Blogg #18 Pennsylvania til Washington
9.7.2013 | 06:32
Sælir Íslendingar.
Klukkan er nú tæplega tvö að staðartíma hér í Washington DC.
Pittsburgh kvödd
Við vöknuðum sátt og glöð í morgun eftir góðan sunnudag, það er óhætt að segja það. Hópurinn dundaði sér við að taka sig saman á herbergjunum eitthvað fram yfir hádegi, það voru einhverjar auglýsingumhlaðnar bíómyndir á hótelrásunum sem varð að horfa á fram á síðustu stundu. Yðar einlægur þurfti á endanum að fara niður í andyri og láta vita að lestin færi eftir X mínútur með eða án farþega því María Huld, konan mín, var að lenda á Washington Dulles Airport eftir 6,5 klukkustundir og þangað tæki 5 tíma að keyra. Þá létu fórnuðu júdókempurnar auglýsingaflóðinu fyrir stundvísina og komu loks niður.
Ferðin til Washington
Bílferðin suður eftir gekk eins og í sögu. Við stoppuðum þrisvar til að svara kalli náttúrunnar og til að mjólka einmana bensíndælu einhversstaðar í Appalachia fjallgarðinum. Það er ofboðslega gaman að sjá hvernig hópurinn er að hristast almennilega saman. Hafið í huga að í hópnum erum við með 19 og 20 ára fólk fullorðna (halda þau) einstaklinga 3 örgeðja unglingspilta og einn níu ára sem kann ekki að halda þegja, lýgur aldrei og er með tónlist viðstöðulaust á heilanum og svo einn langferðabílstjórajúdóþjálfara. Þetta unga fólk er bara frábært Take it fom the Driver! Foreldrar, þið megið vera stolt af þeim, bara að láta ykkur vita það strax. Á ferðunum og á gististöðunum gengur ýmislegt á auðvitað en til þess er leikurinn gerður! Á mótunum og fundum þeim sem við höfum sótt á mótsstöðunum er hegðun þeirra, félagslyndi og kurteisi til algjörrar fyrirmyndar og ég held þau finni öll hve miklu það skilar.
Auðvitað bjóst maður við að fólk lærði júdó af þessu mikla ævintýri, en það er aðeins einn ávinningurinn.
Síðasti ferðalangurinn mætir
Allavega, við komumst tímanlega á hótelið og við Ásþór og Þórarinn renndum út á flugvöll eftir Maríu. Svo fórum við og fengum okkur að borða fyrir allt of mikinn pening miðað við planið og fórum svo heim. Júdófólkið slakaði á á meðan við María höfðum upp á stórmarkaði og keyptum eitt og annað, hentum fimm daga þvotti í þvottavél og þurrkara og sátum úti í svölu kvöldloftinu og spjölluðum um rómantískar gamanmyndir sem hún hafði notað sénsinn og horft á á meðan við strákarnir vorum ekki heima þessa síðustu daga.
Það er alveg magnað hvað það getur verið notalegt að sitja í kvöldkyrrðinni með engisprettur malandi í annað eyrað og þvottavél og þurrkara í hitt innan úr nálægri kytru ef rétta manneskjan situr andspænis manni að spjalla um daginn og veginn. Alveg frábært.
Bless í bili - Á morgun förum við til Washington að rölta um Smithsonian safnið og skreppum í te til Obama því hann hefur aldrei neitt að gera. Svo þarf hann líka að læra júdó en hann er algjör kjúklingur í augnablikinu eins og sjá má.
PS. Halló Beth! Íslendingar segið Halló! við Beth
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.