Blogg #6 - Jr. Olympics Championships Domestic 28.-29. júní

Irving Convention Center

Fyrsta mót ferðarinnar hófst snemma morguns á föstudag, strax eftir hið ógurlega ferðalag sem lýst var í bloggi #4 og lauk á laugardaginn. Allir voru reknir „frekar“ snemma í háttinn, nema yðar einlægu sem vakti frameftir við skipulagningu og bloggskrif. Það hefði nú verið meiri geðveikin að fara ekki að sofa fyrir miðnætti, þannig að það var nákvæmlega það sem maður gerði og hætti að skrifa um hálf-tvöleytið.

Mótshúsakynnin eru alveg mögnuð. Það tók dálitla stund að koma okkur fyrir, leggja bílnum í einu auðu bílastæðunum, sem voru uppi á þaki í ósanngjörnum hita

Ásþór og Úlfur

Eins og farið var yfir í síðasta bloggi lentu Ásþór og Úlfur saman í flokki þar sem þyngdardreyfing var tvöfalt meiri en eðlilegt er. Þeir stóðu sig hinsvegar báðir með prýði, unnu sína andstæðinga uns kom að þrekvöxnum mexíkóskum texasbúa sem heitir Geronimo Saucedo. Þrátt fyrir 10 kg þyngdarmun hafði Ásþór í tré við hann og fékk áminningu fyrir litla sókn einu sinni í glímunni. Hann tapaði á því en glíman hefði það vel getað farið á hinn veginn því Saucedo sóti afskaplega lítið og mest til sýnis til að fá ekki víti. Úlfur tók feilspor snemma í glímu sinni gegn honum og var fleygt á hörðu bragði en ég hafði á tilfinningunni að þar væri aðallega reynsluleysi um að kenna og að hann ætti mun meira inni.

Úlfur og Ásþór með Geronimo Saucedo

Ási og Úlfur lentu því sem oftar undanfarin ár á Íslandi, í glímunni um toppsætið sem þeim stóð til boða. Þeir þekkja hvorn annan algerlega út og inn og í sínum viðureignum heima fyrir hefur Ásþór oftar haft betur. En í þetta skiptið sá Úlfur algerlega við honum þegar Ásþór hljóp á sig og reyndi leggjarbragð án þess að undirbúa það vel og tók gríðarlega vel útfært mótbragð sem færði fullnaðarsigur – Ippon.  Þeir félagar komust sem sé báðir á pall:

Verðlaun: Úlfur – Silfur. Ásþór Loki – Brons.

Sævar

 

Keppt var í flokkum Daníelu og Sævars til skiptis á nánast samliggjandi dýnum, en það gladdi mig mjög sem þjálfara því þá þurfti ég ekki að hlaupa yfir mótsstaðinn þveran og endilangan til að ná að sitja í þjálfarasætinu við völlinn og styðja þau með taktískum upplýsingum, en gríðarlegu getur munað fyrir keppendur að hafa eða ekki hafa þriðja augað á hliðarlínunni sem sér glímuna utan frá.

Það kom okkur í opna skjöldu þegar í ljós kom að fyrsti andstæðingur Sævars og sigurstranglegasti maðurinn í hans flokki var L.A. Smith sem er ríkjandi Bandaríkjameistari Seniora, þ.e. fullorðinna, í -100kg flokki en hann er aðeins 20 ára gamall og er líklegur kandídat aðkeppa fyrir þeirra hönd á næstu Ólympíuleikum. Sævar stóð sig gríðarlega vel, en laut í lægra haldi fyrir honum. Svo vann hann tvær glímur og tapaði einni og það dugði honum til verðlauna fyrir þriðja sætið á þessu fyrsta móti.

Verðlaun: Brons fyrir Sævar!

Daníela

Margir keppendur voru í flokki Danélu og hver glíma gríðarlega mikilvæg. Allir keppendurnir höfðu undirbúið sig eins vel fyrir ferðina og kostur var á og Daníela ekki síst, en hún þurfti að keyra upp árásargirnina og bitið í sóknunum en það vantar oft í glímunum heima fyrir. Undirbúningurinn borgaði sig og hún hóf leikinn vel og sigraði unga konu sem átti eftir að mæta henni oft næstu daga, Myers frá Bandaríkjunum. Eftir gríðarlega harða og langa baráttu tókst Daníelu að hafa betur og tók það svo á hana að hún var við það að líða út af sökum þreytu, vökvaskorts og andlegu álagi, en eins og með hana, Úlf og Grím þá var þetta mót það langstærsta sem þau höfðu tekið þátt í. Henni lá einnig við örmögnun eftir aðra glímuna sem hún tapaði naumlega og eftir það tókum við á aðferðum til að spara orku. Henni tókst það og átti tvær glímur eftir og vann aðra en tapaði hinni gegn sigurvegara riðilsins. Það dugði henni þó til verðlaunasætis.

Verðlaun: Brons fyrir Daníelu!

Grímur og Þórarinn í erfiðum róðri

Grímur að

Eins og lýst var í síðasta bloggi áttu Grímur og Þórarinn við ákveðið ofurefli að etja sökum formsins á mótinu og þeim venjum sem tíðkast erlendis. Þrátt fyrir gríðarlega hetjulega baráttu og góða spretti, þá þurftu þeir að játa sig sigraða og töpuðu sínum tveimur glímum hvor og voru þar með úr leik. Grímur var hinn brattasti en Þórarinn tók þessu frekar illa til að byrja með en hresstist fljótlega þegar Grímur fór yfir það með honum hve mikið þeir höfðu lært á þessu. Gott er að eiga góðan að!

Verðlaun: Keppnisreynsla og vinátta. 

Samantekt

Frábær árangur náðist sem sé á FYRSTA mótinu og eins og gefur að skilja á móti með yfir 800 keppendum þá var gríðarlegur fjöldi júdófélaga hér sem fór algerlega tómhentur heim. Hópurinn okkar vakti athygli fyrir samstöðu og samhjálp, íþróttamannslega og drengilega framkomu og vinalegheit í alla staði. Ég hef enga tölu á því hversu oft þennan fyrsta dag ókunnugir gengu upp að mér og hrósuðu mínu fólki og reyndar mér líka fyrir þjálfunina, en okkar litli hópur frá Íslandi hafði vakið talsverða athygli. Við erum jú gjaldþrota og undir sjöþúsundmilljón tonnum af eldjfallaösku og hrauni.

WOW Júdó í Bandaríkjunum 2013 - Staðan 29. júní að einu móti loknu:

Brons: 3

Silfur: 1

Gull: 0 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Grímur, þetta er reynsla sem fer öll inn á harða diskinn og kemur til góða síðar.

kveðja,  Gísli afi

Gísli I. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 1.7.2013 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband