Blogg #30 Æfingabúðir í Flórída
8.8.2013 | 21:37
Þröngt mega sáttir glíma
Mikil spenna var fyrir æfingabúðirnar. Þórarinn var fyrstur á dagskrá með yngri krökkunum á milli 09-11 á mánudagsmorgunninn og aftur frá 14-16. Hin eldri áttu tímann frá 11-13 og 16-18.
Gríðarlega færir þjálfarar höfðu verið ráðnir til starfa, margfaldir ólympíumedalíuhafar þ.á.m. kona með 7. dan frá Kúbu en hún hefur þrívegis komist á pall á ólympíuleikum og svo landsliðsmaður frá japanska landsliðinu sem sá um mikinn hluta æfinganna, en hann heitir Sasaki, og er í 60kg. Þau, og aðrir þjálfarar stóðu sig einstaklega vel og var mikil opinberun að fylgjast með þeim, sérstaklega Sasaki sem hafði þvílíka stjórn á líkamanum og hreyfingum öllum að það brutust út fagnaðarlæti eftir flest sem hann sýndi en þeir sem stunda júdó vita að það er ekki algengt á venjulegum æfingum.
Okkur kom strax á óvart í hversu litlum húsakynnum júdóæfingabúðirnar áttu að fara fram í. Allt of lítið Ballroom hafði verið tekið á leigu og var teppi á gólfinu sem olli því að ómögulegt var að festa dýnurnar niður og þær runnu til. Þar að auki var herbergið ekki alveg ferkantað þannig að ómögulegt var að stífa dýnurnar milli veggja.
Ég hafði töluverðar áhyggjur af þessu og mótshaldararnir líka og ákveðið var strax á fyrsta degi að þessar æfingabúðir yrðu haldnar á mótsstaðnum á næsta ári en of seint var að breyta nokkru þarna er allt var komið í gang. Sem betur fer meiddist enginn sökum þessara þrengsla enda brugðu þjálfararnir fyrir sig betri fætinum og aðlöguðu æfingarnar að hinum mikla fjölda og litla svæði.
Yngri hópurinn í æfingabúðum
Þórarinn Þeyr þurfti að leita dálítið í hópnum til að finna krakka sem hentaði að æfa með. Hann hefur sig ekki mikið í frammi og er dálítið feiminn þannig að fyrsta æfingin fór í að taka þá sem höfðu enga andstæðinga en það voru jafnan þeir sem nenntu ekki að æfa eða/og mun þyngri börn sem hann hafði ekkert með að æfa á móti.
Við stöppuðum í hann stálinu og áður en langt um leið var hann farinn að ganga í þá sem vildu og ætluðu að verða betri. Kom svo reyndar upp úr dúrnum að það voru strákar sem enduðu svo á að vinna sinn flokk ýmist á meistaramótinu helgina á eftir eða Golden Score mótinu. Hann fékk mikla þjálfun þarna og ekki veitti af, því ekki er um auðugan garð að gresja fyrir júdókrakka yfir sumartímann hér heima á Íslandi nema þá helst á Akureyri þar sem Þórarinn og Ásþór kíktu í heimsókn áður en þetta ævintýri hófst.
Hann mætti alltaf alla vikuna, og var farinn að fara á undan okkur til að mæta ekki of seint. Svona er að vera orðinn hvorki meira né minna en 9 ára! Ekki skemmdi fyrir að hann hafði fundið sér akkúrat passlega félaga og gekk milli þeirra í æfingunum og æfði helst ekki með neinum öðrum í seinni hluta æfingabúðanna. Það skilaði sér helgina eftir!
Eldri hópurinn í æfingabúðunum
Mætingin var upp og ofan í upphitunina hjá eldri hópnum, en eins og sjá má var AFAR þröngt á þingi. Þjálfararnir voru samt mjög góðir í að velja réttar upphitunaræfingar og fóru eftir plássinu sem var til staðar. Það voru þó allir með á flestum æfingunum nema hvað Daníela hvíldi á þriðjudaginn til að ná sér betur í ökklanum og síðasta daginn sneiddi hún hjá þeim æfingum sem reyndu á hann. Fyrir mestu auðvitað að vera í formi á mótinu!
Ásþór Loki hitti fyrir gamlan félaga frá því fyrir þremur árum, Nicholas Joseph. Sá er árinu eldri en Ásþór og þeir því ekki að keppa saman í flokki að þessu sinni. Þeim varð vel til vina áður og það entist enn. Yðar einlægur og faðir Nicks endurnýjuðu kynnin og hvöttum strákana til að æfa saman enda báðir í fremstu röð í sínum aldursflokki.
Úlfur og Grímur gerðu sér far um að æfa á móti nýju fólki og í eina skiptið sem þeir tóku á hvor öðrum kom undirritaður aðvífandi og rak þá í sundur. Þetta er húkkaraball júdómanna, svokallað júkkaraball, en sá vinnur sem svitnar mest og stendur lengst. Þeir náðu samt að kasta hvor öðrum aðeins fyrst eins og sést hér.
Sævar var nokkuð þyngri en næsti maður fyrir neðan hann en æfði eins og maður. Hann var kominn með fjölda aðdáenda ef svo má að orði komast, en fólk var afar hrifið af glímustílnum hans og uppáhaldsbrögðum hans og kom oft að orði við mig til að spyrja út í þennan geðþekka unga mann.
Daníela púlaði eins og ökklinn leyfði. Hún hafði snúið ökklann einni eða tveimur vikum áður en ferðin hófst og komist hjá meiriháttar skaða en þetta var að plaga hana. Engu að síður tók hún á og kom vel út úr æfingabúðunum. Sjón er eiginlega sögu ríkari og því miður er vandkvæðum háð að gera svona efni skil í kyrrmyndum og texta en vona að þið fáið smá nasa(svita)þef af þessu.
Af sögumanni er það að segja að hann (ég) keyrði alla 12 tímana í stóra, nýja bílnum sem hlaut nafnið Drekinn í höfuðið á nýjasta lagi þeirra Ásþórs og Þórarins en þeir eru í rokksveitinni Meistarar Dauðans. Það var fórnarkostnaður því þá fékk María Huld og krakkarnir tíma til að hvíla sig almennilega og vera fersk í æfingabúðirnar þá strax um morgunninn. María sá um að enginn yrði of seinn, allir fengju að borða og þar fram eftir götunum og það gekk allt eftir.
Allir ferskir... nema ég!
Yðar einlægur reyndi að mæta í æfingabúðirnar en líkaminn sagði stopp um hádegisbilið, enda þá búinn að vera í gangi frá því um átta um morgunninn þar áður og þar á undan var stuttur svefn á eftir júdóæfingu, skemmtiferð, verslunarferð, grilli og farangurspökkun. En ég á ekki að vera að væla, þetta var ljúft sjálfskaparvíti því við vorum Enn einusinni andstætt öllum líkindum og stjörnumerkjum mætt á réttum tíma, á réttum stað, tilbúin í slaginn. Nema ég sem svaf fram á miðjan dag, svo aftur fram á miðjan næsta dag með stuttum vökuhléum og var þá kominn í form.
Einhvernveginn var maður nægilega gáfaður að leggja sig EKKI á ströndinni í andartak því ég hefði sennilega drepist úr sólbruna. Segið svo að maður sé ekki gáfaður! Ég gladdist yfir því að þeir sem höfðu áhuga á ströndinni (sem voru allir hinir) fengu góðan tíma þar og sjórinn var yndislegur.
Rétt er að rifja það upp að innanbæjar í snúningum tók ég einn að mér að keyra Drekann, enda var hann þvílíkt fjárans flykki að ekki var hægur leikur að koma honum fyrir allsstaðar.
Hótelið rakar saman peningum
Ekki var allt eins og best var á kosið á hótelinu. Þeir rukkuðu $10 á sólarhring pr. herbergi fyrir internet, $20 (sem ég prúttaði niður í $10) fyrir bílastæði og okruðu viðbjóðslega á morgunverðinum, enda borðuðum við aðeins einu sinni þar. Svo mætti áfram telja, en úr varð að við ákváðum að nota almenningsnetið á veitingahúsunum inni í bænum. Ég strengdi þess hinsvegar heit að gista ALDREI aftur á hóteli í Bandaríkjunum í svona ferð þar sem morgunverður og internet og bílastæði eru ekki innifalin eða mjög ódýr. Þetta var algjört rán. Fyrir utan að flesta morgnana nærðist hópurinn á MacDonalds því bílaleigubíllinn hafði sett budgetið okkar í stórhættu.
En þetta bjargaðist allt saman! Meira um það næst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.