Blogg #5 - Dallas, Texas - Síðustu aðgerðir fyrir mótin

Vigtun og skipting í flokka – Dallas, Texas 27.-28. júní, 2013

Vigtun fór fram tvo daga, og fór eftir því hvenær hver átti að keppa – á föstdegi eða laugardegi. Laugardagsvigtanirnar giltu svo líka fyrir næsta mót sem yrði á sunnudag.

Til útskýringar þeim sem ekki vita, þá er þáttakendum í júdó skipt í flokka eftir aldri og þyngd. Það hljómar ósköp einfalt og skipulegt en er það ekki og getur verið gríðarlega ósanngjarnt ef ekki er rétt með farið þegar börn eiga í hlut. Fullorðið fólk passar ágætlega í þannig kassa, en ekki börn.

Þórarinn Þeyr (9 ára) – Vigtaði á föstudag fyrir laugardags- og sunnudagsmótin

Ásþór og Þórarinn daginn fyrir brottför

Fyrirfram var ljóst að mögulegt vandamál yrði fyrir Þórarinn Þey, 9 ára, að keppa í sínum flokki því hann er fæddur alveg seinast á árinu, lágvaxinn og ekki sérlega sinaber. Bara svona „venjulega vaxið“ barn skv. íslenskum stöðlum. Hér úti tíðkast hinsvegar miklar öfgar í barnaþjálfun frá unga aldri, erfiðir kúrar, svelti og miklar brennsluæfingar frá 6 ára aldri sem miða að því að hámarka hlutfall vöðva gagnvart fitu og hámarka með því snerpu, líkamshæð og styrk miðað við flokk. Flokksskiptingin nær yfir nokkur kíló -34 til -38. Það þýðir hinsvegar að 42-44 kílóa „venjuleg“ börn eru skorin niður í -38 kg, vigtuð þannig og svo þyngd eins og mögulegt er á milli vigtunar og móts, en sá tími getur verið allt frá 24 tímum til tveggja sólarhringa. „Venjuleg“ börn sem ekki ganga í gegnum neitt sérstakt af því tagi, eins og Þórarinn og vigtar 36,4 kg. við vigtun eigaþá við ofurefli að etja. Á Íslandi er komist hjá þessu á flestum mótum með samráði þjálfara sem tefla saman börnm af svipaðri getu, en hér úti er komið punktakerfi og peningakerfi á mót 6 ára og eldri og því verður þetta svona. Þórarinn lenti þarna en ég ákvað að sjá hvernig skiptingin yrði.

Ásþór og Úlfur (14 ára) – Vigtuðu á fimmtudag fyrir föstudags- og sunnudagsmótin

Ásþór er 70kg og Úlfur 77. Þeir lentu í þeirri sérstöku aðstöðu að þótt þeir væru í 13-14 ára flokknum þá var þyngsti mögulegi flokkurinn +64 kg. Það þýddi að sá sem var rúm 69 kíló eins og Ásþór gat hæglega lent í flokki gegn +100 kg manni. Það gefur auðvitað auga leið að er fáránlega ósanngjarnt. Það sem þjálfurum stendur til boða í því tilviki er að mæta á fundinn þar sem dregið er í flokka og fá honum skipt upp af öryggisástæðum, en ekkert er tryggt í því efni. Sem betur fer tókst mér að setja fram mál mitt almennilega þegar í ljós kom að strákarnir í þessum flokki voru frá 69 kg til 120 kg. USA Judo ætlaði engu að síður að draga í flokkna en þá er það þjálfaranna að kalla fram í og breyta þessu. Því miður voru hinsvegar ekki nægilega margar skráningar til að deila þeim Ásþóri og Úlfi í sitthvorn flokkinn en á þeim munar miklu meiru en eðlilegt er innan flokks. Í Evrópu er Ásþór í -73kg flokki en Úlfur í –81kg en hér voru mótshaldarar ekki tilbúnir að hafa miðflokkinn og höfðu því alla 63-81kg saman í flokki.

Þetta var talsvert áfall fyrir Ásþór því bæði veit hann hversu ósanngjarnt það er og svo vildi hann og Úlfur helst ekki keppa um sömu sætin enda eru þeir vinir og félagar og hálf-bjánalegt að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að slá hvorn annan út. Það varð hinsvegar ekki umflúið.

Daníela (19 ára) og Sævar (20 ára) – Vigtuðu á föstudag fyrir laugardags- og sunnudagsmótin

Daníela hafði verið að miða á -78kg flokkinn og náð því takmarki fyrir tæpum 2 vikum og þurfti bara að gæta sín. Ein lítil flaska af vatni er hálft kíló! Það að hora sig niður í gufu daginn frir mót (sem hér í Texas felst í því að fara í hettupeysu og út í svækjuna að hlaupa) kostar orku, einbeitingar- og úthaldstap. Sævar þurfti að ná af sér þó nokkrum kílóum á milli klukkan 09.00 og 14.00 og Daníela tók að sér að píska hann áfram ef þurfti. Hann stóð sína plikt og það hjálpaði að úti var 40 stiga hiti þannig að fimm mínútum áður en vigtunin lokaði klukkan 14.00 var Sævar kominn niður fyrir 100 kg og vigtaði 99,9 kg takk fyrir. Hann var hinsvegar orðinn líkamlega ófær um að skyrpa sökum vökvaleysis en við hin biðum hans utan við vigtunarherbergið með rúman lítra af Gatoradel sem hann drakk allan í 20 skrefum. Svona er bræðralagið!

Köttið mikla Daníela og Sævar

Grímur (15 ára) – Vigtaði á fimmtudag fyrir föstudags- og sunnudagsmótin

Grímur var nákvæmlega jafn þungur og hentaði honum best við vigtun og lenti í -81kg flokki. Öfugt við alla hina júdómennina var þyngdin var ekki andstæðingur hans númer eitt, heldur aldurinn, en hann var yngstur í flokki 15 til 17 ára. Á þeim árum á sér stað gríðarlegt stökk hjá flestum drengjum. Nær lagi væri að segja að þeir breytast úr drengjum við 15 ára aldurinn í karlmenn við 18 ára aldurinn eða svo. En þetta var vitað mál fyrirfram og Grímur sem er gríðarlega hraustur líkamlega hafði ákveðið að stefna fyrst og fremst á því að öðlast keppnisreynslu og gera sitt besta út í gegn. Þess ber að geta að enginn annar 15 ára einstaklingur var skráður til keppni, en það er vegna þess að þjálfarar þeirra sem senda unglinga á þessi mót vita hve erfiður róðurinn er. En Íslendingar eru klikk auðvitað þannig að af keppendunum í ferðinni eru þrír af sex í mjög erfiðum málum, annaðhvor þyngdarflokkalega séð eða aldurslega séð.

Gerónímó!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband