur er alveg makalaust fljótur að ná sér eftir áföll og fór fljótlega að espa sig upp fyrir daginn eftir.
Í því hugarástandi er stundum hjálplegt að hafa allt og alla á móti sér. Líkt og fyrri daginn var hann yngstur en nú var skiptingin þannig að enginn annar 15 ára keppandi var í flokki 15-17 ára. Ungir menn vaxa og styrkjast gríðarlega á þessum árum og flestum finnst ekki svara kostnaði að senda 15 ára á þessi mót. Vonandi breytir alþjóða júdósambandið þessum reglum og heldur áfram með 2 ára aldursbil. Þetta er ósanngjarnt og menn geta bognað við þetta en svo virtist sem Grímur snéri þessu við og léti þetta herða sig. Hann SKYLDI rústa síðasta mótinu síðasta daginn.
Úlfur
Enn atti Úlfur kappi við Geronimo Saucedo en þeir voru nánast jafn þungir. Fyrir utan þá voru tveir aðrir í flokknum og vann Úlfur aðra glímuna en tapaði hinni fremur óvænt gegn ungum manni sem átti eftir að sjást meira af um helgina. Sá var aðeins með eitt kast í sínu vopnabúri, svokallað drop-seoinage en það er axlarkast sem felst í því að vinda sér við, fara eldsnöggt niður á hnén og kasta andstæðingnum yfir herðarnar. Auðvelt er að gera það þannig að víti eigi að koma fyrir s.k. Fals-árás en það víti er gefið þeim sem varpar sér niður án þess að vera að framkvæma raunverulegt kast, heldur með þeim tilgangi einum að komast í gólfglímu. Strákurinn arna slapp við þessar vítur gegn Úlfi og náði að skora á hann. Úlfur komst loksins inn í sitt uppáhaldsbragð, Uchi-Mata, en hitti ekki og kláraði kastið með því að gera eina af þeim hreyfingum sem algerlega eru bannaðar og steypti sér fram yfir sig á höfuðið. Það er bannað vegna hættu á hálsmeiðslum og var Úlfur dæmdur úr leik við það.
Úlfur átti þá enn einu sinni við Geronimo og hafði nú óvænt tapað glímu við mann sem okkur hinum þótti lakari en Úlfur. Nú er Úlfur örlítið hærri og armlengri, en Geronimo þéttari á velli og með mun meiri alþjóðlega keppnisreynslu. Úlfur átti ágæta glímu gegn Geronimo en Mexíkaninn hafði enn einu sinni betur, kastaði Úlfi á glæsilegu ippon og ekki við neinn að rífast yfir því. Brons samt og gaman að því!
Þórarinn Þeyr
Þórarinn var ágætlega upplagður þennan mótsdag en náði ekki að komast á pall. Glímurnar hans voru þó góðar og sú fyrsta tapaðist naumlega. Það var raunar besta glíman hans frá upphafi júdóiðkunarinnar og við glöddumst yfir því. Hinsvegar fór önnur glíman illa, hann gætti sín ekki og steig í kross og það færði andstæðingur hans sér strax í nyt og kastaði honum á fyrstu augnablikum glímunnar. Þórarinn var auðvitað afskaplega leiður yfir því og grét mikið en eins og fyrri daginn var Grímur mættur á svæðið innan skamms og huggaði strákinn.
Grímur er alveg einstakur maður hvað þetta varðar, en alveg án áreynslu náði hann að draga fram jákvæða punkta við stöðuna og hressa litla kappann við. Saman járnuðu þeir sig svo fyrir Golden Score mótið daginn, en báðir höfðu tapað öllu þennan fyrsta dag.
Ásþór Loki
Þessi dagur var dagur andstæðna fyrir Ásþór. Hann hefur verið að þróa hugleiðsluaðferð sem hentar sér til að einbeita sér fyrir glímur og losna við taugatitring og fyrir fyrstu glímuna náði hann djúpri hugleiðslu. Fyrsta andstæðinginn vann hann mjög örugglega á Ippon eftir stutta glímu. Hann horfði svo á glímu þess sem hann þurfti að vinna til að komast í úrslitin og hafði af honum litlar áhyggjur en hann var með hreint út sagt lélegan glímustíl miðað við aðra sem hann hafði átt við.
Hann var því nokkuð sigurviss fyrir næstu glímu og sleppti því að hugleiða fyrir hana. Það kom á daginn að sá anstæðingur var ekki góður glímumaður en hafði greinilega stundað mikið Jujutsu og gerði lítið annað en falskar árásir og að halda sig fjarri Ásþóri. Hann hlaut líka náð fyrir augum dómaranna því þeir gáfu honum engin víti í heilar 2 mínútur. Því var Ásþór langt yfir í sóknum og yfir andstæðingnum vomaði sóknarleysisvíti en þá var Ásþór orðinn óþolinmóður og svekktur yfir því að vera ekki búinn að klára þennan fremur lélega andstæðing og ákvað að taka kast sem hann tekur vanalega aldrei en það mistókst og hann fleygði sjálfum sér á bakið. Við greindum þetta eftirá á vídeóupptökunni og andstæðingurinn gerði í raun ekkert nema að grípa um Ásþór á leiðinni niður, tók í rauninni ekki bragð sem gæfi stig, en Ásþór felldi sig svo kyrfilega sjálfur að enginn spáði í því.
Hann var mjög vonsvikinn því þetta þýddi að hann gæti ekki unnið gull, en hann sýndi mikinn karakter og herti upp hugann fyrir síðustu glímuna sem var um bronsið, kom sér í djúpa hugleiðslu fyrir hana og jarðaði andstæðing sinn með glæsilegu kasti eftir örfáar sekúndur.
Til að nudda salti í sárin þá fór Ásþór og horfði á úrslitaglímuna milli þess sem hafði unnið hann og annars júdómanns sem var með einhæfan glímustíl. Úr varð ein leiðinlegasta glíma sem sást á mótinu, báðir voru í vörn allan tíman, eintómar falssóknir allan tíman og vannst glíman á fjórum sóknarvítum og sá sem hafði unnið Ásþór hreppti silfur. Þetta var heilmikil lexía.
Fyrsta deginum var þar með lokið og þrátt fyrir góða viðleitni allra og ágæta möguleika fengust engin gullverðlaun þann daginn, en tvenn bronsverðlaun.
Dagur 2 Sunnudagur Daníela og Sævar
Þessi dagur hófst á IJF flokkum Daníelu og Sævars. Svo ótrúlega vildi til að þau glímdu á nákvæmlega sama augnabliki næstum allar sínar glímur og Sævar bað mig að þjálfa Daníelu frekar og hann mundi reyna að lauma Úlfi í þjálfarastólinn. Úlfur var svo vel klæddur og mannalegur að við komumst upp með það en ég náði að vera viðstaddur eina af glímum Sævars.
Daníela
Daníela vigtaði inn nákvæmlega eins og planið hafði verið í -78kg flokki en það kostaði að vakna snemma og svitna morgunninn sem kráningin átti sér stað. Flokkurinn hennar var mjög sanngjarn og flottur fyrir vikið og alveg á hreinu að glímurnar yrðu spennandi og skemmtilegar.
Daníela glímdi við þrjá andstæðinga frá Suður-Afríku og Bandaríkjunum. Hún hóf leikinn gegn mjög hávaxinni konu frá S-Afríku sem Daníela náði ekki einusinni upp að öxlum. Það varð gríðarlega spennandi glíma, en þótt hún hafi verið hærri þýddi það ekki að það væri endilega slæmt fyrir Daníelu því hún kæmist betur í djúpu köstin sín. Verra var með armlengdina því það reyndist afar erfitt að komast nægilega innarlega á hana.
Glíman var í járnum allan tímann og þeirri S-Afrísku tókst því miður að halda Daníelu nægilega langt frá sér til að hún fengi dæmt á sig víti. Daníela sótti hart en hafði ekki erindi sem erfiði og tapaði á sóknarvítinu.
Næsta glíma virtist ætla að ganga betur en hún fór á sama veg, dróst á langinn og tapaðist á minnsta mögulega mun. Daníela mátti þó vel við una því þessir andstæðingar voru með þeim hörðustu sem hún hefur lent gegn, sérstaklega sú fyrsta sem manni virtist mundu eiga flokkin eftir þetta, en hún tapaði engu að síður úrslitaglímunni á því að vera rekin úr keppni fyrir leggjatak.
Daníela varð því að láta sér nægja að glíma um bronsið og þar mætti hún enn einu sinni Michelle Myers sem hún hafði glímt gegn þrisvar sinnum í Dallas 4 vikum áður. Þá sást hve mikið Daníelu hafði farið fram í millitíðinni en Myers sem hafði unnið Daníelu í tveimur af þremur glímum þeirra í júní sá aldrei til sólar í þessum bardaga. Tvær glímurnar hennar fóru sem sé út á fullum tíma og töpuðust á minnsta mögulega mun og ein unnin þýddi bronsverðlaun. Daníela vildi áreiðanlega hafa annan lit á medalíunni eins og búast má við, en má vera mjög sátt við sinn hlut.
Sævar
Mjög var tekið eftir Sævari á þessu móti. Hann hafði ákveðið að vera í þungavigtinni og vó aðeins 109 kíló en andstæðingar hans voru ca. 115, 130 og 140 kg.
Glímurnar hans voru allar svipað langar og fóru allar á sama veg. Sævar, sem er nú orðinn mjög reyndur, stillti andstæðingum sínum upp, hitaði sig upp með nokkrum snöggum árásum áður en hann kom inn með kálið. Fyrstu glímuna vann hann á fullnaðarsigri ippon aðra glímuna á tveimur wazari sem telst ippon og þá síðustu sömuleiðis ef ég man rétt nú 12 dögum síðar. Því miður fyrir mig þá þurfti ég að horfa á þessa snilld yfir salinn allan frá vellinum sem Daníela glímdi á því eins og áður sagði þá fóru þær fram á sama tíma.
Eins og sjá má af myndinni voru keppinautar Sævars ríflega höfði og herðum hærri en hann, en Sævar stendur á mjög háum palli - Þeim sama og Daníela, Sævar og Úlfur standa á á myndunum hér að ofan.
Fólk fór mjög fögrum orðum um glímustíl Sævars og kurteisi við andstæðingana, innan sem utan vallar, en þeir komu allir til hans sjálfir eftirá og spjölluðu við keppinaut sinn. Það eru góð meðmæli!
Fyrsta gullið þessa síðustu helgi var í höfn og við vorum afar ánægð yfir því. Nú var aðeins Golden Score mótið eftir...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.