Blogg #31 Krúsað á Drekanum og siglt á lúxussnekkjunni

Verslunarferð

Fimmtudagurinn 25. júlí rann upp og þá kom í ljós að allir áttu eftir að versla. Við hvíldumst auðvitað vel fyrst eftir æfingabúðirnar og tókum svo Drekann – 16 manna ofurbílinn sem við neyddumst til að leigja - í bæinn. Best Buy og Ross urðu fyrir valinu helst, auk þess sem við fylltum aðeins á matarbirgðirnar í Publix. Einnig varð Game Stop fyrir víkingunum.

Halelújabúggabúgga 

Maður er að spá í hvaða rugli annaðhvort Íslendingar eru með innkaup og vöru og verslun eða hverskonar rugli Bandríkjamenn séu í. Varan út úr búð er mun lægri en heildsöluverðið hér heima eða það ímyndar maður sér. Hljóta verslanir þar ekki að fara á hausinn því verðið er svo hlægilegt? Nei, sömu verslanir eru þarna úti og voru þar fyrir 3 árum á meðan 50% gömlu verslananna á Íslandi eru farnir á hausinn og nýju verslanirnar og þær sem tórðu selja vöru sem er 200-400% dýrari en hér á Flórída og það á dýru svæði. Tökum sem dæmi að Daníela keypti 7 merkjavöruskópör handa sér og mömmu sinni á Flórída á 30.000 ISK samtals. Eftir hrun. Á okursólarströnd í Flórída. Ertu að grínast? Efnahagslögmálin eru greinilega í höndum Heisenbergs sem hvorki vissi hvað hann var að gera né hversvegna. Við gerðum það eina í stöðunni og puðruðum pening í afríska liðskjóla og höfðum bara gaman að öllu saman.

Hopla! 

Annars keyptum við fjölskyldan 4 gallabuxur, 6 skópör, 2 kjóla, 10 nærfatasett, 30 úrvalssokka, 5 myndaskyrtur, 2 hatta, 1 mittislinda og fjóra þjóðlega afríska kjóla fyrir 50.000 ISK slétt. Ekki gramm af rugli í gangi þar.

Skráningin á mótið

Afríska kjólasettið varð raunar einkennisklæðnaður íslenska hópsins og við mættum í því á mótið og á ströndina um kvöldið, fórum út að borða í því o.fl. og það var tekið eftir því.  Fyrsta heimsóknin á mótsstaðinn var farin í múnderingunni svona til þess að senda út "vibes". Það gekk ágætlega. Ásþór komst að því að hann varð að spámanni og allir fengu hlutverk í samræmi við klæðnaðinn.

Einkennisklæðnaður íslensku alíbabanna 

Í lokahófinu fjórum dögum síðar held ég að í það minnsta sjö manns hafi nefnt það sem merki þess að við kunnum að skemmta okkur, séum samheldin og ófeimin. Það var ljómandi. Verst að það er varla hægt að nota þetta hér á landi fyrir kulda en sjáum til. Kannski að gróðurhúsaáhrifin reddi fatalínunni hjá okkur?

Hópurinn í múnderingunni við mótsstaðinn 

Við eyddum föstudeginum 26. júlí í mótsskráninguna, fengum okkur að borða og versluðum eitthvað áður en við fórum aftur á ströndina. Bróðupartur dagsins fór reyndar í að hanga á mótsstaðnum og bíða eftir að fá bakmerkin saumuð á gallana okkar, en nokkrir aðilar höfðu tekið að sér að bíða fyrir framan okkar í röðinni með um 40 galla fyrir einhverja aðra.

Beðið eftir bútasaum 

Okkur leiddist ekki og Íslendingarnir reyndist eitt tveggja liða bíða þarna í einkennisfatnaði, Bahamasbúar voru í flottum íþróttagöllum merktum heimalandi sínu, við í afrísku kjólunum merktum ýmsum gúrúlegum táknum og guðamyndum. Sumir voru meira pimp en aðrir og vantaði bara olíulindina undir Sævar til að gera hann að arabískum milljarðamæringi.

Furstinn og spámaðurinn 

Þjálfarafundurinn

Um kvöldið var svo komið að því að mæta á flokkadráttinn og riðlaskiptinguna en venjan er að allir þjálfarar fari á slíka samkomu á mótshótelinu og gæti þess að allir lendi í réttum flokki og bera álitamál upp til lausnar áður en dregið er í riðla.

Fundarstaðurinn 

Nú bar svo við að hótelið var með svo litla sali að engir hentuðu. Því var boðað til fundarins á snekkju við Bahia höfnina skammt frá og hafði The Floridian Queen verið leigð til þess arna. Og þvílíkur lúxusfundur. Þeir kunna þetta ameríkanarnir þegar þeir vilja það. Þrjú dekk, tvö hlaðin veitingum, villibráðarkrydduð nautalund og meðlæti á 2. hæð, rækja, skelfiskur og annað sjávaralið ljúfmeti og með því á 3. hæð og TVEIR opnir barir með öllum vímuvöldum sem er löglegt að neyta í Bandaríkjunum plús svo auðvitað óáfengir drykkir sem voru okkar val.

WOW skyrtunum flaggað á fundinum 

Það er af sem áður var að Íslendingar urðu landi sínu alltaf til skammar í öllum svona teitum með drykkjulátum. Eina fólkið sem verður landi sínu til skammar nútildags eru í fjármálageiranum og stöku farþegar á alþjóðlegm flugleiðum.

Kvöldsigling eftir flokkaskiptinguna 

Skiptingin í riðlana var mjög flott nema hvað enn sem áður þurfti ég að aðskilja Úlf og Ásþór sem voru í þessum fáránlega +64kg flokki 13-14 ára, líkt og á þeim mótum sem haldin höfðu verið. Ég var tilbúinn með öll rökin og fór í þetta og komst að því að svo vel vildi til að sá sem var að raða í flokkana var einmitt fyrrverandi forseti júdósambandsins sem hafði komið þeim reglum inn að breyta mætti þyngdarflokkunum ef þyngdardreifingin var ójöfn. Reyndar þurfti hann að berjast fyrir því á sínum tíma með kjafti og klóm sem þýddi að ég þurfti hvorugt.

María og Sævar með Eduardo Saucedo á snekkjunni 

Málið var því auðsótt og Ási og Úlfur voru í sínum flokknum hvor OG ég fékk einn flokk settan inn þar fyrir ofan því Úlfur var 16 kílóum léttari en sá þyngsti í flokknum. Báðir strákarnir voru því næstþyngstir í sínum riðli og aldursflokki og var það vel. Það var raunar Sævar sem kom auga á það að ef Evrópskri þyngdarskiptingu yrði fylgt mundi þetta lenda svona, en ég hafði orðið Sævari úti um þjálfarapassa sem betur fer. Þau rök féllu í góðan jarðveg enda held ég að alla þjálfara og flesta mótshaldara sem ég hafi hitt í Bandaríkjunum langi til að fylgja henni.

Eldingar og útsýnið af snekkjunni 

 

Siglt var um sundin í Fort Lauderdale fram undir miðnætti, margir drukku ótæpilega en við héldum okkur á mottunni enda stórir dagar framundan hjá okkar fólki. Þarna voru saman komnir allir þjálfararnir, mótshaldararnir og þeir sem við komu æfingabúðunum að auki og við hefðum svo auðveldlega getað verið á siglingu þarna framundir morgun og engum leiðst.

Miðdekkið á Floridian Queen 

Fjölmargir mundu eftir Bjarna Friðrikssyni frá L.A. 1984, m.a. einn æðstu stjórnenda USA Judo hafði verið þar. Glíma hans og Leo White var þeim í fersku minni enda voru miklar vonir bundnar við Leo eftir að hann lagði Van der Valle, ríkjandi heims- og ólympíumeistara í glímunni á undan.

Becerra hjónin og íslensku þjálfararnir 

Þetta var allavega glimrandi kvöld og ég veit ekki hvaða mótshaldarar Junior júdómóta geta toppað þetta! Við fórum svo heim og lögðum okkur fyrir mótsdagana tvo sem framundan voru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband