Blogg #7 Stígandi í júdóinu á JO International, 30. júlí í Dallas, Texas!

Næsta mót var alþjóðlega Jr. Judo Olympics mótið sem haldið var á sama stað. Fleirum var boðið til leiks og mótið var stærra en daginn áður. Nokkrir þáttakendur sem krakkarnir höfðu áður mætt voru eftir sig og stöku slasaður eftir fyrri daginn þannig að einhver afföll urðu af sumum flokkum, en nýir keppendur bættu það upp. Fleiri þáttakendur voru a.m.k. í heildina. Okkar lið tók ekki eftir miklum breytingum nema þau elstu, Daníela og Sævar.

Gaman að leggja af stað!

Gaman er að segja frá því að framkoma, keppnisandi og harkan hjá íslensku keppendunum svo og hreinlega vegalengdin sem jafn margir keppendur og raun ber vitni lögðu að baki, hefur vakið nokkra athygli og hreinlega rignir yfir okkur tilboðum, heimboðum, samvinnubeiðnum og fleiru. Meira um það síðar. Það er allavega ekki leiðinlegt!

Grímur -81kg, 15 -17 ára

JO International var skipt í tvo fasa. Í þeim fyrri glímdi Grímur einn okkar keppenda og var sem fyrr að eiga við eldri stráka. Hann tók þó framförum frá því daginn áður og gat nýtt styrk sinn til að komast í mjög góða stöðu en skorti sem fyrr reynslu og tefldi of tæpt. Hann var með yfirburði í fyrstu glímunni styrklega séð, en fór inn í kast eins og áður án þess að svipta hinn jafnvægi og var refsað í bæði skiptin. Veruleg framför var á bardögum hans frá fyrri degi, en hann var ekki sáttur auðvitað.

Verðlaun: Reynsla

Fasi 2 – Erfið skipting milli dýna

Í fasa tvö voru Sævar og Daníela öðru megin í salnum að keppa og Úlfur, Grímur og Þórarinn hinum megin. Það er algjör martröð fyrir þjálfara sem er einn með svo stóran hóp því maður er hlaupandi á milli dýna og það er útilokað annað en að glímur stangist á og þá getur maður ekki þjálfað báða. Aðrir keppendur mega ekki þjálfa keppendur úr þjálfarastólnum og því þurfa þeir að vera uppi í pöllum.

Þórarinn

GrímurOgÞórarinnS

Lítið eitt fleiri einstaklingar voru í flokki Þórarins þennan dag, en hann var enn einfaldlega of þungur fyrir þennan flokk. Það er ekki þess virði að fara með börn á þessi meistaramót nema þau séu grönn og í toppformi. Hlutfall fitu og vöðva verður einfaldlega að vera innan ákveðinna marka eigi þau að eiga séns, svo gífurlegu munar. Hann glímdi þó mun betur en á fyrra mótinu og glímurnar voru lengri.

Reyndar er eitt sem ekki hefur áður verið sagt, en Þórarinn hefur ekki haft neina fasta æfingafélaga né æfingar í meira en mánuð fyrir þessi mót því öll félög utan Draupnis leggja niður barnaæfingarnar yfir sumarið. Það gerði slæma stöðu auðvitað mun verri. Við sjáum hvernig staðan verður á næstu mótum. En hvernig sem það verður, þá er gott að eiga góðan að og Grímur sá um að hressa litla karlinn við.

Verðlaun: Reynsla og hæfileikinn til að halda aftur af tárum og ekkasogum jókst.

Ásþór og Úlfur

Líkt og daginn áður reyndist Geronimo Saucedo þeim félögum erfiður ljár í þúfu. Ásþór byrjaði þó á því að komast yfir og nú var það Geronimo sem fékk víti fyrir sóknarleysi. Hann var mjög taugaveiklaður þegar glíman byrjaði, þjálfarinn hans alveg brjálaður og það var alveg ljóst að hann vissi ekki hvernig hann átti að sækja gegn Ásþóri. En eftir langa glímu gleymdi Ásþór sér augnablik og sótti inn í ójafnvægi og Geronimo notaði tækifærið og náði að snúa hann niður og þótt hann skoraði ekki mikið fyrir það þá lenti hann í fastataki og kláraði glímuna þannig. Úlfur stóð sig verulega mun betur en daginn áður og náði stórglæsilegu leggjarbragði á honum og hefði margur dómarinn gefið Ippon. En heimamaðurinn hafði lukkuna með sér og slapp með waza-ari (sem er hálfur fullnaðarsigur). Svo sótti Úlfur inn í vanhugsaða árás seinna í glímunni og var kastað á fullnaðarsigri.

Þeir félagar unnu hinsvegar Pavlov – Rússa sem var alger snillingur í gólfglímu en slakur í standandi glímu. Úlfur kastaði honum á Ippon en hann braut fjórum sinnum af sér gegn Ásþóri og var dæmdur úr keppni. Síðasti andstæðingurinn hafði látið færa sig í þyngsta flokkinn daginn áður til að reyna að krækja í stig og keppt við 102 kg og 120 kg menn. Styst er frá því að segja að hann meiddist það illa að hann dró sig úr keppni og urðu Úlfur og Ásþór því enn að glíma um silfurverðlaunin.

Verdlaun_Dagur2_JOS

Ásþór fór gætilegar núna og glíman dróst örlítið á langinn og var gríðarlega spennandi. Úlfur skaut inn hættulegum Uchi-Mata árásum (e.k. sniðglíma á lofti) sem Ásþóri tókst naumlega að komast undan og Ásþór náði næstum að fella Úlf með leggjar og herðaköstum. Glímunni lauk skyndilega þegar Ásþór komst inn í standandi Ippon Seoinage, Úlfur náði að stöðva það andartak en með gríðarlegu átaki lyfti Ásþór honum upp og kastaði honum á einstaklega háu og glæsilegu fullnaðarsigurskasti.

Þegra Úlfur kom og þakkaði Ásþóri glímuna hafði hann einfaldlega á orði: „Eitt-eitt“.

Verðlaun: Ásþór – Silfur. Úlfur – Brons.

Daníela

Andstæðingur Daníelu var Michelle Myers, en allar aðrar höfðu því miður dregið sig úr keppni eftir fyrri keppnina þótt um stigamót væri að ræða. Þær höfðu sagt Daníelu það daginn áður að þær hafi verið á 500 kaloría dagsskammti af mat skv. skipun þjálfarans til að ná niður fyrir 78 kg og vera má að einhverjar hafi verið það búnar á því eða meiðst.

OJ Domestics - Verðlaunaafhending

Keppt er í „Best out of Three“ og Myers var einbeitt og hafði betur í tveim glímum af þrem. Daníela var ekki sátt við þetta, en því miður hafði mér ekki tekist að vera að coacha hana og Sævar þ.s. yngri drengirnir voru einir hinumegin í salnum á sama tíma að glíma og hún. En þeirra rimma var ekki búin eins og sést í næsta bloggi.

Meðfylgjandi mynd er af verðlaunalínunni daginn áður og er Myers lengst til hægri á henni. 

Verðlaun: Silfur

Sævar

Líkt og Daníela átti Sævar hafði fækkað mjög í þeirra flokkum og einungis voru þrír keppendur í hans flokki, þar af sá sem lent hafði í öðru sæti daginn áður. Sævar átti mjög erfitt uppdráttar og lenti í þriðja sæti af þrem keppendum. Hann var gríðarlega ósáttur við útkomuna og fannst halla á sig dómum og undir það var tekið af þjálfurum á svæðinu. Hann beit þó á jaxlinnn og ákvað að gera betur von bráðar. Okkur hafði nefnilega borist einstaklega skemmtilegt boð um þáttöku á enn einu stórmóti, seinna sama dag, og segir frá því í næsta bloggi og þar mundi hann eiga aftur við þennan kappa, Kevin Castillio frá Costa Rica.

Verðlaun: Brons

Samantekt á WOW Júdó í Bandaríkjunum- Staðan kl. 14.00 30. júní að tveimur mótum loknum:

Brons: 5

Silfur: 3

 

Gull: 0 

 Silfur frá Jr. Judo Olympics í Texas


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband