Blogg #17 Bandaríkjameistarar!

Dagurinn í dag var svakalegur fyrir Íslenska liðið og þetta blogg verður eftir því langt.

Flokkarnir voru:

  • Sævar í IJF, +100 kg (vigtaði aðeins106)
  • Daníela í IJF, -78 kg
  • Úlfur í Juvenile 1, +80 kg
  • Ásþór í Juvenile 1, -78 kg

 

Upphitun

Við vöknuðum snemma, borðuðum mjög vel og krakkarnir hituðu svo upp í sameiningu. Grímur henti sér í galla til að vera æfingadúkka og Þórarinn var á vídeómyndavélinni allan tímann og stóð sig með mikilli prýði. Ég, Rúnar, þjálfari þessa flotta hóps var bókstaflega á hlaupum út um allt á meðan mótið varði því þau fjögur sem kepptu hjá okkur í dag dreifðust á þrjá velli og við vorum svo lánssöm að ekkert þeirra lenti í að glíma á nákvæmlega sama tíma, en oft munaði ekki nema hálfri til einni mínútu.

 

 

Sævar

Þórarinn á myndavélinni

Aldrei þessu vant var flokkur Sævars stærstur. Hann glímdi fyrst við bandaríkjamann sem var í fremur lélegu formi og ekki til stórræðanna líklegur. Sævar pakkaði honum líka saman á skammri stundu með flottum axlarköstum (seoinage), smá upphitun bara þar. Síðan dróst hann á móti stærsta og sterkasta náunganum í grúppunni, en það var risavaxinn rússi, búsettur í Bandaríkjunum. Stærðarhlutföllinn á milli þeirra voru eins og peð á móti hrók en hann var eitthvað yfir 135 kg. Við Sævar settum saman strategíu á móti honum því við sáum á fyrstu glímunni hans. Rússinn virtist vera hægur og þunglamalegur samanborið við Sævar, eins og oft vill verða með þungavigtara. Því gilti að vera á hreyfingu og þreyta á honum handleggina, opna fótastöðuna hans með sópum í innanverða fæturna en við gerðum ráð fyrir að hann yrði í hægri stöðu til að blokka axlarköstin hans Sævars sem hann flassaði í fyrstu glímunni.

Það gekk eftir áætlun og reyndar átti glíman að vera styttri en hún varð því Sævar náði honum í hengingu en dómarinn bjargaði rússanum sem var orðinn helblár og hreyfingarlaus með því að kalla Matte, en þá er glíman stoppuð af vegna aðgerðaleysis, sem var einmitt EKKI málið. Ekki var að sökum að spyrja þegar rússinn komst í gólfglímuna, hann fékk nægan tíma en Sævar sá við honum. Glíman endaði með flottu kasti upp á fullnaðarsigur.

Sævar sigurvegari

Rússinn komst í uppreisnarglímur og formatið var s.k. true double elimination sem þýddi að tapa þyrfti tveimur glímum til að vera úr leik. Hann vann sig áfram og Sævar þurfti því að glíma við hann aftur. Sú glíma varð lengri og þyngri, við breyttum strategíunni aðeins og gerðum ráð fyrir mótbrögðum við axlarkastinu og það gekk eftir, rússinn náði Sævari niður í fastatak sem Sævari tókst að losa og svo að kasta honum fyrir hálfan fullnaðarsigur – s.k. Wazari – en Sævar svaraði með hálfnaðarsigurskasti, hengingu sem dró máttinn aftur úr Rússanum, fastataki upp á yuko og svo að lokum öðru wazari sem varð þarmeð að ippon. Það tók nokkuð á Sævar en rússinn var alveg búinn. Vel fór á með þeim eftir glímuna og Sævar tók sig svakalega vel út á verðlaunapallinum með risunum tveim.

Þarmeð var þriðja gullið í höfn og annar hreinræktaði Bandaríkjameistaratitillinn, en þann fyrsta hlaut Þórarinn þeyr daginn áður. Fyrstu gullverðlaun ferðarinnar hlau Daníela auðvitað í Central Northern American Championships sem var mjög óvænt og stór viðbót við safnið okkar. Næst var hinsvegar komið að henni að berjast um Bandaríkjameistaratitil.

Daníela

Ásþór og Daníela hita upp

Riðill Daníelu var fámennari í morgun en í gær því keppandi hafði dregið sig í hlé og því voru þær tvær eftir. Hvað olli vitum við ekki en hvað sem því leið, þá var andstæðingur hennar fullu höfðinu hærri en Daníela og með gríðarlega armlengd og styrk. Hana skorti hinsvegar ráð við Daníelu í fyrstu umferðinni, en við lögðum upp með svipað plan og fyrir Sævar, að freista þess að andstæðingur hennar ofmetnaðist vegna stærðarinnar og reyndi að stýra henni of mikið. Því var Daníela á góðri hreyfingu og notaði það til að komast inn fyrir hendurnar á þeirri bandarísku í sóknir. Brögðin sem við lögðum upp með voru drop-seoinage, ko-/ouchigari og seoiotoshi, þ.e. djúp axlarköst, innri sóp og axlarkast úr gleiðri stöðu. Það gekk vel, anstæðingurinn fékk sóknarvíti á sig og Daníela reyndi við hengingu og þegar það gekk ekki skipti hún yfir í alveg magnað fastatak sem hún hélt til enda.

Þetta tók gríðarlega á og í hitanum og loftinu hér þurfti að drekka mikið á milli glíma. Sú seinni var erfiðari en sú bandaríska brást við eins og við væntum og höfðum undirbúið.

Smá stærðarmunur

Það sem var sérlega ánægjulegt við seinni glímuna, fyrir utan að hún vannst, var að seoiotoshi er kast sem er í sérstöku uppáhaldi hjá Daníelu á æfingum, hún æfir það endalaust en hefur held ég aldrei kastað því á móti þótt hún hafi oft farið hálfa leið inn. Ég bað hana að skjóta því í miðri glímu og fara þá alla leið með það. Þannig endaði glíman nákvæmlega og kastið var alveg hreint stórkostlega flott ippon. Bandaríkjameistaratitill í höfn hjá Daníelu!

Þegar hingað var komið höfðu Úlfur og Ásþór glímt einhverjar glímur, ég hlaupið á milli og þjálfað og komið var að úrslitaglímunum þeirra. Úlfur fyrst.

Úlfur

Krakkarnir með mótsstjóra og góðum þjálfara

Úlfur var léttastur í þriggja manna riðli og fyrsta glíman hans var endalaus röð vondra árása hjá Úlfi og gaf hann hvað eftir annað séns á sér og slapp hvað eftir annað með skrekkinn. Ég var að trompast á línunni því hann gerði alltaf sömu vitleysuna sem ég var búinn að harðbanna og sýna bæði honum og Grími vídeó frá fyrri mótunum þar sem þetta kostaði þá samtals þrjá sigra. Ef ég hefði getað hlaupið inn á völlinn og lamið hann í hausinn þá hefði ég gert það og kallaði á hann eins og ég gat og Sævar sömuleiðis standandi við hlið mér. Allt kom fyrir ekki og það hlaut að koma að því að andstæðingurinn kæmist inn í kast úr þessum hælkrók Úlfs og þá var heppnin með Úlfi, hann tók einhvern örvæntingarfullan kipp sem snéri honum hreinlega í 180 gráður umhverfis andstæðinginn, ríghélt í hann og lenti ofan á honum í stað þess að lenda undir honum. Ippon handa Úlfi en við Sævar hrósuðum honum ekki þegar hann kom útaf heldur hundskömmuðum hann. Ég sagði honum að drullast til að kasta góðu köstunum sínum eins og Uchi Mata sem er einskonar sniðglíma á lofti, hann fengi ekki annan svona grísaséns.

Seinni glíman hans var úrslitaglíman og hún var ekki löng. Ég var búinn að lesa svo yfir hausamótunum á Úlfi að hann fór beint inn í Uchi Mata og kastaði glæsilegasta kasti sínu til þessa, hreint ippon kast, fullnaðarsigur og þriðji Bandaríkjameistaratitillinn þennan dag í höfn.

 

Úlfur Bandaríkjameistari

Ásþór Loki og Úlfur lentu loksins í mismunandi riðlum og nú var röðin komin að honum að fullkomna daginn.

 

Ásþór Loki

Upphitun Ásþór

Það að vera seinasti keppandinn í röðinni frá Íslandi á svona degi er tvíbent. Allir hinir voru sitjandi með gullpening um hálsinn og meistaratitil að státa af - Hvað gerist? Maður getur guggnað og stressast og tapað eða einbeitt sér að verkefninu og klárað það!

 

 

 

Ásþór sigurvegari

Svona í stuttu máli, þá áttu þessir bandarísku strákar aldrei möguleika. Sá fyrsti var stæltur svertingi sem var augljóslega leggjarbragðamaður af hreyfingunum að dæma og ég kallaði það inn á til Ása. Við lögðum upp með að hann væri ekkert að flýta sér, tæki sér tíma í að ná betri tökum og hreyfa manninn um gólfið og gera ekki árás fyrr en að því loknu þannig að ekki næðist mótbragð. 

Það gekk eins og í sögu, Ásþór leyfði honum ekki að gera neitt og síst að koma leggjarbrögðunum að. Hann notaði sjálfsöryggið vel, reif drenginn upp í loftið og fleygði honum á axlarkasti á mikilli áframhreyfingu þannig að Ásþór flatti hann út eins og sveitalummu.

Samanburður -78 kg

Seinni glíman var gegn mjög stórum og kraftalegum gaur. Hann var örfáum sentímetrum lægri en Ásþór en mun massaðri. Við lögðum upp með hreyfingu og mjög lág leggjabrögð og titillinn var einfaldlega aldrei í hættu. Það er ekki hægt að skrifa þetta dramatískt, þetta var bara stutt og skemmtileg jarðarför en Ásþór felldi hann með utanákrók og stýrði honum fagmannlega á bakið. Ásþór Loki fékk þar með fjórðu gullverðlaun WOW Júdóhópsins! 

Hvað nú?

Nú tekur við ein nótt til í Pittsburgh, þá dvöl í Washington þar sem María Huld kemur til okkar og svo keyrsla til Georgíu þar sem við taka harðar júdóæfingar.

Pabbinn með strákana

Annars höfðu samband við mig tveir merkilegir menn, annar var Asano, forseti USJF (US Judo Federation) sem mun standa fyrir Jr. Nationals á næsta ári sem haldið verður á Hawaii hvorki meira né minna. Hann vildi endilega fá okkur og mér finnst líklegt að hægt sé að landa góðum díl á dvöl þar sökum aðstæðna við að komast þangað frá Íslandi. Hinir kontaktarnir sem gaman var að sjá í dag voru foreldrar iðkenda í Pedro´s Judo og þjálfari í þeim klúbbi. Það er ekki bara einhver klúbbur, þeir unnu öll verðlaun eiginlega sem við unnum ekki og engin furða – Jimmy Pedro er landsliðsþjálfarinn og þetta er klúbburinn hans þar sem Kayla Harrison ólympíumeistari og Travis Stevens æfa.

Okkur var í stuttu máli boðið í æfingabúðir seinustu vikuna í Júlí með bandaríska landsliðinu en við urðum eiginlega að hafna því þ.s. það er nákvæmlega vikan sem við verðum í Flórída þar sem greitt hefur verið fyrir námskeið, hótel og aðal mótið í ferðinni. Þeir skildu það, enda munu keppendur fara frá þeim á mótið og við hitta þau aftur þar. Þess í stað erum við velkomin til þeirra við næsta tilefni og er planið að samræma æfingabúðir þar og ferðir með „einhverju“ lággjaldaflugfélagi sem er „vonandi“ að fara að fljúga til Bandaríkjanna. Það verður nú ekki leiðinlegt að æfa með því gengi þegar þar að kemur!

 

Samantekt á WOW Júdó 2013 í Bandaríkjunum 1. júlí 2013

Smá villa var í fyrri uppfærslum en við höfðum einu silfri meira og einu bronsi færra en við héldum. Staðan er núna. 

Brons: 5

Silfur: 5

Gull: 6

Titlar: 1 x North & Central American Champion, 4 x Jr. National Champion.

Allar medalíur 7. júlí 2013


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband